Vinnumarkaðsvefur

Covid 19 og sóttkví

Hinn 11. febrúr 2022 var sóttkví afnumin. Þeir sem hafa greitt laun í sóttkví starfsmanna fram að þeim tíma en eiga eftir að sækja um endurgreiðslu hafa fram til 31. mars 2023 til að sækja um endurgreiðslu.

Gildissvið laganna er í meginatriðum tvíþætt og tekur til launagreiðslna vegna:

1) Launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda
2) Barna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda

Hvað varðar launamenn í sóttkví byggja lögin á samkomulagi SA við stjórnvöld og ASÍ um viðbrögð til að hægja á útbreiðslu COVID 19.

SA beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til starfsmanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Hvert og eitt fyrirtæki verður að meta með hvaða hætti það mætir þeim tilmælum en SA telja mjög æskilegt að atvinnurekendur taki þeim með jákvæðum hætti, m.a. með hliðsjón af endurgreiðslu hluta kostnaðar af hálfu ríkisins. Sótt er um endurgreiðslu á vef Vinnumálastofnunar .

Sjá nánar um framkvæmdina hér neðar í "spurt og svarað".

SA leggja áherslu á að atvinnurekendur grípi til allra ráðstafana á vinnustöðum til að draga úr smithættu í samræmi við viðbragðsáætlun. Þeir kynni sér vel upplýsingavef Landlæknis , m.a. sérstakar upplýsingar fyrir atvinnulífið og vefinn www.covid.is.

Síðast uppfært:

22.2.2022 Sóttkví afnumin

10.1.2022 Takmarkanir frá sóttkví vegna þríbólusettra

3.1.2022: Hvaða kostnaður fellur á atvinnurekanda?

Á starfsmaður í sóttkví rétt á launum?

Samtök atvinnulífsins geta einungis beint tilmælum til atvinnurekenda að greiða starfsmönnum laun í sóttkví en ekki skuldbundið þá til að greiða laun.

Samkvæmt lögum og kjarasamningum nýtur starfsfólk launa í veikindafjarvistum, í samræmi við áunnin veikindarétt, sé það óvinnufært vegna sjúkdóms.

Ef starfsmaður er ekki sýktur en þarf samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að sæta sóttkví, hér á landi eða erlendis, og kemst þ.a.l. ekki til vinnu teljast fjarvistir lögmætar en launaréttur er ekki til staðar. Byggir það annars vegar á fyrrnefndum skilyrðum laga um rétt til launa í veikindatilvikum og hins vegar að um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) er að ræða sem hafa bein áhrif á starfsemi atvinnurekanda. Annað gildir ef starfsmaður þarf að sæta sóttkví eftir vinnuferð á vegum atvinnurekanda.

Margir atvinnurekendur vilja hins vegar koma til móts við starfsmenn sína við þessar fordæmalausu aðstæður og greiða þeim laun eða hluta launa, enda sameiginlegir hagsmunir að starfsmaður geti fylgt fyrirmælum um að sæta sóttkví. Sjá hér neðar um tilmæli SA til atvinnurekenda.

Atvinnurekendur sem fá greidda styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku launamanns í vinnumarkaðsúrræði eiga ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum vegna sama launamanns á sama tímabili og fyrrnefndir styrkir eiga við um.

Tilmæli SA um laun starfsmanna í sóttkví

SA hafa gert samkomulag við stjórnvöld og ASÍ um viðbrögð til að hægja á útbreiðslu COVID 19 sem felur m.a. í sér að þeim tilmælum er beint til atvinnurekenda að laun verði greidd til starfsmanna sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Markmiðið er að stuðla að því að einstaklingar í sóttkví geti fylgt fyrirmælum yfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Eins og rakið hefur verið hér að framan takmarkast launaréttur starfsmanns í sóttkví við þær aðstæður að hann sé jafnframt óvinnufær vegna sjúkdóms. Tilmælin eru því um að atvinnurekendur gangi lengra en skylt er enda um að ræða einstaklinga sem ekki eru sýktir og eiga því ekki rétt til veikindalauna.

