Dagvinna og deilitölur

Flestir launamenn eru ráðnir til að vinna dagvinnu, fulla dagvinnu eða að hluta. Ákvæði um dagvinnu má almennt finna í 2. kafla almennra kjarasamninga SA.

Á mánuði eru að jafnaði 4,33 vikur og 21,67 virkur dagur.

Full dagvinna
Dagvinna er almennt 8 klst. á dag, 40 klst. á viku eða 173,33 klst. á mánuði. Virkur vinnutími (dagvinna án greiddra kaffitíma) er 37 klst. og 5 mín. á viku. Sjá útreikningsskjal á greiddum tíma verkafólks hér.

Frávik - Full dagvinnuskil afgreiðslufólks skv. samningi SA og VR/LÍV eru 38,75 klst. á viku (virkar stundir 35 klst. og 50 mín.) og 167,94 klst. á mánuði. Hjá skrifstofufólki og háskólafólki 36,75 klst. á viku (virkar stundir 35 klst. og 30 mín.) og 159,27 klst. á mánuði.

Frávik - Iðnaðarmenn geta kosið um vinnutímastyttingu í 39,25 klst. á viku (virkar stundir 36 klst. og 15 mín.) og 157,08 klst. á mánuði. Sjá nánar hér um vinnutímastyttingu iðnaðarmanna.

Frávik - Full vinnuskil vaktavinnufólks, sem starfar eftir veitingasamningi SA við SGS / Eflingu og er á vöktum fimm daga vikunnar innan tímamarkanna kl. 17:00 - 08:00, eru 38 klst. á viku.

Þegar fullri dagvinnu hefur verið skilað skal greiða yfirvinnukaup. Í samningum verkafólks er almennt miðað við að yfirvinna hefjist þegar 8 klst. vinnudegi hefur verið skilað en þó er heimilt að semja við starfsmann um að skila 40 klst. vinnuviku á færri dögum en fimm. Þannig má t.d. skipuleggja dagvinnu í 9 klst. fjóra daga vikunnar (þó innan dagvinnutímabils) og 4 klst. fimmta daginn. Hjá afgreiðslu- og skrifstofufólki er yfirvinna ekki greidd fyrr en fullri dagvinnu hefur verið skilað í hverjum mánuði en eftirvinnukaup er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutímabils.

Dagvinnutímabil kjarasamninga
Dagvinnutímabil, þ.e. það tímabil dagsins sem heimilt er að greiða með dagvinnukaupi, er mismunandi milli kjarasamninga:

SGS / Efling: Kl. 7:00 – 17:00.
VR / LÍV v. afgreiðslufólks: Kl. 9:00 - 18:00. Dagvinnutímabil getur hafist fyrr, þó ekki fyrr en kl. 7:00.
VR/LÍV v. skrifstofufólks: Kl. 09:00 - 17:00. Dagvinnutímabil getur hafist fyrr, þó ekki fyrr en kl. 7:00.
BHM , VFÍ/SFB/ST: Kl. 7:00 - 18:00.
Samiðn , VM , RSÍ og Matvís : Kl. 7:00 - 18:00.
Grafía : Kl. 8:00 - 17:00.

Starfshlutfall
Ef starfsmaður í hlutastarfi fær greitt hlutfall af fullum mánaðarlaunum (er ekki á tímakaupi) skal tilgreina starfshlutfall í ráðningarsamningi / launaseðli. Starfshlutfall hlutavinnufólks er almennt reiknað út frá fullri dagvinnu enda eru dagvinnulaun viðkomandi starfsmanns reiknuð sem hlutfall af fullum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Verkamaður sem vinnur t.d. frá kl. 07:30 - 12:00 er í 56,25% starfshlutfalli (22,5 / 40).

Dagvinnutímakaup (deilitala dagvinnutímakaups)
Tímakaup í dagvinnu fæst því með að deila með 173,33 í mánaðarkaupið.

Frávik - Tímakaup afgreiðslufólks fæst með því að deila með 167,94 í mánaðarkaup og tímakaup skrifstofufólks með því að deila með 159,27 í mánaðarkaup.

Frávik - Tímakaup skv. veitingasamningi SA við SGS / Eflingu fæst með því að deila með 172 í mánaðarkaup. Full vinnuskil eru hins vegar 40 klst. á viku eða 173,33 stundir á mánuði.

Frávik - Tímakaup iðnaðarmanna fæst með því að deila með 157,08 í mánaðarkaup þar sem vinnutímastytting hefur verið framkvæmd á grundvelli staðlaðs, valkvæðs fyrirtækjaþáttar 2022 en 156 þar sem samkomulag hefur verið gert um niðurfellingu neysluhléa. Hafi ekki verið kosið um vinnutímastyttingu er deilitalan áfram 160. Í einhverjum tilvikum hefur verið samið um frestun á upptöku virks vinnutíma (kaffitímar greiddir). Deilitalan er þá 173,33 nema vinnutímastytting hafi verið framkvæmd en deilitalan verður þá 169,71. Sjá forsendur fyrir deilitölum iðnaðarmanna hér.

Sjá nánar viðkomandi kjarasamninga.

Síðast uppfært: Janúar 2022