Vetrarfrí vaktavinnumanna

Tvenns konar fyrirkomulag er viðhaft þegar kemur að launum vaktavinnumanna fyrir vinnu á almennum frídögum og stórhátíðardögum, þ.e. „rauðum dögum".

1) Yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup ásamt óskertum dagvinnulaunum
Greitt er yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup fyrir vinnu á rauðum degi auk þess sem starfsmaður heldur óskertum dagvinnulaunum (eins og hjá dagvinnufólki, sjá umfjöllun um sérstaka frídaga ).

Við þess konar fyrirkomulag er almennt gert ráð fyrir að starfsmaður sé í fríi á rauðum dögum, nema um annað hafi verið samið eða leiði af eðli starfseminnar.

2) Vaktaálag og vetrarfrí
Greitt er vaktaálag fyrir vinnu á rauðum degi og er það almennt 45% á frídögum og 90% á stórhátíðardögum.

Auk vaktaálags ávinnur starfsmaður sér inn 12 vetrarfrídaga miðað við ársstarf (96 dagvinnustundir m.v. 40 stunda vinnuviku) fyrir almenna frídaga og stórhátíðardaga sem falla á mánudaga til föstudaga. Sé vinnustað lokað á þeim dögum eða frí veitt fækkar vetrarfrídögum samsvarandi.

Í eftirtöldum kjarasamningum eru ákvæði um vetrarfrídaga vaktavinnumanna vegna rauðra daga:

3. kafli kjarasamnings SA og SGS / Eflingar v. veitinga- og gistihúsa o.fl.
22. kafli kjarasamninga SA og SGS / Eflingar v. ræstingar í vaktavinnu
Grein 2.4. í kjarasamningi SA og Matvís
Grein 4.3 í sérkjarasamningi SA og VR/LÍV vegna starfsfólks í gestamóttöku

Vetrarfrí vaktavinnumanna er á engan hátt tengt orlofsreglum eða vetrarorlofi skv. kjarasamningum.

Umfjöllun hér að neðan um vetrarfrídaga byggir á fylgiskjali með kjarasamningi SA og SGS / Eflingar vegna veitinga- og gistihúsa o.fl.

Af hverju vetrarfrí?

Réttur vaktavinnufólks til vetrarfrídaga byggist á því að verið er að jafna vinnuár vaktavinnufólks við dagvinnufólk sem skilar vinnuviku sinni á dagvinnutímabili frá mánudegi til föstudags.

Fastráðið dagvinnufólk fær frí á samningsbundnum frídögum sem falla á vinnuvikuna (mánudaga – föstudaga) en fær samt greidda fulla dagvinnu. Sem dæmi má nefna að fimmtudagur sé frídagur.
Dæmi: falli frídagur á fimmtudag vinnur dagvinnumaður fjóra daga þá viku eða 32 stundir en fær greiddar 40 stundir í dagvinnu.

Vaktavinnufólk skilar 40 stundum að meðaltali á viku á vöktum. Vaktaplani er ekki breytt þó samningsbundinn frídagur sé í vikunni. Skilar því vaktavinnufólk 40 stundum þá viku, óháð helgidögum.

Til að jafna stöðu þess við dagvinnufólk vinnur vaktavinnufólk sér inn einn vetrarfrídag fyrir hvern frídag sem fellur á vinnuviku dagvinnufólks. Í stað þess að fá frí jafnóðum á samningsbundnum frídögum safnast þeir saman og eru veittir í einu lagi sem vetrarfrídagar.

Hvaða dagar skapa rétt til vetrarfrídaga?

Samningsbundnir frídagar eru nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar páskadagur, sumardagurinn fyrsti, uppstigningardagur, 1. maí, hvítasunnudagur, annar hvítasunnudagur, 17. júní, fyrsti mánudagur í ágúst, jóladagur, annar jóladagur og aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 12:00.

Þegar samningsbundna frídaga ber upp á mánudaga til föstudaga skapa þeir rétt til vetrarfrídaga. Þegar þeir falla inn í helgi (laugar- eða sunnudaga) skapa þeir hvorki dagvinnufólki né vaktavinnufólki rétt.

Fjöldi frídaga sem ber upp á virka daga er að meðaltali 11,2 en skv. kjarasamningum vinna starfsmenn í fullu starfi í reglubundinni vaktavinnu sér inn 12 vetrarfrídaga á ári eða sem nemur 96 klst. m.v. fullt starf.

Vetrarfrí skal veitt tímabilið 1. október til 1. maí.

Tímabil innvinnslu og vinna hluta ársins

Innvinnsla vetrarfrídaga miðast við tímabilið frá 1. október til 30. september. Starfsmenn sem vinna allt það tímabil í vaktavinnu hafa með því áunnið sér 12 vetrarfrídaga.

Ef starfsmenn hafa einungis unnið hluta ársins þá ávinnast vetrarfrídagar miðað við fjölda helgidaga í hverjum vinnumánuði starfsmanns. Einungis eru taldir helgidagar sem lenda á virkum dögum.

