Vinnumarkaðsvefur

Vinna barna og unglinga

Um vinnu barna og unglinga („ungmenni“) er fjallað um í X. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Nánar er fjallað um vinnu barna og unglinga í reglugerð nr. 426/1999 .

Ákvæðin eiga við vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Ólíkar reglur gilda um vinnu barna og unglinga.

Hvaða ungmenni eru börn og hver unglingar?
Með barni átt við einstakling sem er undir 15 ára aldri eða einstakling sem er í skyldunámi. Ungmenni telst því vera barn sem lengi sem það er í skyldunámi.

Með unglingi er átt við einstakling sem hefur náð 15 ára aldri en er undir 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.

Takmarkanir á vinnu ungmenna gilda ekki í tilviki heimilisaðstoðar á einkaheimili vinnuveitanda eða vinnu í fjölskyldufyrirtæki enda sé vinnan tilfallandi eða vari í skamman tíma og ekki skaðleg eða hættuleg ungmennum.

Ráðningarsamningar ólögráða einstaklinga eru ekki bindandi fyrir þá nema samþykki lögráðamanns sé fyrir hendi, sjá nánar um gerð ráðningarsamninga .

Vinna ungmenna undir 18 ára aldri

Vinnuveitandi skal við öll störf ungmenna undir 18 ára aldri við val og skipulagningu á vinnu leggja áherslu á að öryggi, andlegt og líkamlegt heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin og að vinna hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska.

Í áhættumati skal sérstaklega tekið tillit til öryggis, líkamlegrar og andlegrar heilsu og þroska ungmenna. Sýni áhættumatið fram á að einhverju þessara atriða geti verið stofnað í hættu skal vinnuveitandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmenna þeim að kostnaðarlausu.

Vinnuveitanda ber að tryggja að ungmenni fái fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar þannig að tryggt sé að vinnan sé ekki hættuleg öryggi eða heilsu þeirra.

Öll vinna sem framkvæmd er af ungmennum skal fara fram undir viðeigandi eftirliti af einstaklingi sem orðinn er 18 ára og hefur nægilega innsýn í eðli vinnunnar.

Sú skylda hvílir á vinnuveitanda að kynna foreldrum barna eða forráðamönnum hugsanlega áhættu og allar ráðstafanir sem eru gerðar til að tryggja öryggi þeirra og heilbrigði.

Vinnuveitandi skal kynna starfsmönnum sínum, sem starfa með ungmennum, og þeim, sem annast öryggismál fyrirtækisins, þær kröfur sem gerðar eru til vinnu ungmenna og tryggja að þeim sé fylgt og að tekið sé tillit til þeirra við framkvæmd, skipulagningu og eftirlit með vinnu ungmenna.

Vinna sem er óheimil ungmennum undir 18 ára aldri

Óheimilt er að ráða ungmenni til starfa þar sem:

a) unnið er með hættuleg tæki og verkefni.
Sjá nánar viðauka 1 A - 1 C með reglugerð nr. 426/1999 .

b) unnið er með hættuleg efni.
Sjá nánar viðauka 2 með reglugerð nr. 426/1999 .

c) handleiknar eru þungar byrðar sem til lengri eða skemmri tíma litið geta skaðað heilbrigði þeirra og þroska.
Sjá nánar viðauka 3 með reglugerð nr. 426/1999 .

d) líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin nema þau starfi með fullorðnum.

Undanþága er veitt í tilviki starfa ungmenna 15 ára og eldri sem eru nauðsynlegur hluti af iðn- eða starfsnámi á grundvelli laga. Í þeim tilvikum skal vinnan fara fram undir eftirliti hæfs einstaklings og skal kosta kapps um að vernda nemendur gegn slysahættu og gæta ýtrasta öryggis við framkvæmd vinnu og kennslutilhögunar.

Vinnutími unglinga

Daglegur vinnutími
Daglegur vinnutími ungmenna má ekki fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku. Neysluhlé og sérstakir frídagar teljast ekki til vinnutíma.

