Vinnutímastytting VR-LÍV

Vinnutímastytting verslunar- og skrifstofufólks tekur gildi 1. janúar 2020. Kynna ber útfærslu styttingar fyrir 1. desember 2019.

Til að tryggja rétta og góða framkvæmd vinnutímastyttingar er mikilvægt að atvinnurekendur kynni sér ákvæði kjarasamningsins, kynningu SA og dæmi um samkomulag á vinnustað. Hér að neðan er einnig "spurt og svarað" auk þess sem lögfræðingar vinnumarkaðssviðs SA veita aðildarfyrirtækjum aðstoð.

Ákvæði kjarasamnings: Ný vinnutímaákvæði kjarasamnings VR/LÍV - taka gildi 1. janúar 2020
Kynning:
Kynning á vinnutímastyttingu VR/LÍV (október 2019)
Upptaka frá málstofu SA í október 2019

Samningsform: word skjal

Spurt og svarað:

Hvenær tekur vinnutímastytting VR/LÍV gild?

Samkvæmt kjarasamningi SA og VR/LÍV frá 3. apríl 2019 tekur vinnutímastytting gildi 1. janúar 2020.

Gert er ráð fyrir að samkomulag verði gert á vinnustöðum fyrir 1. desember 2019 um fyrirkomulag styttingar.

Ef samkomulag er ekki gert og vinnuveitandi tilkynnir ekki um fyrirkomulag þá styttist hver vinnudagur um 9 mín., m.v. fullt starf. Forsenda styttingar er eðlilega sú að vinnutímastytting eigi við, sbr. umfjöllun hér neðar.

Hverjir fá vinnutímastyttingu?

Vinnutímastytting 1. janúar 2020 tekur til þeirra starfsmanna sem kjarasamningur SA og VR/LÍV nær til.

Í flestum tilvikum er ljóst hverjir falla undir kjarasamninginn, þ.e, afgreiðslufólk, skrifstofufólk, lagerstarfsmenn, sölumenn og félagsmenn VR í gestamóttöku.

Nokkur frávik eru:

 • Ef vinnutími starfsmanns, m.v. umsamið starfshlutfall, er þegar styttri en kveðið er á um í kjarasamningi m.v. 1.1.2020 styttist hann ekki frekar.
 • Starfsmenn á tímakaupi fá í stað styttingar hærra tímakaup frá og með 1.1.2020 vegna lækkunar deilitölu dagvinnutímakaups. Þó frávik, sjá neðar.
 • Starfsmenn sem vinna utan dagvinnutímabils á eftirvinnu- eða yfirvinnukaupi fá ekki styttingu. Einungis sá hluti starfs sem unninn er á dagvinnutímabili tekur styttingu.
 • Stjórnendur, sem falla ekki undir gildissvið kjarasamningsins, fá ekki styttingu. Þótt vísað sé til kjarasamnings VR/LÍV í ráðningarsamningum einstakra stjórnenda þá nær sú tilvísun ekki til vinnutímaákvæða.

Hvað með aðra í svipuðum störfum?

Starfsmenn geta sinnt ýmsum störfum sem geta talist vera afgreiðslu- eða skrifstofustörf án þess að vinnutímastytting 1. janúar 2020 eigi við, t.d:

Verkafólk: Kjarasamningar SGS/Eflingar ná til ýmissa starfa sem eru svipuð þeim sem falla undir kjarasamning VR/LÍV. Um vinnutímastyttingu verkafólks þarf að gera sérstakan samning á grundvelli 5. kafla kjarasamnings um fyrirtækjaþátt. Hún er ekki sjálfkrafa. Ef afgreiðslufólk og verkafólk er hins vegar að vinna í sömu störfum hlið við hlið þá getur vinnuveitandi þurft að gæta samræmis, m.a. m.t.t. jafnlaunasjónarmiða.

Ferðaþjónusta: Stéttarfélög verkafólks semja um störf í ferðaþjónustu og greiðasölu, þ.m.t. á skyndibitastöðum og í gestamóttöku. Um vinnutímastyttingu fer skv. 5. kafla kjarasamnings um fyrirtækjaþátt og því er vinnutímastytting ekki sjálfkrafa.

