Persónuhlífar

Um notkun persónuhlífa gilda reglur nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa. Sérstakar reglur gilda um gerð persónuhlífa en um þær verður ekki fjallað hér.

Hvað eru persónuhlífar?

Persónuhlífar eru allur sá búnaður sem starfsmanni er gert að klæðast eða halda á sér til verndar gegn hættum sem stefnt geta öryggi hans og heilsu í voða.

Hvenær skal nota persónuhlífar?

Nota skal persónuhlífar þegar ekki er hægt að komast hjá áhættu eða takmarka hana nægilega með tæknilegum ráðum sem veita almenna vernd eða með ráðstöfunum, aðferðum eða annarri tilhögun við skipulagningu vinnunnar.

Ákvarða skal við hvaða skilyrði ber að nota persónuhlífar á grundvelli þess hve mikil áhættan er, hve oft menn þurfa að starfa við hana, hversu mikla vernd persónuhlífarnar veita o.s.frv.

Sjá nánar um notkun persónuhlífa leiðbeinandi skrá í II. viðauka reglna nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa.

Kostnaður

Vinnuveitandi skal láta persónuhlífar í té endurgjaldslaust og tryggja með nauðsynlegu viðhaldi, viðgerðum og endurnýjun að þær séu í góðu lagi og svo hreinar að fullnægjandi teljist.

Heimilt er þó að gera samkomulag um, í samræmi við venjur eða kjarasamninga, að starfsmaður taki þátt í kostnaði við vissar tegundir persónuhlífa, séu þær ekki eingöngu notaðar á vinnustaðnum.

Aðrar skyldur vinnuveitanda

Vinnuveitandi skal upplýsa starfsmann fyrirfram um þá hættu sem persónuhlífum er ætlað að vernda hann gegn og skyldu hans að nota slíkar hlífar.

Vinnuveitandi skal sjá til þess að starfsmaður fái þjálfun og ef við á sýnikennslu í notkun persónuhlífa.

Vinnuveitandi skal með hliðsjón af þeirri vinnu sem fram fer og eftir því sem nauðsyn krefur setja upp eitt eða fleiri skilti sem gefa til kynna hvaða gerðir af persónuhlífum ber að nota á viðkomandi vinnustað.

Skyldur starfsmanna

Starfsmönnum er skylt að nota þær persónuhlífar og öryggisbúnað sem þeim er látin í té á meðan á vinnu stendur og tilkynna um bilanir eða ágalla sem upp kunna að koma.

Ef starfsmaður notar ekki öryggisbúnað getur það leitt til fyrirvaralauss brottreksturs (riftunar) að undangenginni skriflegri áminningu.

Dæmi úr réttarframkvæmd

Dómur Hæstaréttar 16. desember 2010 (292/2010)

Í málinu reyndi á skaðabótaskyldu félags vegna tjóns sem starfsmaður varð fyrir við vinnu þegar hann fékk járnflís í augað. Starfsmaðurinn reisti bótakröfu sína einkum á því að hann hefði fengið ófullnægjandi tæki til verksins og verkstjórn verið áfátt, en hann hafði ekki fengið leiðbeiningar um hvernig verkið skyldi unnið. Þá byggði starfsmaðurinn jafnframt á því að öryggisgleraugu hefðu ekki verið tiltæk á vinnustaðnum.

Hæstiréttur féllst ekki á kröfur starfsmannsins um skaðabætur þar sem starfsmaðurinn og vinnufélagar hans framkvæmdu verkið án þess að hafa verið beðnir um það og því hefði verkstjóra ekki borið að afhenda þeim öryggisgleraugu eða leiðbeina þeim sérstaklega.

Dómur Hæstaréttar 20. október 2011 (704/2010)

Starfsmaður sem féll niður af palli við vinnu sína og varð fyrir líkamstjóni höfðaði skaðabótamál. Upplýst var að starfsmaðurinn var án allra fallvarna, eins og skylt var, þegar hann féll niður af pallinum. Starfsmaðurinn byggði á því að félaginu hefði borið að gefa honum fyrirmæli um að nýta búnaðinn umrætt sinn.

Hafnað var kröfu mannsins um skaðabætur þar sem sannað þótti að:

  • nauðsynlegur öryggisbúnaðir var tiltækur á vinnustaðnum
  • notkun öryggisbúnaðarins hafði verið brýnd fyrir starfsmönnum
  • starfsmanninum átti að vera ljóst að hætta gat verið á að falla fram af pallinum

Dómur Hæstaréttar 15. mars 2012 (472/2011)

Félag var talið bera skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem starfsmaður þess varð fyrir þegar hann kól á fingrum og tám við störf hjá félaginu. Ábyrgð félagsins var reist á skorti á lögboðnum leiðbeiningum til starfsmannsins og verkstjórn sem var áfátt.

Dómur Hæstaréttar 9. október 1997 (49/1997)

Starfsmaður sem varð fyrir verulegri og varanlegri skerðingu á andlegri getu taldi líkamstjón sitt eiga rætur að rekja til notkunar tiltekins leysisefnis á vinnustað, sem hann hafði starfað á um langt árabil. Í málinu reyndi á skaðabótaskyldu vinnuveitandans.

Hæstiréttur lagði til grundvallar að orsakir sjúkdómsins mætti rekja til starfsins og lagði fébótaábyrgð á félagið á þeim grundvelli að það hefði ekki séð starfsmanninum fyrir andlitshlífum og öndunargrímum, þrátt fyrir að Vinnueftirlit ríkisins hafði krafist þess. Þá var það ekki talið leysa félagið undan bótaábyrgð þótt aðstæður hefðu ekki verið betri á öðrum, sambærilegum vinnustöðum. Þar sem starfsmanninum átti að vera ljóst fyrir löngu að úrbóta hefði verið þörf hjá vinnuveitanda hans var hann sökum tómlætis látin bera 2/5 hluta tjóns síns sjálfur.