Fjarvinna

Í kórónuveirufaraldrinum færðist það í vöxt að fólk færi að vinna utan fastrar starfsstöðvar, oftast heiman frá. Fjarvinna er vinnufyrirkomulag sem var vel þekkt fyrir kórónuveirufaraldurinn þótt það hafi fremur heyrt til undantekninga að fólk ynni skipulagt utan fastrar starfsstöðvar.

Kostir fjarvinnu geta verið ýmsir bæði fyrir starfsfólk og fyrirtæki. Möguleiki á fjarvinnu talar vel inn í áherslu um sveigjanlegri og fjölskylduvænni vinnumarkað sem Samtök atvinnulífsins hafa beitt sér fyrir. Fjarvinnu fylgja fjölmargar áskoranir og er forsenda þess að hún geti gengið upp að gott traust ríki milli vinnuveitanda og starfsmanns.

Hér að neðan er að finna svör við algengum spurningum um fjarvinnu en umfjöllunin byggist að mestu leiti á kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við Alþýðusamband Íslands frá árinu 2006 um fjarvinnu . Með þeim kjarasamningi innleiddu SA og ASÍ Evrópskan rammasamning um fjarvinnu frá árinu 2002.

Kjarasamningur SA og ASÍ um fjarvinnu gildir sem lágmarkskjör um fjarvinnu skv. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks.

Hér á vinnumarkaðsvefnum má nálgast fjarvinnusniðmát sem SA hafa útbúið í samvinnu við stéttarfélög háskólamanna.

Félagsmönnum er bent á að kynna sér vel umfjöllun Vinnueftirlitsins um vinnuvernd í fjarvinnu.

Hvað er fjarvinna?

Fjarvinna er form hvað varðar skipulag og/eða framkvæmd vinnu með notkun upplýsingatækni innan ramma ráðningarsamnings eða í ráðningarsambandi þar sem vinna sem einnig væri hægt að inna af hendi í starfsstöð vinnuveitanda er unnin reglulega utan þeirrar starfsstöðvar.

Getur vinnuveitandi ákveðið einhliða að starfsmaður sinni fjarvinnu?

Nei, fjarvinna byggir á frjálsu vali viðkomandi starfsmanns og vinnuveitanda. Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar er það undir starfsmanni komið hvort hann taki boði um að taka upp fjarvinnu.

Höfnun starfsmanns á tilboði um fjarvinnu, er sem slík ekki gild ástæða fyrir uppsögn eða breytingum á ráðningarkjörum.

Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar er ákvörðun um að hefja fjarvinnu afturkallanleg bæði að hálfu starfsmanns og vinnuveitanda. Afturköllun getur falið í sér að horfið sé til starfs í starfsstöð vinnuveitanda. Mikilvægt er að ganga frá í ráðningarsamningi með hvaða fyrirvara hvor aðili um sig geti ákveðið að hverfa frá fjarvinnu.

Þarf að gera samning um fjarvinnu?

Já, sú skylda hvílir á vinnuveitendum að gera skriflegan ráðningarsamning við fjarvinnustarfsmenn líkt og aðra. Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar er nauðsynlegt að uppfæra ráðningarsamning með tilliti til þess eða gera sérstakan viðauka við ráðningarsamning um fjarvinnuna.

Sérstaða fjarvinnu krefst að jafnaði skriflegra viðbótarupplýsinga um atriði eins og hvaða deild fyrirtækis fjarvinnustarfsmaður er tengdur, hver sé næsti yfirmaður hans/hennar eða aðrir sem hann eða hún getur snúið sér til með spurningar er varða starfið eða persónuleg mál, fyrirkomulag við skýrslugjöf o.fl.

Sjá sniðmát að ráðningarsamningum hér á vinnumarkaðsvefnum undir “form og eyðublöð”.

Hvaða kjara nýtur fjarvinnustarfsmaður?

Fjarvinnustarfsmenn njóta sömu réttinda og sambærilegir starfsmenn í starfsstöð vinnuveitanda eru tryggð samkvæmt lögum og kjarasamningum. Hins vegar kann, að taka tillit til sérstöðu fjarvinnunnar, að gera viðbótarsamninga við ráðningarsamning. Huga þarf þar m.a. að atriðum eins og fæðis- og bifreiðahlunnindum.

Fjarvinnustarfsmenn njóta sömu réttinda og starfsmenn í starfsstöð vinnuveitanda. Engar hömlur eru lagðar á samskipti þeirra við trúnaðarmenn.

Þarf að hafa eitthvað í huga varðandi vernd gagna og persónuvernd?

Vinnuveitandi ber ábyrgð á því, sérstaklega varðandi hugbúnað, að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, til þess að tryggja vernd þeirra gagna sem fjarvinnustarfsmaðurinn notar og vinnur með í starfi sínu.

Vinnuveitandi á að upplýsa fjarvinnustarfsmann bæði um lagareglur sem máli skipta og reglur fyrirtækisins varðandi verndun gagna. Það er á ábyrgð fjarvinnustarfsmannsins að fara eftir þessum reglum.

Vinnuveitandi ber ábyrgð á að upplýsa fjarvinnustarfsmann sérstaklega um:

  • allar takmarkanir á notkun upplýsingatæknibúnaðar eða verkfæra eins og internetsins, 
  • viðurlög ef ekki er eftir þeim farið. 

Vinnuveitandi ber ábyrgð á að virða einkalíf fjarvinnustarfsmanns. Sé komið fyrir einhvers konar eftirlitskerfi þá skal þess gætt að það sé í hlutfalli við markmiðið og tekið upp í samræmi við reglur Vinnueftirlitsins um skjávinnu.