Félag lykilmanna: Samtök atvinnulífsins hafa gert kjarasamning við Félag lykilmanna. Dagvinnutími m.v. fullt starf er sá sami skv. kjarasamningnum og dagvinnutími skrifstofufólks VR. Vinnutími ræðst af samkomulagi og eðli starfs. Ákvæði kjarasamningsins um vinnutíma raska ekki samningum atvinnurekanda og starfsmanns sem í gildi eru um full vinnuskil og skipulag vinnutíma.

Háskólamenn: Samtök atvinnulífsins hafa gert kjarasamning við aðildarfélög BHM og stéttarfélög verk-, tækni-, tölvunar- og byggingafræðinga. Samkomulag hefur verið gert um breytingu á vinnutíma skv. kjarasamningnum. Með breytingunni voru vinnutímaákvæði kjarasamningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði.

Hver er vinnutímastytting verkafólks og iðnaðarmanna?

Verkafólk: Heimilt er að semja um styttingu vinnutíma á hverjum vinnustað samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvelli ákvæða 5. kafla kjarasamninga um fyrirtækjaþátt. Atvinnurekandinn á að fá bætta nýtingu vinnutíma og aukna framleiðni á móti vinnutímastyttingu.

Iðnaðarmenn: Heimilt er að semja um styttingu vinnutíma á hverjum vinnustað samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvelli ákvæða 5. kafla kjarasamninga um fyrirtækjaþátt. Atvinnurekandinn á að fá bætta nýtingu vinnutíma og aukna framleiðni á móti vinnutímastyttingu.

Einhliða réttur starfsmanna, að lokinni atkvæðagreiðslu, að stytta vinnutíma 1. janúar 2022 þar sem ekki hafa verið gerðir 5. kafla samningar, án breytinga á neysluhléum.

Sjá einnig sérstaka umfjöllun um upptöku virks vinnutíma og yfirvinnu 1 og 2 hjá iðnaðarmönnum 1. apríl 2020.

Hver er vinnutímastytting verkafólks?

Verkafólk: Heimilt er að semja um styttingu vinnutíma á hverjum vinnustað samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvelli ákvæða 5. kafla kjarasamninga um fyrirtækjaþátt líkt og hjá iðnaðarmönnum. Atvinnurekandinn á að fá bætta nýtingu vinnutíma og aukna framleiðni á móti vinnutímastyttingu.

Verkafólk sem fær ekki styttingu með þessum hætti á ekki einhliða rétt líkt og iðnaðarmenn að kjósa um vinnutímastyttingu á grundvelli staðlaðs, valkvæðs fyrirtækjaþáttar sem tekur gildi frá 1. janúar 2022.

Í þeim tilvikum sem iðnaðarmenn starfa við hlið verkafólks getur vinnuveitandi þurft að meta hvort skoða þurfi vinnutíma verkamanna með hliðsjón af breytingum iðnaðarmanna.

Hvað ef starfsmaður er í VR/LÍV en ekki í afgreiðslu- eða skrifstofustarfi?

Dæmi eru um að starfsmenn eigi aðild að VR/LÍV án þess þó að gegna starfi sem fellur undir kjarasamning VR/LÍV.

Ef vinnuveitandi hefur samið við starfsmann um að kjarasamningur VR/LÍV eigi samt sem áður við um kjör hans og þar með vinnutími, þá þarf að útfæra vinnutímastyttingu.

Ef ekki hefur verið samið um að kjarasamningur VR/LÍV eigi við og ljóst að annar kjarasamningur nær til starfsins þá á vinnutímastyttingin ekki við.

Hvað ef starfsmaður er ekki í VR/LÍV en vinnur við afgreiðslu- eða skrifstofustarf?

Kjarasamningur SA við VR/LÍV er lágmarkskjarasamningur vegna afgreiðslu- og skrifstofustarfa. Það þýðir að samningurinn nær til starfsmanna í þessum störfum óháð því hvort þeir eru félagar í stéttarfélagi eða ekki.

Ef starfsmaður er félagsbundinn í öðru stéttarfélagi en sinnir hins vegar afgreiðslu- eða skrifstofustörfum þá getur vinnutímastytting átt við, sjá hér að ofan.

Við erum með sveigjanlegan vinnutíma. Á vinnutímastytting við?

