Vinnumarkaðsvefur

Vernd trúnaðarmanna

Trúnaðarmaður nýtur skv. 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sérstakrar verndar gegn uppsögnum. Óheimilt er að segja trúnaðarmanni upp vegna starfa hans sem trúnaðarmanns og hann skal einnig sitja fyrir um að halda starfi sínu ef fækka þarf starfsmönnum í fyrirtæki.

Trúnaðarmenn eiga ekki að gjalda þeirra starfa sinna

Trúnaðarmaður nýtur sérstakrar verndar gegn uppsögnum að því er varðar störf hans sem trúnaðarmanns, sbr. 1. málslið 11. gr. l. nr. 80/1938 .

„Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess, að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannastörfum fyrir sig".

Sértæk en ekki almenn vernd
Sú vernd nær bæði til uppsagnar úr starfi og starfskjara en vinnuveitanda er óheimilt að grípa til sértækra aðgerða sem eingöngu beinast að trúnaðarmanni. Trúnaðarmaður er á hinn bóginn ekki undanþeginn almennum aðgerðum, t.d. ef atvinnurekandi þarf að segja upp yfirvinnu eða yfirborgun.

Stéttarfélag / starfsmaður ber sönnunarbyrðina
Haldi stéttarfélag því fram að trúnaðarmanni hafi verið sagt upp vegna trúnaðarmannastarfa hans á stéttarfélagið sönnunarbyrðina fyrir því að það hafi verið tilefni uppsagnarinnar. Ekki nægir að sýna fram á að slæm samskipti hafi verið á milli vinnuveitanda og trúnaðarmanns heldur verður að færa fram ákveðin rök fyrir því að uppsögnin hafi verið af þeim rótum runnin.

Jafnvel þótt ekki náist að sýna fram á brot vinnuveitanda á þessu ákvæði laganna í tengslum við uppsögn trúnaðarmanns þá er forgangur trúnaðarmanns til að halda starfi mjög ríkur skv. 2. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 .

Forgangur trúnaðarmanns við fækkun starfsmanna

Trúnaðarmenn sitja að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni skv. 2. málsl. 11. gr. laga 80/1938 sem er svohljóðandi:

„Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum og skal þá trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.“

Erfið sönnunarbyrði vinnuveitanda
Þótt forgangurinn sé ekki skilyrðislaus þá getur reynst örðugt fyrir vinnuveitanda að sýna fram á og sanna málefnalegar ástæður sem réttlæti að trúnaðarmanni sé sagt upp fremur en öðrum.

Störf og starfshæfni trúnaðarmannsins samanborið við aðra starfsmenn geta komið til skoðunar. Þótt uppsögn trúnaðarmanns sé byggð á tilteknum hlutlægum viðmiðum, t.d. starfsaldri eða frammistöðu í starfi, hefur það ekki verið talin lögmæt ástæða fyrir uppsögninni ein og sér, sbr. dóma Félagsdóms nr. 5/1993 og 6/1993 í X. bindi bls. 65 og 74.

Til marks um hversu rík vernd trúnaðarmanna er þá hefur einungis einn dómur fallið í Félagsdómi þar sem uppsögn af hálfu vinnuveitanda var talin réttmæt, sjá dóm í máli nr. 3/2016 .

Brot í starfi - krafa um áminningu

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur útiloka þó ekki að trúnaðarmönnum sé sagt upp störfum af öðrum orsökum, t.d. vegna brota í starfi.

Trúnaðarmaður á að gefa gott fordæmi og framfylgja reglum
Félagsdómur hefur talið að gera verði þá kröfu til trúnaðarmanns stéttarfélags að hann gefi gott fordæmi og gæti þess að framfylgja sjálfur réttum starfsreglum á vinnustað og þeim fyrirmælum kjarasamninga sem hann á að gæta að framfylgt sé af hálfu vinnuveitandans, sbr. t.d. dóma Félagsdóms í málum nr. 1/1965 og 4/1966. Misbrestur í þeim efnum geti veitt vinnuveitanda heimild til að segja trúnaðarmanni upp störfum.

Almennt krafa um áminningu
Sé trúnaðarmanni sagt upp starfi vegna brota í starfi, t.d. vegna vanrækslu í starfi eða lélegra mætinga, yrði alla jafna gerð krafa um að hann hefði áður fengið áminningu.

Um skyldur starfsmanna í ráðningarsambandi er fjallað í kafla um skyldur starfsmanna og trúnaður.

Um form og efni áminningarbréfa er fjallað í kafla um riftun . Sjá einnig formbréf um riftun.

Starfslok trúnaðarmanns vegna aldurs

Uppsögn trúnaðarmanns sökum aldurs hefur verið talin lögmæt, þar sem ákvörðun vinnuveitanda um aldurstakmörk starfsmanna hafi verið heimil og tekið jafnt til trúnaðarmanna sem annarra starfsmanna. Sjá dóm Félagsdóms VII. bindi bls. 57.

Viðurlög vegna ólögmætrar uppsagnar trúnaðarmanns

Ekki skylt að endurráða
Vinnuveitandi verður ekki á grundvelli 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 dæmdur til að endurráða trúnaðarmann þótt honum sé ólöglega sagt upp starfi.

Skaðabótaábyrgð og refsiviðurlög (sekt)
Ólögmæt uppsögn trúnaðarmanns varðar skaðabótaábyrgð. Viðurlög við brotum gegn 1. málsl. 11. gr. geta jafnframt verið sektir í ríkissjóð, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 3/2004.

Ef trúnaðarmanni hefur verið sagt upp störfum með samningsbundnum uppsagnarfresti og uppsögnin dæmd ólögmæt þá hafa dómstólar talið hæfilegt að miða skaðabætur vegna brots við þriggja mánaða laun til viðbótar við uppsagnarfrest. Kröfum um laun út tilnefningartímabilið hefur verið hafnað. Sjá dóm Hæstaréttar 1994, bls. 2768 .

Ef trúnaðarmanni hefur verið sagt upp störfum fyrirvaralaust vegna brota í starfi og uppsagnarfrestur ekki greiddur þá hafa dómstólar miðað skaðabætur vegna brots við þriggja mánaða laun auk launa út þann mánuð sem samningi var sagt upp. Kröfum um að laun á uppsagnarfresti bætist við þriggja mánaða bótagreiðsluna hefur verið hafnað, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 204/2004 .

Sjá hér neðar reifun dóma um skaðabætur og sektir vegna uppsagna trúnaðarmanna.