Tilmæli SA byggja á þeirri forsendu að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um lagabreytingar gangi eftir og atvinnurekendum verði greiddur hluti þess kostnaðar sem þeir taka á sig.

Ef starfsmaður í sóttkví sinnir sínu starfi í fjarvinnu mun eðlilega ekki koma til endurgreiðslu en geti hann einungis sinnt starfi sínu að hluta í fjarvinnu þarf að meta eðlilegt hlutfall endurgreiðslu.

Tilmæli SA segja ekki til um hvaða laun verði greidd starfsmönnum í sóttkví. Það er ákvörðun atvinnurekanda hvort hann greiðir föst laun, dagvinnulaun eða tiltekið hlutfall dagvinnulauna. Í einhverjum tilvikum munu atvinnurekendur ekki hafa svigrúm til að greiða laun umfram skyldu og mun þá reyna á beinar greiðslur Vinnumálastofnunar til starfsmanns.

Fyrirspurnum starfsmanna um laun í sóttkví verður að svara með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni og stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis. Má t.d. hafa eftirfarandi til hliðsjónar:

  • Ef starfsmaður þarf að sæta sóttkví vegna mögulegs smits við vinnu sína þá er ekki óeðlilegt að atvinnurekandi gangi lengra en skylt er og greiði föst laun. 
  • Ef starfsmaður hefur hugsanlega smitast í fríi og þarf að sæta sóttkví þá er eðlilegt að meta út frá kostnaðarþátttöku ríkisins hversu hátt hlutfall launa verði greitt.
  • Starfsmaður sem ákveður að fara í frí til útlanda á svæði sem honum má vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví nýtur ekki greiðslna skv. lögunum og atvinnurekandi ekki endurgreiðslu, sbr. breyting á lögunum

Ber að greiða starfsmanni vegna barns í sóttkví

Samkvæmt kjarasamningum á starfsmaður rétt á launum þurfi hann að sinna veiku barni . Skilyrði launaréttar er að um sé að ræða sjúkt barn undir 13 ára aldri og að annarri umönnun verður ekki komið við.

Barn sem sætir sóttkví án þess að vera veikt fellur ekki undir greiðsluskyldu atvinnurekanda skv. kjarasamningum.

Samkvæmt lögum um greiðslu vegna launa einstaklinga í sóttkví er aftur á móti heimilt að endurgreiða atvinnurekanda sem greiðir starfsmanni laun á meðan hann þarf að annast barn sitt í sóttkví hluta launagreiðslna. Kjósi atvinnurekandi að hafa ekki milligöngu um þessar greiðslur, t.d. vegna viðbótarkostnaðar sem á hann fellur vegna launatengdra gjalda, getur starfsmaður sótt um greiðslur beint til Vinnumálastofnunar.

Sjá nánar um skilyrði í næsta lið.

Til hvaða barna nær greiðsla launa?

Lög um greiðslu vegna launa einstaklinga í sóttkví ná til barna launamanns í hans forsjá sem sæta sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda enda barnið undir 13 ára aldri eða undir 18 ára aldri og þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Lögin ná ekki til barna sem þurfa að vera heima vegna samkomubanns eða annarrar röskunar á skólastarfi.

Hvaða kostnaður fellur á atvinnurekanda?

Þegar atvinnurekandi greiðir starfsmanni laun þá fylgja því launatengd gjöld og orlofslaun. Launatengd gjöld eru um 25% og orlof 10 - 13%, samtals um 35 - 38%.

Greiði atvinnurekandi starfsmanni laun í sóttkví þá fær hann launahlutann endurgreiddan, upp að tilgreindu hámarki, en ekki annan launatengdan kostnað.

Ef mánaðarlaun starfsmanns eru t.a.m. nálægt hámarksviðmiði laganna, kr. 633 þús., þá er kostnaður atvinnurekanda rúml. 100 þús. krónur vegna eins starfsmanns í tveggja vikna sóttkví.

Vegna mikilvægis sóttkvíar til að draga úr fjölgun smita þá hafa SA beint því til atvinnurekenda að greiða starfsmönnum laun í sóttkví og taka þannig þátt í kostnaði samfélagsins af þessu mikilvæga úrræði.

