Lífeyrissjóður

Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997 er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.

Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt lögunum skal vera a.m.k. 12% af heildarfjárhæð greiddra launa. Í kjarasamningum hefur verið samið um skiptingu gjaldsins og hækkun á mótframlagi vinnuveitanda. Gegn 4% iðgjaldi starfsmanns er mótframlag vinnuveitanda frá 1. júlí 2018: 11,5%.

Fyrstu 12% af iðgjaldi til lífeyrissjóða á samningssviði SA og ASÍ rennur til samtryggingar. Sjóðsfélagar ráða því svo sjálfir hvort þeir ráðstafi iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign hjá viðkomandi lífeyrissjóði eða samtryggingu og gerist það í beinum samskiptum sjóðsfélaga og lífeyrissjóða án milligöngu launagreiðanda.

Af hvaða launum skal greiða í lífeyrissjóð?

Stofn til iðgjalds eru allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru. Til gjaldsstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga.

Í hvaða lífeyrissjóð ber að greiða?

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. lífeyrissjóðslaga fer aðild að lífeyrissjóði eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á.

Launamenn eru þannig almennt bundnir aðild að tilteknum lífeyrissjóði. Verkafólk í Reykjavík á því aðild að Gildi lífeyrissjóði , afgreiðslufólk að Lífeyrissjóði verslunarmanna o.s.frv.

Meginreglan að starfsmönnum sé skylt að vera í lífeyrissjóði sem stéttarfélag þeirra stendur að
Þegar launamenn eru í stéttarfélagi má almennt miða við að þeir eigi aðild að þeim lífeyrissjóði sem stéttarfélagið stendur að.

Hafa verður í huga að viðkomandi lífeyrissjóður á kröfu á hendur launagreiðanda um greiðslu lífeyrisiðgjalda af starfsmönnum. Einstakir starfsmenn geta því ekki ákveðið að greiða í annan lífeyrissjóð en lögin ákveða. Krafa lífeyrissjóðs viðkomandi starfsgreinar er enn til staðar.

Frá þessari meginreglu er þó gerð undantekning. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.

Þannig hafa vinnuveitendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar frjálst val um til hvaða lífeyrissjóðs þeir greiða. Sama á við um þá hópa launamanna sem starfa utan samningssviðs stéttarfélaganna. Má þar nefna sérfræðinga og stjórnendur.

Ef ráðningarsamningur starfsmanns byggir ekki á ákveðnum kjarasamningi þá er honum jafnan heimilt að velja sér lífeyrissjóð og skal aðild tiltekin í ráðningarsamningi.

Valfrelsið er þó bundið við þá lífeyrissjóði sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra. Listi yfir þá lífeyrissjóði sem hafa fengið viðurkenningu ráðherra er að finna inn á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins .

Viðbótarlífeyrissparnaður - mótframlag skv. kjarasamningum

Í helstu kjarasamningum er kveðið á um mótframlag vinnuveitanda á móti viðbótarlífeyrissparnaði starfsmanna. Ber vinnuveitanda að greiða 2% framlag enda sé framlag starfsmanns a.m.k. 2%.

Vinnuveitendur greiða framlag starfsmanns og eigið framlag mánaðarlega til þeirra sjóða sem starfsmenn hafa valið og gert samning við um ávöxtun sparnaðarins.

Lífeyrissjóðir og ýmis fjármálafyrirtæki taka við slíkum sparnaði, og er starfsmönnum frjálst að velja til hverra þeir greiða, að svo miklu leyti sem það fer ekki í bága við reglur einstakra sjóða.

Heildarframlag í séreign skv. lögum og kjarasamningum

<table>
  <tr>
    <td><p>Frá starfsmanni</p></td>
    <td><p>Frá vinnuveitanda</p></td>
    <td><p>Samtals</p></td>
  </tr>

  <tr>
    <td><p><span value="table" data-span="label">0%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">0%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">0%</span></p></td>
  </tr>

  <tr>
    <td><p><span value="table" data-span="label">1%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">0%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">1%</span></p></td>
  </tr>

  <tr>
    <td><p><span value="table" data-span="label">2%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">2%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">4%</span></p></td>
  </tr>

  <tr>
    <td><p><span value="table" data-span="label">3%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">2%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">5%</span></p></td>
  </tr>

  <tr>
    <td><p><span value="table" data-span="label">4%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">2%</span></p></td>
    <td><p><span value="table" data-span="label">6%</span></p></td>
  </tr>


</table>

Áhrif greiðslu í lífeyrissjóð á skattstofn og tryggingagjaldsstofn

Þegar skattstofn til staðgreiðslu tekjuskatts starfsmanns er reiknaður er samningsbundið 4% framlag starfsmanns til lífeyrisjóðs dregið frá. Auk þess er heimilt að færa til frádráttar allt að 4% af launum skv. samningi við lífeyrisjóð um viðbótarlífeyrissparnað. Stofn til staðgreiðslu getur því verið frá 92-96% heildarlauna.

