Vinnumarkaðsvefur

Aksturs- og hvíldartími ökumanna

Sérstakar reglur gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sem aka vöru- og farþegabifreiðum skv. reglugerð nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit.

Um aðra starfshópa gilda almennt ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og kjarasamninga. Sjá nánar um hvíldartíma.

Síðast uppfært: Október 2021

Gildissvið reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna

Reglugerð nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna gildir almennt um alla vöru- og farþegaflutninga í ökutækjum með leyfðri heildarþyngd yfir 3,5. tonn (með eða án farms), um vegi, sem opnir eru fyrir almennri umferð á Íslandi og innan EES-svæðisins.

Nokkrar tegundir flutninga/flutningastarfsemi falla þó utan reglugerðarinnar, þótt heildarþyngd ökutækis með farmi fari yfir framangreind þyngdarmörk. Utan gildissviðs reglugerðarinnar falla t.d. ökutæki sem notuð eru til reglubundinna farþegaflutninga og aka ekki lengri en 50 km ökuleið (strætisvagnar), ökutæki sem safna mjólk frá bóndabýlum (mjólkurbílar), sorphreinsunarbílar, póstflutningabílar o.fl. Sjá nánari upptalningu í 3. og 20. gr. reglugerðarinnar.

Með dómi Héraðsdóms Austurlands í sakamálinu S-101/2002 var bifreiðastjóri vöruflutningabíls frá Flytjanda hf., sem ók eingöngu pósti frá Reykjavík til Egilsstaða skv. verksamningi við Íslandspóst hf. sýknaður af ákæru um brot á reglugerð um hvíldartíma ökumanna á þeim forsendum að hún tæki ekki til póstflutninga. Um póstflutninga gilda á hinn bóginn almennar hvíldartímareglur laga nr. 46/1980 og kjarasamninga.

Lengd aksturstíma

Með aksturstíma er átt við þann tíma sem akstur er skráður sjálfvirkt, hálfsjálfvirkt og handvirkt.

Akstursdagur má ekki vera lengri en 9 klst. á dag. Tvisvar í viku má þó lengja akstursdag í 10 klst.

Aksturstími í hverri viku má ekki vera lengri en 56 klst. og ekki yfir 90 klst. á tveimur vikum.

Vinnuvika telst tímabilið frá kl. 00:00 á mánudegi til klukkan 24:00 á sunnudegi.

Hlé frá akstri

Leyfilegur hámarksaksturstími án hlés er 4,5 klst. Eftir 4,5 klst. skal veita 45 mín. hvíld nema hvíldartími sé að hefjast.

45 mínútna hléinu má skipta og gera hlé á akstri í a.m.k. 15 mín. og síðan hlé sem er a.m.k. 30 mín. þannig að heildarhlé frá akstri verði a.m.k. 45 mín.

Hlé frá akstri teljast ekki til hvíldartíma.

Daglegur hvíldartími

Á hverjum sólarhring skal veita a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld (reglubundinn daglegur hvíldartími).

Heimilt er að stytta hvíld í a.m.k. 9 klst. (styttur daglegur hvíldartími). Ökumaður má þó ekki taka styttan reglubundinn daglegan hvíldartíma, 9. klst. oftar en þrisvar á milli tveggja vikulegra hvíldartíma.

Vikulegur hvíldartími

Eftir sex akstursdaga skal taka vikulegan hvíldartíma.

Frávik frá vikulega hvíldardeginum er heimilt í farþegaflutningum innanlands og milli landa, ef ekki er um reglubundna flutninga að ræða (þ.e. í hópferðum innanlands). Mega akstursdagar þá vera tólf samfellt og ökumaður fær í kjölfarið samfelldan hvíldartíma í 90 klst.

45 klst. en heimilt að stytta hvíld í 24 klst.
Vikulegur hvíldartími er 45 klst. Ef ökumaður er fjarri heimili er heimilt að stytta hvíld í 24 klst. Slíka styttingu skal bæta upp með samfelldri jafn langri hvíld innan þriggja vikna frá lokum þeirrar viku þegar hvíldartíminn var styttur.

Undanþága frá hvíldartímareglum vegna sérstakra aðstæðna

Mikilvæga undaþágu er að finna í 19. gr. reglugerðar nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. svo að ökumenn nái hentugum áfangastað til að tryggja öryggi.

Greinin er svo hljóðandi: „Ökumanni er heimilt að víkja frá ákvæðum 6.–10. gr. (um aksturstíma, hlé frá akstri og daglegan hvíldartíma, viðbót höf.) að því tilskildu að umferðaröryggi sé ekki teflt í tvísýnu, þurfi hann að ná hentugum áfangastað enda sé það nauðsynlegt til að tryggja öryggi fólks, eða til þess að koma í veg fyrir tjón á bifreið eða farmi. Ökumaðurinn skal tilgreina ástæðu slíkra frávika handvirkt á ökuritaskífu skráningarbúnaðarins eða á útprentun skráningarbúnaðarins eða í vaktaskrá, í síðasta lagi við komu á áningarstað.“

Ökumanns að meta og skrá
Ökumaður hlýtur að meta hvað sé hentugur áfangastaður til að tryggja öryggi sitt, eða farþega eða farms hverju sinn t.d. í vetrarakstri á löngum leiðum innanlands.

Á ökumanni hvílir sú skylda að skrá strax við lok aksturs á ökuritaskífu eða á útprentun á ökuritaskýrslu rafræns ökurita eða í vaktaskrá að hann hafi þurft að víkja frá hvíldartímareglum til að tryggja öryggi. Þar þarf hann að tilgreina ástæður þess, t.d. að veður og færð hafi t.d. tafið og lengt aksturstíma á hentugan áfangastað.

Hafi ekkert verið skráð strax við lok aksturs er næsta víst að ekkert tillit verði tekið til skýringa ökumanns síðar.

Ökumaður / flytjandi verður að varðveita skífur, ökuritaskýrslur, starfsskýrslur eða vaktaskrár í tímaröð og á læsilegan hátt í a.m.k. ár.