Starfslokareglur

Lög nr. 86/2018 86/2018 kveða á um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði en markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði og vinna gegn mismunun. Með jafnri meðferð er átt við þegar einstaklingum er hvorki mismunað beint né óbeint vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Mismunandi meðferð vegna aldurs er ekki talin brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að.

Við gerð starfslokareglna þurfa fyrirtæki að hafa í huga þau sjónarmið sem þau byggja slíkar reglur á. Þau sjónarmið sem talin hafa verið lögmæt eru til að mynda:

  • stefna í atvinnumálum
  • vinnumarkaðsmarkmið
  • starfsþjálfun
  • endurnýjun innan starfsstéttar
  • líkamlegt og andlegt hreysti
  • öryggissjónarmið 

Hins vegar skiptir máli að aðgerðir fyrirtækis með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum gangi ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að með starfslokareglum.

Fyrirtæki eru hvött til að vanda vel til stefnu fyrirtækisins hvað starfslokareglur varðar, mikilvægt er að stefnan sé kynnt starfsmönnum og horft sé til aðlögunar fyrir þá starfsmenn sem komnir eru á eða eru að nálgast starfslokaaldur. Ef einhver vafi er til staðar er félagsmönnum ráðlagt að hafa samband við lögfræðinga vinnumarkaðssviðs.

Sjá einnig frétt sem birtist á heimasíðu SA um málið 2022.