Launatengdur kostnaður

Á vinnumarkaðsvefnum er að finna töflur um heildarlaunakostnað í nokkrum starfsstéttum. Hér er nánar gerð grein fyrir þeim launakostnaði og grundvelli útreiknings.

Síðast uppfært: Jan. 2021

Orlof

Orlof er launakostnaður sem í flestum tilfellum reiknast ofan á laun starfsmanns.

Lágmarksorlof samkvæmt lögum er 10,17% og 24 orlofsdagar en kjarasamningar kveða á um aukinn orlofsrétt starfsmanna m.v. vinnu í sama fyrirtæki eða starfsgrein.

Í yfirliti yfir heildarlaunakostnað er gert ráð fyrir meðaltali m.v. algenga samsetningu starfsaldurs á vinnustað, að teknu tilliti til ákvæða viðkomandi kjarasamnings um orlofsdaga og orlofslaun. Sjá nánar um lengd orlofs í samningum.

Sérstakir frídagar

Sérstakir frídagar sem lenda á virkum dögum skerða almennt ekki rétt starfsmanna til dagvinnulauna þá daga. Þeir frídagar sem lenda á mánudaga til föstudaga eru 9 – 13 eftir árum, en að meðaltali 11,2. Við þá tölu er miðað í yfirliti yfir heildarlaunakostnað.

Veikindi og slys

Veikindaréttur er áunninn réttur starfsmanns, sem hann öðlast með samfelldu starfi í starfsgrein eða fyrirtæki.

Í flestum tilvikum ávinnur starfsmaður sér inn 2 daga fyrir hvern unninn mánuð á fyrsta ári í starfi, en rétturinn eykst með hærri starfsaldri.

Slasist starfsmaður við vinnu sína bætist við þriggja mánaða réttur til dagvinnulauna.

Mjög misjafnt er hversu miklar veikindafjarvistir eru milli fyrirtækja og atvinnugreina en meðaltalið er um 3,8% af mánaðartekjum starfsmanna án orlofs. Við þá tölu er miðað í yfirliti yfir heildarlaunakostnað. Sjá nánar um lengd veikindaréttar í einstökum kjarasamningum.

Lífeyrissjóður og viðbótarlífeyrissparnaður

Skv. lögum skal framlag í lífeyrissjóð vera 12% af heildartekjum. Samkvæmt kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ er heildariðgjald 15,5%, mótframlag atvinnurekanda 11,5% gegn 4% iðgjaldi starfsmanns.

Ef starfsmaður leggur til a.m.k. 2% af launum sínum í viðbótarlífeyrissparnað þá ber atvinnurekanda skv. kjarasamningum að greiða 2% mótframlag.

Sjá nánar umfjöllun um lífeyrissjóði .

Sjúkrasjóður

Gjald í sjúkrasjóð er nú í flestum kjarasamningum 1% af heildarlaunum starfsmanns. Gjaldið rennur í sjóði þeirra stéttarfélaga sem starfsmenn eiga aðild að. Hjá fiskimönnum er gjald í sjúkrasjóð 1% af kauptryggingu hjá hásetum og 0,7% hjá yfirmönnum.

Orlofsheimilasjóður

Gjald í orlofsheimilasjóði stéttarfélaga er 0,25% af heildarlaunum starfsmanns.

Til viðbótar 0,25% orlofsheimilasjóðsgjaldi til verslunarmannafélaga hefur verið samið í kjarasamningi um 0,25% framlag í félagsheimilasjóð verslunarsamtakanna, sbr. gr. 9.2. í kjarasamningi VR/LíV . Af þeim sökum er gert ráð fyrir 0,5% kostnaði vegna afgreiðslu- og skrifstofufólks.

Hjá fiskimönnum er gjald í orlofsheimilasjóð 1% af kauptryggingu hjá hásetum og 0,7% hjá yfirmönnum.

Slysatrygging

Samkvæmt kjarasamningum ber vinnuveitendum að tryggja starfsmenn fyrir dauða og varanlegri og tímabundinni örorku af völdum slyss í starfi eða á eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar. Í kjarasamningum verkstjóra , iðnverkafólks og Félags lykilmanna er þó kveðið á um sólarhringstryggingu.

Iðgjald miðast við fjölda vinnuvikna og greiðist á því ári sem tryggingin nær til. Slysatrygging er mismunandi eftir áhættuflokkum sem eru sjö.

  • Verslunarmenn eru almennt í áhættuflokkum 1-2. 
  • Verkafólk er almennt í áhættuflokki 3-5. 
  • Iðnaðarmenn eru almennt í áhættuflokki 4-5. 

Tryggingagjald

Tryggingagjald er lagt á allar tegundir launa og þóknana fyrir störf sem eru skattskyld skv. lögum um tekjuskatt . Um tryggingagjald gilda lög nr. 113/1990 . Allt mótframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð telst sem stofn til útreiknings tryggingagjalds.

Tryggingagjald er innheimt í staðgreiðslu og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald. Markaðsgjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa er innheimt með tryggingagjaldi og er hluti þess heildargjalds sem innheimt er.

Sjá nánar á síðu ríkisskattstjóra .

Greitt er sérstakt 0,65% gjald vegna sjómanna á fiskiskipum .

Starfsendurhæfingarsjóður

Vinnuveitendur greiða til VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs . Lögbundið gjald er 0,13% af launum en árið 2019 verður gjaldið 0,10% af launum. Um tilgang gjaldsins og verkefni sjóðsins er fjallað í lögum nr. 60/2012 og á vefsíðu VIRK.

Félagsgjald atvinnurekanda

Sé vinnuveitandi aðili að félagi vinnuveitenda greiðir hann félagsgjöld samkvæmt því. Þau fyrirtæki sem aðild eiga að Samtökum atvinnulífsins greiða 0,19% af launagreiðslum síðastliðins árs en þó að lágmarki kr. 32.000 á ári (árið 2021). Þessu til viðbótar greiða fyrirtækin félagsgjald til atvinnugreinasamtaka sinna , en árgjöld þeirra eru nokkuð mismunandi. Misjafnt er hvort fyrirtæki greiða hlutfall af launum eða veltu. Í yfirliti yfir heildarlaunakostnað er miðað við meðalgreiðslu. Sjá einnig ákvæði samþykkta SA um árgjöld.

Ábyrgðartryggingvinnuvernd

Frjáls ábyrgðartrygging vinnuveitenda er mjög algeng og í flestum tilvikum nauðsynleg í atvinnurekstri til að draga úr áhættu.

Ábyrgðartrygging tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á vátryggðan vegna tjóns gagnvart þriðja aðila.

Iðgjaldið er innheimt af áætluðum launum hvers árs. Upphæð gjaldsins er mismunandi eftir áhættuflokkum en í yfirliti yfir heildarlaunakostnað er miðað við meðaliðgjald.