Vinnumarkaðsvefur

Lokun fyrirtækis í orlofi

Vinnuveitandi getur ákveðið að allir starfsmenn hans taki orlof á sama tíma og lagt niður starfsemi sína á meðan. Starfsmenn sem ekki eiga rétt á fullu orlofi geta þá ekki krafist launa þegar þeir hafa fullnýtt orlofsdaga sína. Um þetta segir í 9. gr. orlofslaga nr. 30/1987 :

„Nú liggur atvinnurekstur niðri á meðan á orlofi stendur vegna þess að starfsfólki er veitt orlof samtímis og geta þá þeir launþegar, sem ekki eiga rétt á fullu orlofi, ekki krafist launa eða orlofslauna fyrir þá daga, sem á vantar.“

Eigi að loka í orlofi er rétt að tilkynna það svo fljótt sem við verður komið og helst fyrir upphaf orlofstímabilsins. Að öðrum kosti getur hugsanlega komið til þess að einstakir starfsmenn sem þegar hafa farið í orlof eða fengið úthlutað orlofi áður en ákvörðun um lokun er tekin og án þess að þeir hafi vitað um þau áform eigi rétt á launum þann tíma sem starfsemin liggur niðri. Lokun skal þó ávallt tilkynna minnst með mánaðar fyrirvara.

Eðlilegt er að miða við að samræmd orlofstaka vari ekki lengur en sem nemur sumarorlofi skv. kjarasamningum, þ.e. í 20 daga / 4 vikur.

Sérákvæði vegna fiskvinnslufyrirtækja
Í kjarasamningum fiskvinnslufólks er sérstök bókun um orlofsmál:

„Tilkynna skal starfsfólki í síðasta lagi í aprílmánuði hvernig almennu fyrirkomulagi orlofs verður háttað í viðkomandi fiskvinnslufyrirtæki og hvort komi til samræmdrar orlofstöku starfsfólks og á hvaða tímabili.”

Fiskvinnslufyrirtæki þurfa því að tilkynna eigi síðar en í aprílmánuði ef þau ætla að nýta sér heimild til samræmdrar orlofstöku starfsmanna og tilkynna jafnframt á hvaða tímabili fyrirtækið verði lokað vegna orlofstöku.