Vinnumarkaðsvefur

Hver er trúnaðarmaður?

Sá einn er trúnaðarmaður sem er tilnefndur af hlutaðeigandi stéttarfélagi og réttilega kosinn til starfans skv. viðeigandi kjarasamningi.

Tilnefning
Trúnaðarmaður er starfsmaður, sem tilnefndur er til trúnaðarmannastarfans af stjórn stéttarfélags þess, sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein, sbr. 9. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

1 –2 trúnaðarmenn
Samkvæmt flestum kjarasamningum er starfsmönnum heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á vinnustað þar sem starfa 5-50 starfsmenn og tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50. Að kosningu lokinni tilnefnir viðkomandi stéttarfélag trúnaðarmennina.

Sé ekki kveðið á um kosningu trúnaðarmanns í viðkomandi kjarasamningi nægir tilnefning hlutaðeigandi stéttarfélags.

Samkvæmt kjarasamningum er óheimilt að tilnefna trúnaðarmenn til lengri tíma en tveggja ára í senn en heimilt er að kjósa sama trúnaðarmanninn aftur.

Engin heimild er til að kjósa varatrúnaðarmenn.

Komi upp ágreiningur um það hvort trúnaðarmaður hafi verið tilnefndur samkvæmt ákvæðum laga eða kjarasamnings ber stéttarfélagið sönnunarbyrðina fyrir því að svo sé. Skrifleg tilkynning er þá æskileg en ekki nauðsynleg, sbr. Félagsdóm nr. 3/1990, 27. júní 1990 ( Siglufjarðarkaupstaður )

Í dómi Félagsdóms nr. 2/2014 ( Rio Tinto ) reyndi á það hvort uppsögn tiltekins starfsmanns hafi brotið gegn 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur og verið ólögmæt af þeim sökum. Starfsmanninum var sagt upp störfum að morgni og var kjörinn trúnaðarmaður síðar sama dag. Félagsdómur féllst ekki á að starfsmaðurinn hafði fært sönnur á að hann nyti stöðu trúnaðarmanns þegar honum var sagt upp störfum þar sem hann hafði ekki verið tilkynntur til atvinnurekanda síns sem kjörinn trúnaðarmaður áður en honum var sagt upp störfum. Ekki skipti máli þótt hann hefði sótt fund í trúnaðarráði fyrir kjörinn trúnaðarmann, að beiðni hans og fengið greidd laun á meðan.