Þegar starfsmenn eru með sveigjanlegan vinnutíma þá hefur vinnutímastytting minni þýðingu en ella. Starfsmaður getur t.d. mætt til vinnu á tímabilinu 8 – 9, hann getur tekið lengra hádegishlé ef sinna þarf einkaerindum eða tekið styttra hlé yfir daginn til að fara fyrr heim. Vinnutímastytting um 9 mín. á dag hefur því takmarkaða þýðingu. Þar sem starfsmaður á ekki kröfu um uppsöfnun vinnutímastyttingar þá þarf að skoða hvort og þá með hvaða hætti vinnutímastytting kemur til framkvæmda. Helst kemur til álita að formbinda betur réttinn til að „skreppa“, sbr. umfjöllun hér neðar.

Fær allt skrifstofufólk vinnutímastyttingu?

Skrifstofufólk er ekki einsleitur hópur og mismunandi nálgun getur því verið nauðsynleg.

Ef skrifstofumaður er í starfi með bundna viðveru þá verður ekki hjá því komist að stytta daglegan eða vikulegan vinnutíma. Uppsöfnun vinnutímastyttingar kemur einnig til greina.

Ef skrifstofumaður er með sveigjanlega viðveru, þ.e. getur t.d. sinnt einkaerindum á vinnutíma innan skynsamlegra marka, þá getur vinnutímastytting verið á því formi að þessi sveigjanleiki verði formfestur og verði hluti vinnutímastyttingar. Sjá dæmi í samningsformum.

Skrifstofufólk með háskólamenntun á oft á tíðum aðild að stéttarfélögum háskólafólks og ráðningarsamningar gerðir á grundvelli kjarasamninga SA við félög háskólamanna. Samkomulag var gert um breytingu á vinnutíma þessa hóps þar sem vinnutímaákvæði kjarasamningsins voru aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamnings skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði.

Ef skrifstofumaður er á tímakaupi og ráðinn til að vinna á tilteknu tímabili dagsins kemur ekki til vinnutímastyttingar. Tímakaup hækkar hins vegar vegna lækkunar á deilitölu dagvinnutímakaups auk þess sem yfirvinna hefst fyrr ef starfsmaður vinnur umfram fulla vinnuskyldu.

Fær allt afgreiðslufólk vinnutímastyttingu?

Dagvinna afgreiðslufólks skv. kjarasamningi styttist 1. janúar 2020. Full vinna miðast þá við 38 klst. og 45 mín. á viku í stað 39 klst. og 30. mín. Full vinna í hverjum mánuði miðast við 167,94 klst. í stað 171,15 klst. áður.

Ef afgreiðslumaður er á tímakaupi og ráðinn til að vinna á tilteknu tímabili dagsins kemur ekki til vinnutímastyttingar. Tímakaup hækkar hins vegar vegna lækkunar á deilitölu dagvinnutímakaups auk þess sem yfirvinna hefst fyrr ef starfsmaður vinnur umfram fulla vinnuskyldu.

Sjá nánar ppt. kynningu hér ofar á síðunni.

Hvað ef vinnutími er þegar styttri en skv. kjarasamningi?

Samið var um styttingu á vinnutíma m.v. fullt starf skv. kjarasamningi. Ef starfsmaður er þegar að skila færri tímum m.v. umsamið starfshlutfall en kjarasamningur kveður á um þá kemur ekki til frekari vinnutímastyttingar.

Hvað með sérfræðinga og stjórnendur?

Sérfræðingar og stjórnendur hafa alla jafna töluvert svigrúm til að skipuleggja vinnutíma sinn og eru fyrst og fremst ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum. Vinnutímastytting um 9 mín. á dag hefur því enga þýðingu. Þar sem starfsmaður á ekki kröfu um uppsöfnun vinnutímastyttingar þá kemur vinnutímastytting alla jafna ekki til framkvæmda hjá þessum aðilum.

Hverjir taka þátt í viðræðum f.h. starfsmanna?

Samkvæmt kjarasamningi skal vinnuveitandi hafa samráð við starfsmenn um útfærslu vinnutímastyttingar og er stefnt að því að samkomulag náist fyrir 1. des. 2019. Eðlilegt er að leita fyrst til trúnaðarmanns. Ef mismunandi hópar eru á vinnustað þar sem beita þarf mismunandi nálgun getur þurft að leita eftir tilnefningum frá hlutaðeigandi hópum.

Vinnuveitandi á síðasta orðið um fyrirkomulag styttingar og getur þurft að tilkynna einhliða um útfærslu ef ekki næst samkomulag.

Hvað þýðir „samráð“ við starfsmenn?