Um er að ræða svokallaða skattfrestun, þar sem greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattskyldar eins og hver önnur laun.

Tryggingagjald reiknast af heildarlaunum að viðbættu lífeyrissjóðsmótframlagi vinnuveitanda.

Lágmarks- og viðbótartryggingavernd

Lífeyrissjóður skal tryggja sjóðfélögum ævilangan elli- og örorkulífeyri og maka- og barnalífeyri.

Lágmarkstryggingaverndin miðast við að eftir 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds njóti sjóðfélagi lífeyris sem svari 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt hefur verið af. Lífeyrissjóðirnir skulu í reglugerðum sínum ákveða hversu stóran hluta iðgjaldsins þurfi til að standa undir þessari tryggingavernd.

Ef iðgjald til lífeyrissjóðs er hærra en sem nemur kostnaði vegna lágmarkstryggingaverndar, ráðstafar sjóðfélagi mismuni til viðbótartryggingaverndar. Ef lífeyrissjóður hefur t.d. ákveðið að lágmarkstryggingaverndin kosti 10 af 12% iðgjaldi til sjóðsins, getur sjóðfélagi ráðstafað 2% með öðrum hætti, t.d. í séreign innan sama sjóðs eða til annars lífeyrissjóðs. Sama á við um greiðslur til lífeyrissjóðs umfram 12% lágmarksiðgjald.

Eftirlit skattyfirvalda með greiðslum iðgjalda

Til að markmiði laganna verði náð hafa skattyfirvöld eftirlit með því að iðgjald sé greitt af öllum launum.

Lífeyrissjóðir, launagreiðendur og launamenn senda skattstjóra upplýsingar um greidd iðgjöld en hann kannar hvort samræmi sé þar á milli. Komi í ljós að ekki hefur verið greitt a.m.k. 12% af heildartekjum í lífeyrissjóð senda skattyfirvöld upplýsingar sínar til þess lífeyrissjóðs sem einstaklingur á aðild að, eða Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda ef enginn lífeyrissjóður er tilgreindur, sem annast innheimtu þeirra iðgjalda sem upp á vantar.

Um eftirlit með greiðslu lífeyrisiðgjalds sjá nánar V. kafla reglugerðar nr. 391/1998 með síðari breytingum.

Vinnuveitendur á almennum markaði sem greiða iðgjöld til LSR

Hverjir eiga rétt til aðildar?
Starfsmenn á almennum vinnumarkaði eiga ekki lögbundinn rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ( LSR ) en slík aðild hefur viðgengist í ákveðnum tilvikum með samþykki sjóðsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Aðildarumsókn starfsmanns byggist á samkomulagi hans og vinnuveitanda og ræðst jafnframt af samkomulagi þeirra hvort viðbótarkostnaður af LSR aðild sé borinn af vinnuveitanda eða starfsmanni.

Hvert er iðgjald vinnuveitanda?
Iðgjald vinnuveitanda starfsmanna í LSR er 11,5%.

Ekki sjálfgefið að vinnuveitandi þurfi að greiða viðbótarframlag
Iðgjald af LSR aðild kann að taka breytingum, sbr. t.d. viðbótariðgjald upp á 6,24% frá og með 1. janúar 2022 sem ákveðið var af LSR með stoð í lögum nr. 127/2016 . Gjald þetta er endurskoðað árlega en því er ætlað að endurgreiða ríkissjóði framlag sem fer til þess að greiða lífeyrisauka þessara starfsmanna. Iðgjald þeirra vinnuveitanda sem viðbótariðgjaldið nær til er því 17,74%.

Starfsmaður á ekki sjálfkrafa rétt til greiðslu viðbótarkostnaður frá atvinnurekanda nema ráðningarsamningur tryggi honum ábyrgð vinnuveitanda á greiðslu mótframlags til LSR eins og það er hverju sinni. Mikilvægt er að vinnuveitandi og starfsmaður hafi þetta í huga og gangi frá ráðningarsamningi þannig að tekið sé á þessum atriðum.

Dæmi:
„Vinnuveitandi greiðir 11,5% mótframlag til LSR. Verði iðgjaldið hækkað ræður starfsmaður því hvort hann taki á sig hækkunina eða flytji sig yfir í lífeyrissjóð á almenna markaðnum."

Sé umrætt viðbótariðgjald ekki greitt færast starfsmenn úr jafnri ávinnslu yfir í aldurstengda ávinnslu.

Jöfn eða aldurstengd ávinnsla?
Í jafnri ávinnslu er ávinnsla réttinda jöfn yfir starfsævina, óháð aldri. Hver króna sem greidd er til sjóðsins gefur sömu réttindi, óháð því hversu lengi sjóðurinn nær að ávaxta hana.

Í aldurstengdri ávinnslu taka réttindi á hinn bóginn mið af aldri sjóðsfélaga þegar iðgjald berst sjóðnum. Iðgjald yngri sjóðsfélaga eru verðmætari því þau ávaxtast yfir lengri tíma. Réttindi sjóðsfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.