Þegar brýn nauðsyn ber til vegna eðlis starfseminnar, svo sem ef bjarga þarf verðmætum í landbúnaði eða fiskvinnslu má vinnutími unglinga fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku enda sé gætt ákvæða um vinnutíma, hvíldartíma og frítíma. Unglingar mega þó aldrei vinna lengur en 60 stundir á viku og 48 stundir að viku að meðaltali yfir 4 mánuði.

Ef vinna unglinga er liður í verklegu eða fræðilegu námi telst sá tími, sem fer til kennslu, til daglegs og vikulegs vinnutíma. Ef unglingur vinnur fyrir fleiri en einn vinnuveitanda skal leggja vinnutímann saman.

Hlé frá vinnu
Vinni unglingur lengur en 4 klst. í dagvinnu á hann rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.

Kvöld- og næturvinna
Meginreglan er sú að unglingum sé óheimilt að vinna frá kl. 22 til kl. 6 nema í tilteknum störfum. Unglingar mega þó aldrei vinna milli kl. 24 og kl. 4.

Frávik:
Í bakaríi má vinna frá kl. 4.

Í söluturnum og söluskálum, á skyndibitastöðum, myndbandaleigum, bensínstöðvum og sambærilegum stöðum mega unglingar vinna til kl. 24 að kvöldi.

Í kvikmyndahúsum, leikhúsum og við sambærilega starfsemi mega unglingar aðstoða við sýningar til kl. 24.

Á veitingastöðum, hótelum og við svipaða starfsemi mega unglingar vinna til kl. 24.

Heilbrigðisskoðun vegna næturvinnu:
Þeir unglingar sem vinna milli kl. 22 til kl. 6 eiga rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu áður en þeir hefja næturvinnu og síðan með reglulegu milli eftir það, nema þeir vinni næturvinnu einungis í undantekningartilvikum.

Hvíldartími
Unglingar skulu fá minnst 12 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Undantekning frá þessu gildir í þeim tilvikum sem um er að ræða störf unglinga við landbúnað, ferðamál eða við hótel- og veitingarekstur, sem er skipt upp yfir daginn enda fái unglingarnir samsvarandi uppbótarhvíld. Hið sama gildir um vinnu unglinga sem varir í stuttan tíma hverju sinni. Samfelld hvíld skal aldrei fara niður fyrir 10 klst. á sólarhring í þessum tilvikum.

Unglingar skulu fá minnst tveggja daga hvíld á viku hverri sem skal vera samfelld ef kostur er. Undantekning er veitt ef tæknilegar eða skipulagslegar ástæður eru fyrir hendi en í þeim tilvikum má stytta hvíld í allt að 36 samfelldar stundir.

Óviðráðanleg ytri atvik (force majeure)
Í óviðráðanlegum tilvikum (force majeure) við óhöpp eða bilanir í vélum eða aðrar aðstæður, sem vinnuveitandi fær ekki ráðið við, er heimilt að víkja frá reglum um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga enda sé um að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið og ekki sé unnt að fá fullorðna til starfans

Ráðning og vinnutími 13 - 15 ára barna eða þeirra sem eru í skyldunámi

Ráðning
Börn sem eru á aldrinum 13-14 ára eða sem eru í skyldunámi mega aðeins vinna við störf af léttara tagi enda séu vinnuaðstæður barnanna eins og best verður á kosið, m.a. með tilliti til líkamsbeitingar og að börn séu ekki í nálægð við vélar eða hættuleg efni.

Með störfum af léttara tagi er átt við:
(i) létta fóðrun, hirðingu og gæslu dýra,
(ii) létta garðavinnu,
(iii) vinnu í skólagörðum undir umsjón kennara,
(iv) létt uppskerustörf án véla,
(v) hreinsa, sópa og tína rusl,
(vi) létt fiskvinnslustörf,
(vii) létt störf í sérverslunum og stórmörkuðum,
(viii) móttaka á léttum vörum, pökkun, flokkun og röðun ásamt léttri handavinnu,
(ix) minni háttar hreingerningar og leggja á borð ásamt flokkun og merking þvottar,
(x) létt handavinna við samsetningu,
(xi) málningarvinna og fúavörn,
(xii) létt sendisveinastörf,
(xiii) létt skrifstofustörf.