Samkvæmt kjarasamningi skal vinnuveitandi hafa „samráð“ við starfsmenn um útfærslu vinnutímastyttingar. Með „samráði“ er átt við að starfsmönnum sé gefinn kostur á að koma með tillögur áður en ákvörðun er tekin. Endanleg ákvörðun er svo vinnuveitandans.

Hvað ef ekki næst samkomulag fyrir 1. des 2019?

Samkvæmt kjarasamningi tekur 9 mín. stytting á dag gildi ef samkomulag næst ekki fyrir 1. desember.

Vinnuveitandi þarf þá að ákveða hvernig hún kemur til framkvæmda, sjá útfærslu um 9 mín. styttingu hér neðar, og tilkynna starfsmönnum um framkvæmd.

Viðræður geta þó haldið áfram í desember ef atvinnurekandi og starfsmenn eru sammála um það.

Atvinnurekandi getur við þetta tímamark tilkynnt einhliða um aðra útfærslu ef 9 mín. stytting á dag hentar ekki starfseminni.

Getur vinnuveitandi ákveðið styttingu einhliða?

Samkvæmt kjarasamningi eiga viðræður að fara fram á vinnustað um fyrirkomulag vinnutímastyttingar. Vinnuveitanda ber að hafa samráð við starfsmenn og markmiðið er að samkomulag náist.

Við upphaf viðræðna er mikilvægt að vinnuveitandi geri starfsmönnum grein fyrir þeim leiðum sem koma til greina út frá eðli starfseminnar og góðri nýtingu vinnutíma. Ramma inn valkostina.

Ef ekki næst viðunandi niðurstaða að mati vinnuveitanda er honum heimilt að tilkynna starfsmönnum um útfærslu vinnutímastyttingar. Tilkynna verður um breytingar með eins mánaðar fyrirvara.

Breyting á deilitölum og vinnuskilum

Frá og með 1. janúar 2020 verður deilitala dagvinnutímakaups:
A. 159,27 klst. hjá skrifstofufólki.
B. 167,94 klst. hjá afgreiðslufólki.

Full vinna á mánuði verður sú sama og deilitalan eftir þessa breytingu eða 159 klst. og 16 mínútur hjá skrifstofufólki og 167 klst. og 56 mínútur hjá afgreiðslufólki.

Vinnutími með kaffitímum verður 36,75 klst. hjá skrifstofufólki en 38,75 klst. hjá afgreiðslufólki. Virkur vinnutími án kaffitíma verður aftur á móti 35,5 klst. hjá skrifstofufólki en 35,83 klst. hjá afgreiðslufólki.

Hvað með starfsmenn í hlutastarfi?

Vinnutímastytting um 9 mín. á dag eða 45 mín. á viku á við um fullt starf skv. kjarasamningi. Starfsmenn í hlutastarfi eiga rétt á hlutfallslegri styttingu.

Hvað með starfsmenn í eftirvinnu?

Eftirvinnukaup breytist ekki 1. janúar 2020 og verður áfram sama hlutfall mánaðarlauna fyrir dagvinnu.

Umsömdum vinnustundum í eftirvinnu fækkar ekki enda tekur vinnutímastytting einungis til fækkunar dagvinnustunda. Starfsmaður þarf þó að vinna færri stundir á mánuði áður en yfirvinna hefst.

Hvaða áhrif hefur vinnutímastytting á yfirvinnu?

Yfirvinnukaup breytist ekki 1. janúar 2020 og verður áfram sama hlutfall mánaðarlauna fyrir dagvinnu.

Verður einhver breyting á kaffitímum?

Matar- og kaffitímar breytast ekkert í tengslum við vinnutímastyttingu VR/LÍV.

Hjá verkafólki og iðnaðarmönnum er gert ráð fyrir að samið sé um vinnutímastyttingu á hverjum vinnustað í tengslum við niðurfellingu kaffitíma. Það á ekki við um VR/LÍV.

Það er hins vegar ekkert sem bannar atvinnurekanda og starfsmönnum að ræða samhliða um fyrirkomulag kaffitíma og hvort bæta megi skipulag vinnudagsins og auka framleiðni.

Hvaða útfærslur eru í boði?

Í kjarasamningi SA og VR/LÍV eru nefnd dæmi um framkvæmd vinnutímastyttingar:

 • Hver dagur styttist um 9 mínútur (m.v. fullt starf)
 • Hver vika styttist um 45 mínútur (m.v. fullt starf)
 • Safnað upp innan ársins
 • Vinnutímastytting með öðrum hætti

Hér að neðan er fjallað um hvern og einn möguleika.