Sjá umfjöllun um persónuvernd hér á vinnumarkaðsvefnum en þar m.a. að finna fjölmörg persónuverndarsniðmát.

Hver ber kostnað af búnaði við fjarvinnu?

Meginreglan er sú, að vinnuveitanda ber að útvega, tengja og halda við þeim búnaði sem nauðsynlegur er við reglulega fjarvinnu nema fjarvinnustarfsmaður noti sinn eigin búnað.

Sé fjarvinna innt reglulega af hendi, bætir eða greiðir vinnuveitandi beinan kostnað sem stafar af vinnunni.

Vinnuveitandi á að sjá fjarvinnustarfsmanni fyrir viðeigandi möguleika á tæknilegri aðstoð.

Þá ber vinnuveitandi ábyrgð á kostnaði vegna taps og skemmda á búnaði og gögnum sem fjarvinnustarfsmaður notar.

Fjarvinnustarfsmaður ber ábyrgð á að fara vel með þann búnað sem honum er séð fyrir og á hann hvorki að safna né dreifa ólöglegu efni um internetið.

Mikilvægt er að skilgreina á skýran og skriflegan hátt áður en fjarvinna hefst öll álitaefni er varða búnað, ábyrgð og kostnað við fjarvinnu.

Hvernig tryggjum við heilbrigði og öryggi fjarvinnustarfsmanns?

Vinnuveitandi ber ábyrgð á heilbrigði og öryggi fjarvinnustarfsmanns vegna vinnunnar.

Gera þarf áhættumat vegna fjarvinnunnar þar sem metin er áhætta í starfi með tilliti til öryggis og heilsu fjarvinnustarfsmannsins og áhættuþátta í vinnuumhverfinu.

Vinnuveitandi á að upplýsa fjarvinnustarfsmann um stefnu fyrirtækisins í heilbrigðis- og öryggismálum vegna vinnunnar sérstaklega hvað varðar skjávinnu. Starfsmaður ber ábyrgð á að framfylgja stefnu fyrirtækisins.

Sjá áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað hér á vinnumarkaðsvefnum ásamt umfjöllun um vinnu við tölvu og sjónvernd .

Til þess að staðfesta að viðeigandi reglum um heilbrigði og öryggi sé fylgt hefur vinnuveitandi, trúnaðarmenn og Vinnueftirlitið aðgang að þeim stað þar sem fjarvinna fer fram. Vinnu fjarvinnustarfsmaður á heimili sínu er slíkur aðgangur háður fyrirfram tilkynningu og samþykki hans/hennar. Fjarvinnustarfsmaður getur og óskað eftir eftirlitsheimsókn.

Sjá frekari upplýsingar um vinnuvernd í fjarvinnu hér á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Gilda sömu reglur varðandi veikindi í fjarvinnu?

Já, starfsmanni ber að tilkynna veikindi sín í fjarvinnu með sama hætti og þeir sem starfa í starfsstöð fyrirtækisins nema annað sé ákveðið.

Í ákveðnum tilvikum kann starfsmaður að vera fær til að sinna ákveðnum verkefnum í fjarvinnu en að vera óvinnufær til að sinna verkefnum á fastri starfsstöð en það ræðst af eðli veikinda, aðstöðu starfsmanns og verkefnum.

Vinnuveitendum er skylt að slysatryggja alla sína starfsmenn. Slysatryggingin tekur til slyss sem verður við vinnu eða á eðlilegri leið til og frá vinnu. Tilkynna ber tryggingarfélagi án tafar ef starfsvettvangur vátryggða (starfsmanns) breytist að öllu leiti eða að hluta í fjarvinnu. Iðgjöld kunna þá að sæta endurskoðun vegna áhættubreytingar.

Hvernig er skipulag vinnu hjá fjarvinnustarfsmanni?

Vinnutími starfsmanns í fjarvinnu er samkomulagsatriði milli starfsmanns og vinnuveitanda. Ef vinnutími starfsmanns í fjarvinnu á að vera annar en skv. upphaflegri starfslýsingu þarf að uppfæra ráðningarsamning með tilliti til þess. Hafa ber í huga að vinnutíma- og hvíldartímaákvæði kjarasamninga, þ. á m. varðandi yfirvinnu, frítökurétt og vikulegan frídag ná jafnframt til fjarvinnu.

Viðmið varðandi vinnuálag og kröfur til fjarvinnustarfsmanns eru þau sömu og fyrir sambærilega starfsmenn í starfsstöð vinnuveitanda.

Vinnuveitandi tryggir að gerðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að fjarvinnustarfsmaður einangrist frá samfélagi við aðra starfsmenn í fyrirtækinu með því að t.d. gefa honum tækifæri til þess að hitta vinnufélaga með reglulegum hætti og eiga aðgang að þeim upplýsingum sem fyrirtækið veitir.

Þarf að hafa eitthvað í huga varðandi þjálfun fjarvinnustarfsmanna?

Fjarvinnustarfsmenn eiga rétt á sama aðgang að þjálfun og möguleikum til starfsframa eins og sambærilegir starfsmenn í starfsstöð vinnuveitanda og skulu háðir sömu stefnu hvað varðar mat á árangri í starfi.

Fjarvinnustarfsmenn eiga rétt á að hljóta viðeigandi þjálfun með tilliti til þess búnaðar sem þeir hafa til ráðstöfunar og sérkenna þessa forms á vinnuskipulagi. Yfirmaður fjarvinnustarfsmanns og beinir starfsfélagar hans geta jafnframt þurft þjálfun vegna þessa vinnuforms og stjórnunar þess.