Það eru ekki allir atvinnurekendur í stöðu til að taka á sig fyrrnefndan kostnað, sér í lagi ef margir starfsmenn á vinnustað þurfa að sæta sóttkví, hvað þá ef við bætast foreldrar barna sem sæta sóttkví. Starfsmenn geta þá þurft að sækja um greiðslur beint til Vinnumálastofnunar.

Atvinnurekendur geta dregið úr kostnaði, t.a.m. með því að greiða einungis dagvinnulaun vegna daga í sóttkví eða greiða starfsmanni aðra fjárhæð sem innifelur orlofslaun. Atvinnurekandi hefur það svigrúm þar sem greiðsluskylda hvílir ekki á honum.

Hægt er að reikna kostnað atvinnurekanda í þessu excel-skjali.*

Allir sóttkvíardagar endurgreiddir nema starfsmaður gat unnið í fjarvinnu
Flest fyrirtæki landsins sem sótt hafa um greiðslur til Vinnumálastofnunar vegna launa í sóttkví eiga rétt á leiðréttingu en þau fengu mun lægri greiðslu en þeim bar. Þetta var niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála í fordæmisgefandi máli sem Samtök atvinnulífsins aðstoðuðu félagsmann sinn við en fjöldi fyrirtækja hafði leitað til samtakanna vegna umdeildrar túlkunar Vinnumálastofnunar á lögunum.

Vinnumálastofnun túlkaði lögin með þeim hætti að fyrirtæki fengju einungis endurgreiðslu fyrir þá daga sem starfsmenn áttu að vinna á sóttkvíartímabilinu. Starfsmaður þyrfti því að hafa átt að vera í vinnu alla sóttkvíardaganna til að fá tekjutjón sitt bætt að fullu.

Fyrirtækið sem höfðaði málið fékk einungis endurgreiðslu að fjárhæð 5.668 kr. vegna 14 daga sóttkvíar hjá starfsmanni sem vann aðra hverja helgi og fékk fyrir þá vinnu samtals 85.324 kr. á mánuði. Fyrirtækið borgaði starfsmanninum laun í sóttkvínni að fjárhæð 42.306 kr. og fékk því einungis endurgreiðslu upp á 13,4% og ekki er þá tekið tillit til launatengds kostnaðar.

Kærunefnd velferðarmála var sammála túlkun Samtaka atvinnulífsins sem er að finna hér á vinnumarkaðsvefnum og Vinnumálastofnun var gert að endurgreiða fyrirtækinu þannig að það fengi alla þá daga greidda sem starfsmaðurinn var í sóttkví eins og skýrt er kveðið á um í athugasemdum með lögunum.

Þarf fyrirtæki mitt að setja sér viðbragðsáætlun?

Mikilvægt er að atvinnurekendur stuðli að því að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda og starfsmanna þeirra að sem fæstir veikist eða sæti sóttkví enda getur mikil útbreiðsla haft neikvæði áhrif á rekstur fyrirtækja og valdið starfsmönnum og fjölskyldum þeirra skaða.

Öllum fyrirtækjum ber að setja sér viðbragðsáætlun vegna kórónavíruss (COVID 19). Á vef almannavarna er gátlisti um viðbragðsáætlun vena heimsfaraldurs. Atvinnurekandi setur reglur sem sniðnar eru að aðstæðum á hverjum stað. Markmiðið er að draga eins og kostur er úr smithættu vegna vírussins.

Sá einnig um áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað hér og gátlista á word sniðmáti hér .

Hvað gerum við ef starfsmaður er smitaður af kórónavírus?

Starfsmaður sem er smitaður af kórónavírus og er óvinnufær er í veikindaleyfi meðan það ástand varir. Atvinnurekandi getur krafist læknisvottorðs á sama hátt og vegna annarra veikinda. Ef vafi erum að starfsmaður hafi náð sér að fullu getur verið skynsamlegt fyrir atvinnurekanda að óska eftir því við starfsmann að hann komi með vinnufærnivottorð.

Megum við spyrja hvort starfsmaður er smitaður af kórónavírus (covid 19)?

