Vinnumarkaðsvefur

Jafnlaunavottun/staðfesting

Með lögum um jafnlaunavottun, nr. 56/2017 , var í fyrsta skipti í íslenskum rétti kveðið á um jafnlaunavottun. Með lögunum var lögfest skylda fyrirtækja þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli til að öðlast jafnlaunavottun. Með lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (jafnréttislög) er fyrirtækjum þar sem starfa 25-49 heimilt að sækja um jafnlaunastaðfestingu, í stað jafnlaunavottunar áður.

Jafnlaunavottun
Fyrirtæki þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012, sbr. 1. gr. c staðalsins.

Þegar jafnlaunavottun liggur fyrir skal vottunaraðili skila Jafnréttisstofu afriti af jafnlaunavottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar.

Jafnlaunavottunina skal endurnýja á þriggja ára fresti. Vottunaraðili skal jafnframt tilkynna Jafnréttisstofu um það ef úttekt leiðir ekki til jafnlaunavottunar og greina frá ástæðum þess með framlagningu skýrslu um niðurstöðu úttektar.

Með fyrirtæki í þessum skilningi er átt við þá starfsemi sem fellur undir kennitölu viðkomandi fyrirtækis. Ekki þarf því að jafnlaunavotta samstæður félaga.

Jafnlaunastaðfesting
Fyrirtæki þar sem 25–49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafa val um að gangast undir jafnlaunastaðfestingu í stað jafnlaunavottunar. Jafnréttisstofa veitir jafnlaunastaðfestingu að undangengnum skilum á gögnum um að jafnlaunakerfi fyrirtækis og framkvæmd þess uppfylli, að mati Jafnréttisstofu, þær kröfur sem settar eru fram í jafnréttislögum.

Jafnlaunastaðfestingu skal endurnýja á þriggja ára fresti.

Eftirlit
Jafnréttisstofa annast eftirlit með því að fyrirtæki þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlist jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu þar sem það á við, og endurnýjun þar á. Heimilt er að beita þeim fyrirtækjum dagsektum sem verða ekki við fyrirmælum Jafnréttisstofu um úrbætur innan hæfilegs frests.

Hlutverk vottunaraðila

Vottunaraðili telst sá aðili sem hlotið hefur faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Vottunaraðili skal geta framvísað faggildingarskírteini til staðfestingar á faggildingu sinni sbr. reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85.

Vottunaraðili stýrir og framkvæmir úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis. Þegar hann hefur lokið við að sannreyna að launakerfi fyrirtækisins samræmist jafnlaunastaðlinum tekur hann ákvörðun um vottun og gefur út vottunarskírteini því til staðfestingar.

Jafnlaunamerkið er veitt þeim vinnustöðum sem hlotið hafa faggilta vottun á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 af þar til bærum aðila, þ.e. viðurkenndri vottunarstofu sem uppfyllir skilyrði reglugerðar um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85 .

Þegar vottun liggur fyrir skal vottunaraðili skila Jafnréttisstofu afriti af vottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar.

Hvenær þarf fyrirtæki að vera orðið jafnlaunavottað?

Það fer eftir stærð fyrirtækis hvenær það þarf að hafa öðlast jafnlaunavottun eða fengið jafnlaunastaðfestingu, sbr. lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Tímamörkin eru eftirfarandi:

a) 31. desember 2019 fyrirtæki þar sem starfa 250 starfsmenn eða fleiri á ársgrundvelli,
b) 31. desember 2020 fyrirtæki þar sem starfa 150-249 starfsmenn á ársgrundvelli,
c) 31. desember 2021 fyrirtæki þar sem starfa 90-149 starfsmenn á ársgrundvelli,
d) 31. desember 2022 fyrirtæki þar sem starfa 25-89 starfsmenn á ársgrundvelli.
e) 31. desember 2022 fyrirtæki þar sem starfa 25-49 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess.