Jöfn meðferð

Lög nr. 86/2018 kveða á um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði en markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði og vinna gegn mismunun.

Með jafnri meðferð er átt við þegar einstaklingum er hvorki mismunað beint né óbeint vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkennum eða kyntjáningu. Ef leiddar eru líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæðum laganna hafi átt sér stað skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem lágu til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum.

Samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði skulu atvinnurekendur m.a.:

  • vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði og innan fyrirtækis síns 
  • gæta að því að mismunun eigi sér ekki stað við starfsauglýsingar og ráðningar Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna 
  • ganga úr skugga um að starfsmenn sem sinna sömu eða jafnverðmætum störfum fái greidd jöfn laun og sé ekki mismunað með ómálefnalegum hætti í tengslum við laun og önnur kjör 
  • gera viðeigandi ráðstafanir til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun 

Frávik
Mismunandi meðferð getur verið réttlætanleg ef hún byggist á eðli viðkomandi starfsemi eða því samhengi sem til staðar er þar sem starfsemin fer fram, enda hafi kröfur um slíka starfstengda eiginleika lögmætan tilgang og gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. Á þessum grundvelli geta atvinnurekendur t.d. sett reglur um hámarksaldur í ákveðin líkamlega erfið störf hjá sér.

Mismunandi meðferð vegna aldurs er heldur ekki talin brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að.

Uppsagnarvernd
Atvinnurekanda er óheimilt að segja starfsfólki upp störfum sökum þess að þeir hafi kvartað undan eða kært mismunun eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna. Atvinnurekandi þarf einnig að gæta þess að starfsfólk verði ekki látnir gjalda þess í starfi að kvartað hafi verið undan eða kærð mismunun eða krafist leiðréttingar á grundvelli laga þessara.

Síðast uppfært: September 2020