Meginreglan er sú að starfsmanni er ekki skylt að greina atvinnurekanda frá ástæðum veikinda. Samkvæmt ákvæðum sóttvarnarlaga er það almenn skylda þeirra sem telja sig hafa smitast af smitsjúkdómi eins og kórónaveirunni að gera ráðstafanir til aðkoma í veg fyrir að sýkja aðra. Starfsmanni sem grunar að hann hafi sýkst af kórónavírus ber því skylda til að upplýsa atvinnurekanda svo hægt sé að gera ráðstafanir á vinnustað. Starfsmönnum ber alltaf við þessar aðstæður að leita sér læknisaðstoðar án tafar.

Hvað gerum við ef starfsmaður ákveður að ferðast erlendis í orlofi sínu?

Þegar starfsmaður fer erlendis í frí þá ferðast hann á eigin ábyrgð. Starfsmaður á ekki rétt til launa vegna lengri fjarveru en sem nemur orlofi sínu. Starfsmaður sem ferðast erlendis verður að skipuleggja orlof sitt þannig að honum sé stætt á að mæta til vinnu að loknu orlofi.

Starfsmenn og atvinnurekendur eru hvattir til að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu embættis Landlæknis um þær reglur sem í gildi eru hverji sinni á landamærum Íslands.

Starfsmaður sem hefur skupulagt orlof erlendis þarf ýmist að hætta við brottför sína, flýta heimkomu sinni eða semja við atvinnurekanda sinn um framlengt orlof ef fyrirséð er að hann getur ekki mætt til vinnu að loknu orlofi. Ellegar er um vanefnd að ræða að hálfu starfsmanns og er hann launalaus það tímabil sem hann er fjarverandi vegna sóttkvíarinnar/heimkomusmitgáttarinnar.

Starfsmaður sem ákveður að fara í frí til útlanda njóta ekki greiðslna skv. sóttkvíarlögunum og atvinnurekandi ekki endurgreiðslu, sbr. breyting á lögunum .

Getum við krafist þess að starfsmaður fari í sóttkví vegna áhættu á smiti af kórónavírus?

Það er réttur stjórnenda fyrirtækisins að ákveða hvort starfsmaður sé á vinnustað eða ekki. Ef starfsmaður er að koma frá landi/svæði þar sem kórónavírusinn er útbreiddur þá er rétt að kanna strax hvort hann þurfi hugsanlega að sæta sóttkví.

Atvinnurekandi getur óskað þess að starfsmaður mæti ekki til vinnu á meðan beðið er staðfestingar. Ef starfsmaður er sendur heim af atvinnurekanda án þess að heilbrigðisyfirvöld telji að honum beri að vera í sóttkví þá skerðast ekki föst laun hans þann tíma sem vinnuframlag hans er afþakkað.

Atvinnurekandi og starfsmaðurinn geta gert með sér samkomulag um að starfsmaður vinni heima ef aðstæður leyfa.

Hvað gerum við ef starfsmaður er í fríi erlendis og þarlend yfirvöld setja hann í sóttkví vegna kórónavíruss?

Þegar starfsmaður fer erlendis í frí þá ferðast hann á eigin ábyrgð. Ef tafir verða t.d. á flugi til Íslands vegna ráðstafana flugfélags þá er það alfarið á ábyrgð starfsmanns.

Starfsmaður á ekki rétt til launa vegna lengri fjarveru. Atvinnurekandi og starfsmaður geta þó samið um framlengt orlof.

Hafi starfsmaður hins vegar verið settur í sóttkví erlendis að kröfu þarlendra heilbrigðisyfirvalda þá gilda um það sömu reglur og um sóttkví á Íslandi að fyrirmælum íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Ef starfsmaður aftur á móti veikist erlendis og er settur í sóttkví vegna þess gilda almennar reglur um skilyrði til uppbótarorlofs vegna veikinda. Sjá nánar um veikindi í orlofi á vinnumarkaðsvefnum.

Má starfsmaður ferðast til hættusvæða í fríi sínu?