Dæmi:
Starfsmaður er í fullu starfi í vaktavinnu frá byrjun júní 2021 til loka ágúst. Í júní er einn frídagur sem lendir á virkum degi (fimmtudagurinn 17. júní) og einn í ágúst (frídagur verslunarmanna). Hann ávinnur sér þá rétt til að fá greidda út 16 klst. í dagvinnu við starfslok hafi hann ekki fengið frí á dagvinnulaunum tvo virka daga áður en hann hætti.

Greiðslur í vetrarfríum

Vetrarfríin eru greidd sem dagvinna. Með því fær vaktavinnufólk sömu greiðslu og dagvinnufólk fyrir þá samningsbundnu frídaga sem falla á mánudaga til föstudaga.

Þeir sem standa vaktir á þessum dögum fá hins vegar hærra vaktaálag fyrir staðna vakt á frídögum en virkum dögum. Vaktaálag á almennum frídögum er 45% og 90% á stórhátíðardögum. Vaktaálagið er greitt óháð því hvort frídagur lendir á virkan dag eða helgi.

Starfsmaður í fullu starfi allt árið, sem vinnur sér inn 12 vetrarfrídaga, fær 8 klst. í dagvinnu fyrir hvern áunninn dag, miðað við að fullt starf miðist við 40 stundir á viku. Þetta eru því samtals 96 dagvinnutímar í greiðslu. Séu starfsmenn á 12 tíma vöktum þá vinna þeir sér inn frí í 8 vaktir á dagvinnutaxta (96/12). Álagsgreiðslur greiðast ekki þegar vetrarfrídagar eru teknir út.

Frádráttur ef engin starfsemi er á helgidegi

Sé vinnustaðnum lokað á samningsbundnum frídegi, sem fellur á mánudag til föstudags eða frí er veitt á þeim degi dregst samsvarandi fjöldi daga frá vetrarfrídögum, nema hjá þeim sem á inni áunnið vaktafrí.

Þetta þýðir að ef lokað er t.d. föstudaginn langa á vinnustað þá fækkar vetrarfrídögum þeirra starfsmanna sem hefðu átt að vinna þann dag um einn. Starfsmenn fá því frí þann dag og halda í stað dagvinnulaunum sínum.

Það sama á við ef starfsmaður tekur frí á helgidegi, þegar hann ætti að vera í vinnu skv. vaktaskrá.

Starfsmenn í vaktafríi

Rétturinn til töku vetrarfrídaga ræðst ekki eingöngu af vinnu á helgidegi, heldur því hvort starfsmaðurinn hefur skilað fullri vinnuviku (40 stundum) í viku sem helgidag ber upp á mánudag til föstudags.

Af þeim sökum vinnur starfsmaður sér inn rétt til vetrarfrídags, þó hann hafi verið í vaktafríi á helgidegi, hafi hann skilað fullri vinnu þá viku.

Vetrarfrí greidd út án töku

Meginreglan er að starfsmenn taki launað vetrarfrí.

Heimilt er með samkomulagi atvinnurekanda og starfsmanns að viðhafa aðra uppgjörsreglu vegna almennra frídaga/stórhátíðardaga hjá vaktavinnufólki. Í stað vetrarfría er heimilt að greiða vaktavinnufólki 8 klst. dagvinnu (m.v. fullt starf) fyrir hvern almennan frídag/stórhátíðardag sem lendir á virkum degi. Hlutastarfsfólk fær greitt í samræmi við starfshlutfall.

Greiðslureglan á bæði við þegar starfsmaður vinnur frídag/stórhátíðardag (á virkum degi) og þegar starfsmaður er í áunnu vaktafríi (á virkum degi) og hefur þar með skilað fullri vinnuskyldu m.v. starfshlutfall.

Með þessari reglu er mögulegt að gera vetrarfrí upp í hverjum mánuði þegar almennur frídagur/stórhátíðardagur fellur á virkan dag.

Skipulagning og ákvörðun

Vetrarfrí skal veitt á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.

Atvinnurekandi skal tilkynna veitingu vetrarfrís með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Ekki er því fyrir hendi samráðsskylda eins og í tilviki orlofs. Þrátt fyrir að það sé ekki skylt er það þó í samræmi við vönduð vinnubrögð að eiga samráð við starfsmenn um töku vetrarfrís þar sem því verður við komið þótt endanlegt ákvörðunarvald liggi sem fyrr hjá atvinnurekanda.

Vetrarfrí og uppsagnarfrestur
Taka vetrarfrís á uppsagnarfresti framlengir ekki uppsagnarfrest líkt og á við um orlof þegar uppsagnarfrestur er þrír mánuðir eða skemmri, sbr. nánar hér á vinnumarkaðsvefnum. Uppsagnarfresturinn helst því óbreyttur nema samkomulag sé um annað.