Starfsemin

Lífeyrissjóðir á Íslandi eru hluti af kjarasamningum og eru viðfangsefni þeirra gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðarvelferð þjóðarinnar. Sjóðirnir eru meginuppspretta sparnaðar í landinu.

Lífeyrissjóðir fyrir starfsmenn á almennum vinnumarkaði voru almennt stofnaðir með kjarasamningi samtaka fyrirtækja og launafólks árið 1969. ASÍ og SA tilnefna stjórnarmenn í sjö lífeyrisssjóði en þeim hefur fækkað verulega á undanförnum árum með sameiningum. Fjöldi lífeyrissjóða er rekinn á Íslandi sem aðilar vinnumarkaðarins koma ekki að, lífeyrissjóðir t.d. opinberra starfsmanna og einstakra starfsstétta.

Samtök atvinnulífsins tilnefna fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða samkvæmt sérstökum reglum SA sem má nálgast hér að neðan.

Reglur um tilnefningar Samtaka atvinnulífsins

Fulltrúar SA í lífeyrissjóðum starfa samkvæmt leiðbeiningum um góða stjórnarhætti sem samþykktar hafa verið af stjórn Samtaka atvinnulífsins. Þær fela m.a. í sér að stjórnarmenn beiti sér fyrir því að lífeyrissjóðir marki sér skýra hluthafastefnu þar sem kveðið er á um virkni sjóðanna sem hluthafa, reglur um skipan í stjórnir hlutafélaga og hvernig sjóðurinn hátti þátttöku sinni í atkvæðagreiðslum í hlutafélögum er hann fjárfestir í.

Stjórnarmenn skulu taka ákvarðanir í takt við sannfæringu sína, gildandi lög og reglur þannig að hagsmunum sjóðsfélaga sé sem best gætt. SA beina ekki fyrirmælum til stjórnarmanna lífeyrissjóða sem samtökin skipa, né eru stjórnarmenn bundnir af neinum fyrirmælum þeirra aðila sem skipa þá í stjórn.

Fulltrúar SA í stjórnum lífeyrissjóða geta setið að hámarki í átta ár samfellt sem aðalmenn í stjórn sama sjóðs. Samtök atvinnulífsins hafa jafnrétti kynja í heiðri við skiptan í stjórnir lífeyrissjóða.

Leiðbeiningar um góða stjórnarhætti

Ráðgjafaráð um lífeyrismál

Fulltrúar SA í stjórnum lífeyrissjóða mynda ásamt framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóra SA ráðgjafarráð í lífeyrismálum. Ráðið hittist að jafnaði tvisvar á ári.

Fulltrúar SA í lífeyrissjóðum:

Stapi lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður verzlunarmanna
Lífeyrissjóður Rangæinga
Gildi lífeyrissjóður
Festa lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja
Birta lífeyrissjóður