9 mín á dag - útfærsla?

Ef ekki tekin ákvörðun um annað þá tekur 9 mín. stytting vinnutíma á dag gildi 1. janúar 2020.

Mögulegar útfærslur sem atvinnurekandi tekur ákvörðun um:

 • Vinnudagur hefst 9 mín. síðar
 • Vinnudegi lýkur 9 mín. fyrr
 • Sumir dagar hefjast síðar og öðrum lýkur fyrr, mismunandi milli starfsmanna.

Starfsmenn á tímakaupi fá jafnan hækkun á tímakaupi í stað vinnutímastyttingar.

45 mín. á viku - útfærsla?

9 mín. vinnutímastytting á dag jafngildir 45 mín. á viku m.v. fullt starf.

Mögulegar útfærslur sem atvinnurekandi tekur ákvörðun um:

 • Einn dagur í viku styttist um 45 mín., t.d. föstudagur.
 • Þrír dagar í viku styttast hver um 15 mín.
 • Önnur útfærsla.

Starfsmenn á tímakaupi fá jafnan hækkun á tímakaupi í stað vinnutímastyttingar.

Mánaðarleg vinnutímastytting - hver er hún?

Í kynningarefni frá VR segir að mánaðarleg vinnutímastytting sé 3 klst. og 15 mínútur. Það er hins vegar ónákvæm framsetning því ekki er tekið tillit til rauðra daga og orlofs. Rauðir dagar og orlofsdagar styttast með sama hætti og aðrir dagar og starfsmaður á ekki rétt á viðbótarstyttingu þótt rauður dagur falli á vinnuvikuna. Um 6 klst. af árlegri vinnutímastyttingu fellur á þessa daga.

Árleg vinnutímastytting, að teknu tillit til orlofs og rauðra daga, er um 34 klst. á ári, sjá næsta lið um uppsöfnun innan ársins. Ef nota á 3 klst. og 15 mín. sem viðmiðun fyrir styttingu innan mánaðar þá er gengið lengra en krafist er ef hún nær til allra mánaða ársins.

Uppsöfnun innan ársins - útfærsla?

Samið var um styttingu vinnuvikunnar en ekki aukið orlof! Því ber að forðast uppsöfnun og úttekt í heilum dögum.

Stytting er 9 mín. á dag m.v. fullt starf. Það þýðir að hægt er að safna upp, með samkomulagi, 9 mín. x vinnudagar starfsmanns á ári. Einungis unnir dagar eru taldir þegar uppsöfnun er með þessum hætti.

Starfsmaður sem er einungis frá vinnu sem nemur lágmarksorlofi (24 dögum) og rauðum dögum (11 dögum að jafnaði) starfar í 225 daga á ári. Stytting vinnutíma er þá 225 x 9 mín. = 2.025 mín. á ári eða 33,75 klst. á ári.

Fjarvistir starfsmanns, s.s. launalaust leyfi eða veikindafjarvistir, skerða þessa styttingu. Sjá nánar hér neðar um veikindi á styttri vinnudögum.

Blönduð leið?

Kjarasamningurinn opnar á vinnutímastyttingu með öðrum hætti. Útfæra má 9 mínútna styttingu á dag, 45 mínútna styttingu á viku eða uppsöfnun innan ársins með þeim hætti sem helst hentar starfseminni.

Blönduð leið er því fær, t.d.:
A. Styttri dagleg viðvera og lengri matarhlé.
B. Samspil vikulegrar styttingar og uppsöfnun í hálfa/heila frídaga.
C. Samspil vikulegrar styttingar og skilgreinds „persónulegs tíma“ starfsmanns. Sjá nánar í næsta lið.

Er rétt að formbinda „skreppið“ sem lið í vinnutímastyttingu?

Verið er að stytta vinnutíma samkvæmt kjarasamningum. Á mörgum vinnustöðum hefur viðgengist að starfsmenn fái að skreppa til að sinna persónulegum erindum á vinnutíma. Þar sem starfsmenn halda launum í þessum tilvikum er vinnutími starfsmanns styttri sem því nemur. Starfsmenn eiga því ekki rétt á viðbótarstyttingu í þessum tilvikum.