Starfsmenn og atvinnurekendur eru hvattir til að kynna sér vel upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu embættis Landlæknis. Þar er að finna ráðleggingar um að ferðamenn ferðist ekki að óþörfu til svæða sem skilgreind hafa verið hættusvæði.

Ekki kemur til greiðslu launa í sóttkví samkvæmt lögunum hafi launamaður farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví, sbr. breyting á lögunum .

Hvað gerum við ef starfsmaður er í vinnuferð erlendis og þarlend yfirvöld kyrrsetja hann vegna kórónavíruss?

Á meðan á dvöl starfsmanns stendur geta erlend yfirvöld sett reglur sem hindra heimferð hans.

Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir starfsmanni á meðan hann er í vinnuferð erlendis eða atvinnurekandi ákveður að hann skuli vera staðsettur annars staðar en á sínum venjulega vinnustað.

Ef starfsmaður er fastur annars staðar eftir vinnuferð, þá heldur starfsmaður launum á meðan hann er kyrrsettur. Jafnframt er eðlilegt að atvinnurekandi komi til móts við starfsmann með greiðslu útlagðs kostnaðar vegna fæðis og gistingar sem af þessu stafar innan eðlilegra marka.

Getur starfsmaður neitað að fara í vinnuferð vegna hættu á kórónavíruss?

SA ráðleggur atvinnurekendum að fara eftir ráðleggingum Landlæknis þegar vinnuferðir eru ákveðnar. Ekki er því ráðlagt að atvinnurekandi sendi starfsmann á svæði sem Landlæknir hefur metið sem hættusvæði. Þá verður að líta svo á að starfsmaður sé í rétti til að neita að ferðast til svæða sem skilgreind eru sem hættusvæði af Landlækni.

Hvað gerum við ef starfsmaður fær ekki pössun fyrir barnið sitt vegna þess að leikskóli er lokaður vegna kórónavíruss (eða verkfalls)?

Það er á ábyrgð starfsmanns útvega pössun fyrir barn sitt. Starfsmaðurinn þarf að reyna finna aðra umönnun á meðan leikskólinn er lokaður. Ef starfsmaður getur ekki komið að annarri umönnun á hann rétt á að taka sér launalaust leyfi skv. lögum nr. 27/2000 um fjölskylduábyrgð. Atvinnurekandi og starfsmaðurinn geta einnig gert með sér samkomulag um að starfsmaður vinni heima eða taki út orlofsdaga.

Ef barnið er aftur á móti veikt gilda ákvæði kjarasamninga vegna veikinda barna.

Hvað gerum við, ef starfsmaður vill ekki mæta til vinnu vegna ótta við að smitast?

Það er ekki starfsmanns að taka ákvörðun um það hvort hann fari í sóttkví/einangrun. Taki starfsmaður ákvörðun um að mæta ekki til vinnu vegna ótta við smit þá er sú fjarvist ólögmæt. Eingöngu læknar og heilbrigðisyfirvöld geta ákveðið að starfsmaður þurfi að sæta sóttkví/einangrun.

Það leiðir hins vegar af eðli máls að atvinnurekendur þurfa að taka tillit til starfsfólks sem telur sig í sérstakri hættu vegna hugsanlegs smits. Eðlilegt getur verið að koma til móts við starfsmann við þær aðstæður, t.d. ef hann óskar eftir að taka orlof eða launalaust leyfi.

Starfsmaður í sjálfskipaðri sóttkví fellur ekki undir hugsanlega greiðsluþátttöku ríkisins vegna starfsfólks í sóttkví því greiðslur munu afmarkast við þá sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Kjósi atvinnurekandi að greiða starfsmanni laun í sjálfskipaðri sóttkví þá getur hann ekki óskað eftir endurgreiðslu hluta kostnaðar af hálfu ríkisins.

Má starfsmaður vera heima vegna vandræða með almenningssamgöngur?

Það er á ábyrgð starfsmanns að koma sér til vinnu. Liggi almenningssamgöngur niðri hvílir á honum skylda til að finna aðra leið til að mæta til vinnu. Mæti starfsmaður ekki til starfa eða of seint af þessum sökum á hann ekki rétt til launa fyrir umræddan tíma.