Vinnumarkaðsvefur

Yfirvinna iðn- og tæknifólks 1 & 2

Yfirvinna iðn- og tæknifólks var um langt skeið verið greidd með tímakaupi sem samsvarar 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Í kjarasamningum iðn- og tæknifólks 2019 var samið um tvískipta yfirvinnu, yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2 frá 1. apríl 2020.

Yfirvinna 1 er 1% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu en yfirvinna 2 1,15% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Yfirvinnuálag getur þó verið annað í einstaka fyrirtækjum eftir því hvernig staðið er að yfirborgun ofan á tímakaup.

Til greina kemur að atvinnurekandi og starfsmenn semji um frestun upptöku yfirvinnu 1 og 2 og styðjist áfram við áðurgildandi álag eða semji um nýtt meðalálag. Hér undir form & eyðublöð má nálgast tvenns konar samningsform:

Samningur um frestun yfirvinnu 1&2 (virkum vinnutíma ekki frestað)
Samningur um frestun yfirvinnu 1&2 og virks vinnutíma

Sjá einnig almenna kynningu á kjarasamningum iðnaðarmanna , umfjöllun um virkan vinnutíma iðnaðarmanna 1. apríl 2020 og um vinnutímastyttingu iðnaðarmanna 2024.

Síðast uppfært: 8. jan. 2024

Af hverju var samið um yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2?

Mikil áhersla var lögð á það af hálfu stéttarfélaga iðnaðarmanna að draga úr yfirvinnu í greinum þar sem félögin töldu hana óhóflega.

Yfirvinnu 1 og 2 er ætlað að stuðla að fjölskylduvænni vinnustöðum og gefa skýrt til kynna að yfirvinna yfir ákveðin mörk sé óæskileg, sé a.m.k. ekki hluti skipulagðrar vinnu.

Hver eru hlutföll yfirvinnu 1 og 2?

Yfirvinna 1 greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1 % af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu og yfirvinna 2 greiðist með tímakaupi sem jafngildir 1,15% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Mánaðarlaun fyrir dagvinnu eru þá margfölduð með 0,01 fyrir yfirvinnu 1 og með 0,015 fyrir yfirvinnu 2.

Yfirvinna 1 jafngildir 56% álagi ofan á dagvinnu og yfirvinna 2 79,4% frá og með 1. febrúar 2024.

Hefur upptaka virks vinnutíma eða vinnutímastytting áhrif á yfirvinnukaup?

Nei, yfirvinnutímakaup er ótengt dagvinnutímakaupi.

Vegna upptöku „virks vinnutíma“ hjá iðnaðarmönnum 1. apríl 2020 breyttist deilitala dagvinnutímakaups og varð 160 í stað 173,33. Tímakaup í dagvinnu hækkaði um 8,33% til að mæta færri greiddum tímum fyrir sama vinnuframlag. Vinnutími iðnaðarmanna verður svo samræmdur í 156 virkar dagvinnustundir frá og með 1. febrúar 2024 en það hefur ekki áhrif á yfirvinnuprósentur sem verða áfram þær sömu.

Má fresta upptöku yfirvinnu 1 og 2 eða semja um meðalálag?

Hvenær er yfirvinna 1 og yfirvinna 2 greidd?

Yfirvinna 1 er greidd fyrir alla yfirvinnu þar til yfirvinna 2 tekur við. Yfirvinna 2 greiðist fyrir virkan vinnutíma umfram 40 klst. á viku að meðaltali á launatímabili / mánuði frá og með 1. febrúar 2024.

Yfirvinna 2 er einnig greidd að nóttu á tímabilinu 00:00 – 06:00. Það á þó eðlilega ekki við þegar um næturvakt er að ræða hjá starfsmanni í vaktavinnu.

Tvær leiðir eru færar til að finna út hvenær yfirvinna 2 tekur við af yfirvinnu 1:

Hvað ef starfsmaður vinnur yfirvinnu að nóttu til?

Sú sérregla gildir að öll yfirvinna á nóttu, tímabilið 00:00 – 06:00 er greidd með yfirvinnu 2.

Þetta á þó ekki við um skipulagða vaktavinnu, þá greiðist áfram vaktaálag skv. kjarasamningi fram að 100% vinnu á launatímabili / mánuði.

Hvernig á að telja upp í yfirvinnu 2 ef starfsmaður er veikur eða í leyfi?

Ef starfsmaður er í orlofi, launalausu leyfi, veikur eða um sérstakan frídag er að ræða þá reiknast hver dagur í samræmi við hans venjulegu dagvinnuskil, sem er 7,2 klst. á dag m.v. fullt starf frá og með 1. febrúar 2024.

Gera verður greinarmun á því hvort yfirvinna sé föst eða tilfallandi. Sé yfirvinna föst má starfsmaður ganga út frá því að ákveðnar forsendur liggi að baki ráðningarkjörunum. Orlof, launalaust leyfi, veikindi og sérstakir frídagar eiga þá ekki að hafa áhrif á hlutfallslega skiptingu yfirvinnu 1 og 2. Sé yfirvinna á hinn bóginn tilfallandi lækkar ekki þak yfirvinnu 2 sé starfsmaður forfallaður hluta úr launatímabili / mánuði vegna framangreindra orsaka.

Dæmi : Starfsmaður er ráðinn í vinnu þar sem unnin er fastur einn yfirvinnutími á dag. Ef virkir vinnudagar í mánuði eru 20 og starfsmaður er fjarverandi vegna veikinda í 10 daga þá fengi starfsmaður greiddar 8 klst. í yfirvinnu 1 og 2 í yfirvinnu 2. Ef starfsmaður væri aftur á móti ekki með fasta yfirvinnu en hefði unnið 10 yfirvinnustundir þær tvær vikur sem hann hefði unnið væru þær allar greiddar sem yfirvinna 1.

Starfsmaður skilar ekki fullri dagvinnu vegna vinnuskipulags eða fjarvista

Ef starfsmaður skilar ekki fullri dagvinnu vegna vinnuskipulags eða fjarvista er miðað við að yfirvinna 2 sé greidd þegar starfsmaður hefur skilað 40 klst. á viku að meðaltali á launatímabili eða 173,33 klst. m.v. meðalmánuð frá og með 1. febrúar 2024.

Dæmi – unnið 5 daga vikunnar : starfsmaður vinnur fast 7,2 virkar dagvinnustundir og eina yfirvinnustund á viku fimm daga vikunnar. Á viku gerir það 41 klst. á viku og því 1 klst. í yfirvinnu 2. Ef þessi starfsmaður myndi mæta 12 mínútum of seint til vinnu alla daga vikunnar jafngildir það 1 vanræktri klst. á viku. Starfsmaðurinn myndi því skila af sér 40 klst. á viku þessa vikunna og fengi því ekki greitt fyrir yfirvinnu 2.

Dæmi starfsmaður í 2-2-3 vaktakerfi : Starfsmaður er ráðinn í 2-2-3 vaktakerfi (kokkavaktir) sem stendur yfir í 12 klst. Meðalvinnutími á viku er 39 klst. og því 3 klst. í yfirvinnu 1. Það að starfsmaður vinni mismarga daga í viku vegna vaktakerfisins og á mánuði hefur ekki áhrif á greiðslu yfirvinnu 2. Til þess að fá greitt fyrir yfirvinnu 2 þyrfti starfsmaður því að vinna aukavakt eða vinna að nóttu til.

Hvað ef starfsmaður fær greidda óunna yfirvinnu?

Óunnin yfirvinna greiðist sem yfirvinna 1 og telur ekki upp í mörk á yfirvinnu 2. Yfirvinna 2 greiðist þegar starfsmaður vinnur umfram 40 virkar vinnustundir að meðaltali á viku frá og með 1. febrúar 2024.

Greiði atvinnurekandi laun í hádegismatarhléi starfsmanns sem er launalaust samkvæmt kjarasamningi þá er það greiðsla fyrir óunninn tíma sem telur ekki upp í yfirvinnu 2. Sama gildir fái starfsmaður greidda yfirvinnu vegna frítökuréttar eða vegna vinnu í neysluhléi utan dagvinnutímabils.

Mikilvægt er að halda sérstaklega utan um þessa yfirvinnu svo hún hafi ekki áhrif á útreikning á yfirvinnu 2.

Teljast greiðslur fyrir ferðir með inn í útreikning á yfirvinnu 2?

Gera verður greinarmun á því hvort um ferð sé að ræða sem sé hluti af vinnu viðkomandi starfsmanns og sé því greiðsluskyld skv. lögum og kjarasamningum eða hvort atvinnurekandi sé að yfirborga starfsmann með því að greiða honum fyrir tíma sem telst ekki til vinnu, t.d. með því að greiða fyrir þann tíma sem það tekur starfsmann að koma sér til vinnustaðar. Einungis ferðir sem teljast hluti vinnu teljast með við mat á þaki fyrir yfirvinnu 2. Halda þarf sérstaklega utan um aðrar greiðslur á launaseðli svo þær hafi ekki áhrif á greiðslu yfirvinnu 2.