Réttindi og skyldur þegar náttúruhamfarir o.fl. stöðva rekstur
Þegar náttúruhamfarir stöðva starfsemi fyrirtækis, s.s. jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð eða skriðuföll, eða önnur óviðráðanleg atvik stöðva rekstur, s.s. bruni atvinnuhúsnæðis, verður atvinnurekanda ekki gert að efna samningsskuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki. Byggir það á almennum reglum samningaréttar um force majeure og 3. gr. laga nr. 19/1979.
Hráefnisskortur hjá fiskvinnslufyrirtæki getur samkvæmt sama lagaákvæði heimilað atvinnurekanda að fella starfsfólk tímabundið á launaskrá.
Lögfræðingar vinnumarkaðssviðs SA veita aðildarfyrirtækjum ráðgjöf vegna álitamála sem upp kunna að koma.
Síðast uppfært: Janúar 2026
3. gr. laga nr. 19/1979
Ef vinna fellur niður hjá atvinnurekanda vegna ófyrirséðra áfalla, s.s. náttúruhamfara, þá verður honum ekki gert að greiða laun til starfsfólks síns, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979. Lagaákvæðið tilgreinir einnig í dæmaskyni bruna atvinnuhúsnæðis og skiptapa.
Rétt er að tilkynna starfsfólki, t.d. með tölvupósti, ef atvinnurekandi hyggst ekki greiða laun við þessar aðstæður.
Ákvörðun atvinnurekanda um að greiða ekki laun felur ekki í sér uppsögn ráðningar eða slit ráðningarsambands. Þegar aðstæðum linnir og starfsemi getur hafist á ný þá ber starfsfólki að koma aftur til vinnu og skylda til greiðslu launa verður virk á ný.
Ef atvinnurekandi vill bíða um sinn og meta aðstæður, þá tapar hann ekki rétti til að byggja síðar á 3. gr. laga nr. 19/1979. Það er rétt að upplýsa starfsfólk að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða sem verði endurmetin þegar aðstæður skýrast.
Starfsfólk getur sótt um atvinnuleysisbætur, felli atvinnurekandi það af launaskrá. Bjóðist starfsmanni annað starf þá er hann óbundinn af uppsagnarfresti hjá atvinnurekanda og getur því látið fyrirvaralaust af störfum. Honum ber að tilkynna atvinnurekanda án tafar ef hann ræður sig í annað starf til frambúðar.
Stöðvun rekstrar í fiskvinnslu
Fyrirtæki í fiskvinnslu getur fellt niður launagreiðslur ef vinnslustöðvun stafar af ófyrirséðum áföllum, s.s. bilunum í tækjum eða búnaði vinnslustöðvar eða veiðiskips, bruna eða skipstapa eða öðrum atvikum, sem talin eru falla undir 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979.
Hráefnisskortur í fiskvinnslu fellur einnig undir heimild laganna. Samkvæmt kafla 18.4. í kjarasamningi SA og SGS um kauptryggingu fiskvinnslufólks, þá greiðir atvinnurekandi fiskvinnslufólki dagvinnutryggingu ef vinna stöðvast vegna hráefnisskorts. Forsenda þeirrar skyldu er hins vegar að í gildi séu reglur um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta til fiskvinnslufyrirtækja, sbr. fyrirvara í gr. 18.4.8.1 í kjarasamningi verkafólks. Þau lög voru felld niður frá og með 1. janúar 2025.
Atvinnuleysisbætur
Nálgast má upplýsingar um atvinnuleysisbætur, rétt til bóta, fjárhæðir og umsóknarform á heimasíðu Vinnumálastofnunar.
Uppsagnir í rekstrarstöðvun
Ef atvinnurekandi fellir starfsfólk af launaskrá þá er honum eftir sem áður heimilt að segja starfsfólki upp störfum skv. almennum reglum. Laun eru ekki greidd á uppsagnarfresti á meðan skilyrði um force majeure aðstæður eru enn til staðar.
Ef fjölda starfsfólks er sagt upp getur þurft að gæta að reglum um hópuppsagnir.