Réttindi og skyldur atvinnurekenda þegar náttúruhamfarir stöðva rekstur

Þegar náttúruhamfarir stöðva starfsemi fyrirtækis, s.s. jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð eða skriðuföll, þá verður því ekki gert að efna samningsskuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki. Byggir það á almennum reglum samningaréttar um force majeure og 3. gr. laga nr. 19/1979. Fyrirtæki í fiskvinnslu geta sótt um endurgreiðslur, haldi þau starfsfólki tímabundið á launaskrá.

Alþingi hefur samþykkt lög um stuðningsaðgerðir vegna launafólks sem getur ekki gegnt störfum sínum í Grindavík vegna eldsumbrota, með það að markmiði atvinnurekendum sé kleift að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt eins og kostur er og greiða laun komandi mánuði. Sjá nánari umjöllun um frumvarpið hér á vef SA.

Lögfræðingar vinnumarkaðssviðs SA veita aðildarfyrirtækjum ráðgjöf vegna álitamála sem upp kunna að koma.

3. gr. laga nr. 19/1979

Ef vinna fellur niður hjá atvinnurekanda vegna ófyrirséðra áfalla, s.s. náttúruhamfara, þá verður honum ekki gert að greiða laun til starfsfólks síns, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979 . Rétt er að tilkynna starfsfólki, t.d. með tölvupósti, ef atvinnurekandi hyggst ekki greiða laun við þessar aðstæður.

Ákvörðun atvinnurekanda um að greiða ekki laun felur ekki í sér uppsögn ráðningar eða slit ráðningarsambands. Þegar aðstæðum linnir og starfsemi getur hafist á ný þá ber starfsfólki að koma aftur til vinnu og skylda til greiðslu launa verður virk á ný.

Ef atvinnurekandi vill bíða um sinn og meta aðstæður, þá tapar hann ekki rétti til að byggja síðar á 3. gr. laga nr. 19/1979. Það er rétt að upplýsa starfsfólk að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða sem verði endurmetin þegar aðstæður skýrast.

Starfsfólk getur sótt um atvinnuleysisbætur, felli atvinnurekandi það af launaskrá. Bjóðist starfsmanni annað starf þá er hann óbundinn af uppsagnarfresti hjá atvinnurekanda og getur því látið fyrirvaralaust af störfum. Honum ber að tilkynna atvinnurekanda án tafar ef hann ræður sig í annað starf til frambúðar.

Alþingi hefur samþykkt lög um stuðningsaðgerðir vegna launafólks sem getur ekki gegnt störfum sínum í Grindavík vegna eldsumbrota, með það að markmiði atvinnurekendum sé kleift að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt eins og kostur er og greiða laun komandi mánuði. Sjá nánari umjöllun um frumvarpið hér á vef SA .

Stöðvun rekstrar í fiskvinnslu

Fyrirtæki í fiskvinnslu geta við þessar aðstæður nýtt ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979 eins og aðrir atvinnurekendur. Þau hafa einnig það úrræði að halda starfsfólki tímabundið á launaskrá og fá á móti greiðslur frá Vinnumálastofnun.

Samkvæmt kafla 18.4. í kjarasamningi SA og SGS um kauptryggingu fiskvinnslufólks, þá greiðir atvinnurekandi fiskvinnslufólki dagvinnutryggingu ef vinna stöðvast vegna hráefnisskorts. Þótt ekki sé um hefðbundinn hráefnisskort í skilningi kjarasamnings að ræða, þá er atvinnurekanda, sem kýs að halda starfsfólki tímabundið á launaskrá, heimilt að nýta þessi ákvæði kjarasamnings. Forsendan er þá sú að greiðslur komi á móti frá Vinnumálastofnun og því mikilvægt að atvinnurekendur kynni sér þær reglur sem um endurgreiðslur gilda.

Endurgreiðslur frá Vinnumálastofnun byggja á lögum nr. 51/1995 um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks og reglugerð um sama efni. Ítarlegt upplýsingaefni má finna á heimasíðu Vinnumálastofnar .

Atvinnurekendur þurfa hér að gæta að nokkrum þáttum:

· Forsenda endurgreiðslu er að um fiskvinnslu sé að ræða, eins og nánar er skilgreint í lögum og reglugerð. Nánari upplýsingar um gildissviðið, m.a. m.t.t. fiskeldis, veitir Heiðmar Guðmundsson, heidmar@sfs.is

· Endurgreiðslur er bundnar við starfsfólk sem nýtur kauptryggingarréttar skv. kafla 18.4 í kjarasamningum verkafólks

· Fyrstu fimm dagar rekstrarstöðvunar eru ekki greiddir, að hámarki 15 dagar í senn (3 vikur) og aldrei fleiri en 35 dagar á almanaksári. Þegar litið er til þess og að atvinnurekandi greiðir auk launa orlof, lífeyrissjóðsiðgjald og tryggingagjald, þá eru greiðslur atvinnurekenda til starfsfólks nokkuð hærri en endurgreiðslur Vinnumálastofnunar.

Alþingi hefur samþykkt lög um stuðningsaðgerðir vegna launafólks sem getur ekki gegnt störfum sínum í Grindavík vegna eldsumbrota, með það að markmiði atvinnurekendum sé kleift að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt eins og kostur er og greiða laun komandi mánuði. Sjá nánari umjöllun um frumvarpið hér á vef SA.

Atvinnuleysisbætur

Nálgast má upplýsingar um atvinnuleysisbætur, rétt til bóta, fjárhæðir og umsóknarform á heimasíðu Vinnumálastofnunar . Einnig á ensku og pólsku.

Fullar atvinnuleysisbætur m.v. 100% bótarétt nema kr. 331.298 kr. á mánuði. Auk þess eru greiddar kr. 13.251 með hverju barni undir 18 ára aldri.

Þegar grunnatvinnuleysisbætur hafa verið greiddar í hálfan mánuð taka við tekjutengdar atvinnuleysisbætur, séu þær hærri en grunnbæturnar. Tekjutengdar bætur nema 70% af meðaltali heildarlauna, þó að hámarki kr. 522.282 á mánuði, og er miðað við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus.

Ef starfsmaður vill fara í atvinnuleit í öðru landi þá þarf hann fyrst að hafa verið á atvinnuleysisbótum samfellt í fjórar vikur á Íslandi og sækja um heimild til atvinnuleitar í Evrópu a.m.k. þremur vikum fyrir brottför. Sjá nánar á heimasíðu Vinnumálastofnunar . Sjá einnig á ensku og pólsku .

Alþingi hefur samþykkt lög um stuðningsaðgerðir vegna launafólks sem getur ekki gegnt störfum sínum í Grindavík vegna eldsumbrota, með það að markmiði atvinnurekendum sé kleift að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt eins og kostur er og greiða laun komandi mánuði. Sjá nánari umjöllun um frumvarpið hér á vef SA .

Uppsagnir í rekstrarstöðvun

Ef atvinnurekandi fellir starfsfólk af launaskrá þá er honum eftir sem áður heimilt að segja starfsfólki upp störfum skv. almennum reglum. Laun eru ekki greidd á uppsagnarfresti á meðan skilyrði um force majeure aðstæður eru enn til staðar.

Ef fjölda starfsfólks er sagt upp getur þurft að gæta að reglum um hópuppsagnir .