Orlof

Allt launafólk á rétt á orlofi, það er leyfi frá störfum í tiltekinn fjölda daga auk orlofslauna sem reiknast af öllum launum.

Reglur um orlof er að finna í orlofslögum og kjarasamningum. Orlofslög kveða m.a. á um lágmarksorlof, ákvörðun orlofstöku og útgreiðslu orlofslauna. Kjarasamningar hafa að geyma ákvæði um orlof umfram lágmarksorlof, hvernig það skiptist í sumar- og vetrarorlof og veikindi í orlofi.

Atvinnurekendur þurfa að gæta að ýmsum þáttum þegar kemur að orlofi, s.s:

  • Halda utan um starfstíma starfsmanns og eftir atvikum starfstíma í viðkomandi starfsgrein og vita hvenær kemur til hækkunar á orlofsrétti starfsmanns.
  • Tryggja að orlofslaun séu rétt reiknuð og að þau komi til greiðslu við orlofstöku.
  • Halda utan um orlofstöku starfsmanna. Deilur koma upp um fjölda úttekinna daga, sér í lagi við starfslok.
  • Ef orlofslaun eiga að vera innifalin í einhverjum sérgreiðslum / eingreiðslum þá er mikilvægt að tilgreina skriflega að greiðslan innifeli orlof.