Hér getur komið til greina að formbinda skreppið sem lið í vinnutímastyttingu. „Skrepp“ ákvæði gæti t.d. falið í sér að starfsmanni væri heimilt í samráði við yfirmanna að ráðstafa 45 mín. á viku til að sinna persónulegum erindum. Heimild gæti verið fyrir starfsmann að ljúka vinnu á föstudögum 45 mínútum fyrr en ella hefði skrepp ekki verið tekið. Sjá nánar um tillögu í samningsformum hér að ofan.

Ónýtt vinnutímastytting - fyrning?

Vinnuveitandi skipuleggur framkvæmd vinnutímastyttingar og ber ábyrgð á að starfsmaður eigi þess kost að nýta sér þá vinnutímastyttingu sem reglur segja til um.

Þar sem sveigjanleiki er fyrir hendi um úttekt vinnutímastyttingar ber starfsmaðurinn hins vegar einnig ábyrgð. Hann getur ekki einhliða ákveðið að færa vinnutímastyttingu milli tímabila og því kann svo að fara að ótekin vinnutímastytting falli niður.

Almenn er mikilvægt að hafa viðmið um það hvenær vinnutímastytting, komi hún til uppsöfnunar, verði tekin út í síðasta lagi.

Ef vinnutímastytting er vikuleg, t.d. í formi sveigjanleika innan vikunnar, þá er eðlilegt að kveða svo á um að starfsmaður skuli taka út vinnutímastyttingu eigi síðar en á föstudegi í sömu viku. Fyrirtæki getur eðlilega sett reglur um frávik frá þessu, t.d. að yfirmaður geti samþykkt ósk starfsmanns um að færa ótekna vinnutímastyttingu yfir til næstu viku. Gott getur verið að hafa hámark á uppsöfnun í þessum tilvikum, t.d. 90 mín. m.v fullt starf.

Ef vinnutímastytting er mánaðarleg (eða innan launatímabils) þá er mikilvægt að haldið sé vel utan um framkvæmd. Svo ekki komi til greiðslu yfirvinnu verður að ganga út frá því að vinnutímastytting hafi verið tekin innan tímabilsins. Úttekt sé á ábyrgð starfsmanns og ótekin vinnutímastytting falli niður í lok mánaðar (eða launatímabils). Vissulega þurfa þá aðstæður að vera með þeim hætti að starfsmanni gefist kostur á að nýta sér umsamda vinnutímastyttingu.

Árleg vinnutímauppsöfnun kemur einnig til álita. Launakerfið safnar þá upp mínútum sem starfsmaður getur nýtt sér, innan þeirra reglna sem fyrirtækið hefur sett um úttekt. Til að koma í veg fyrir óhóflega uppsöfnun (muna að SA sömdu um styttingu vinnuvikunnar en ekki fjölgun orlofsdaga) þá er rétt að setja reglur um lágmarksúttekt innan tiltekins tímabils, t.d. ársfjórðungs. Úttekt sé á ábyrgð starfsmanns og ónýtt úttekt falli niður, sbr, þó fyrirvarann hér að ofan.

Hvað ef starfsmaður er veikur á styttri vinnudegi?

Almennt er ekki ástæða til að bregðast við þótt starfsmaður sé veikur á degi sem hefur verið styttur á grundvelli vinnutímastyttingar. Yfir árið ætti hann að vera jafnsettur.

Ef hver vinnudagur er styttur um 9 mín. segir sig sjálft að starfsmaður fær enga uppbót vegna „tapaðrar vinnutímastyttingar“. Veikindadagur hans er styttri eins og aðrir dagar vikunnar.

Ef einn dagur vikunnar hefur verið styttur um 45 mín. þá segir sig einnig sjálft að starfsmaður sem er veikur alla vikuna fær tapaða vinnutímastyttingu ekki bætta. Ef hann er hins vegar einungis veikur þann dag sem er styttri þá er líklegt að fram komi ósk um að fá tapaða vinnutímastyttingu bætta. Þótt það hljómi sanngjarnt þá þarf að hafa í huga að veikindafjarvistir skerða uppsafnaða vinnutímastyttingu. Af þeim sökum er ekki ástæða til að bregðast sérstaklega við þótt starfsmaður sé veikur daginn sem vikuleg vinnutímastytting kemur til framkvæmda.

Annað gildir ef um frekari uppsöfnun er að ræða og vinnutímastytting er tekin út í heilum og hálfum dögum. Þá getur verið ósanngjarnt að starfsmaður tapi uppsafnaði vinnutímastyttingu verði hann veikur daginn sem frí hefur verið ráðgert.