Vinnueftirlit ríkisins getur veitt leyfi fyrir vinnu barna við störf af léttara tagi.

Vinnuveitandi skal við ráðningu, kynna foreldrum eða lögráðamanni ráðningarkjör þar með talið lengd vinnutíma sem og tíðni óhappa og slysa, sem hugsanlega tengjast starfinu, og þær ráðstafanir, sem gerðar eru til að auka öryggi og heilbrigði barna við störf, svo og áhættumat.

Vinnu- og hvíldartími
Börn á aldrinum 13-15 ára og þau sem eru í skyldunámi, mega vinna tvær klst. á skóladegi og 12 klst. á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Vinna sem fram fer á tíma þegar skólinn starfar ekki má vera 7 klst. á dag og 35 klst. á viku. Börn eiga rétt á að fá leyfi árlega einhvern tíma á meðan á skólafríi stendur.

Börnum er óheimilt að vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6.

Börn skulu fá minnst 14 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring nema þegar um er að ræða vinnu barna sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni, enda komi til samsvarandi uppbótarhvíld. Í síðarnefnda tilvikinu skal samfelld hvíld þó aldrei fara niður fyrir 11. klst. á sólarhring.

Börn eiga rétt á a.m.k. tveggja daga hvíld á hverju sjö daga tímabili sem skal vera samfelld ef kostur er. Undantekning er gerð í tilviki vinnu barna sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni en í þeim tilvikum skal þó að lágmarki veita einn vikulegan frídag.

Dæmi úr réttarframkvæmd

Dómur Hæstaréttar 1. desember 2011 (125/2011).

15 ára drengur sem slasaðist við uppskipun á járni í vinnu sinni höfðaði skaðabótamál gegn vinnuveitanda sínum og byggði á því að vinnuveitandinn hefði brotið gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga og viðauka með henni. Drengurinn hafði takmarkaða reynslu af starfi sem þessu sem var ekki hættulaust. Þá lá fyrir að hann stóð við vinnu sína á járnbúntum í snjókomu og myrkri þegar hann tók á móti og stýrði þungu járni sem slakað var niður.

Það var mat Hæstaréttar að umrætt starf félli ekki undir þau störf sem börnum væri heimilt að vinna skv. 3. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 426/1999. Þá hafði Vinnueftirlit ríkisins ekki veitt leyfi fyrir vinnu barna við þessi störf. Vinnuveitandanum var því óheimilt að fela drengnum starfið og skipti ekki máli þótt honum og forráðamönnum hans hefði verið kunnugt um hvers konar starfsemi fór fram hjá vinnuveitandanum. Í ljósi framangreinds var skaðabótaábyrgð felld á vinnuveitandann.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. mars 2006 (S-349/2006).

Vinnuveitandi var ákærður í refsimáli fyrir að hafa brotið lög og reglur um öryggi á vinnustöðum, með því að hafa, við nýbyggingu, sem framkvæmdastjóri, eigi haft til staðar fullnægjandi vinnupalla og án fallvarna og fyrir að hafa brotið lög og reglur um vinnu barna og unglinga með því að hafa 16 ára dreng í starfi, þar sem slysahætta var fyrir hendi. Vinnuveitandinn var sakfelldur í málinu og við refsimat var vísað til þess að unglingnum hefði verið mikil hætta búin með því að starfa í um 4ra metra hæð frá jörðu á fjölum milli glugga án nokkurra fallvarna en það fól í sér brot á 4. gr. reglugerðar nr. 426/1999. Dómi þessum var ekki áfrýjað.