Útkall

Með útkalli er átt við óvænta röskun á frítíma starfsmanns þegar hann er kallaður til vinnu eftir að venjubundnum vinnudegi er lokið. Réttur til greiðslu vegna útkalls tekur mið af því óhagræði sem felst í því að þurfa að yfirgefa heimili sitt eftir að dagvinnu lýkur og einskorðast því við þau tilvik þegar starfsmaður, sem er kvaddur til vinnu, þarf að mæta á tiltekinn vinnustað, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 1/2022 .

Ef starfsmaður er beðinn um að sinna símaaðstoð við viðskiptamenn utan vinnutíma eða fjarlausnum þá telst sú vinna ekki vera útkall, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 6/2003 . Samið er þá sérstaklega um greiðslur fyrir það vinnuframlag.

Það telst ekki útkall þegar yfirvinna er boðuð með fyrirvara. Þá er hún hvorki óvænt né ófyrirséð. Því síður telst það vera útkall þegar listi er hengdur upp og starfsmönnum boðið að skrá sig til yfirvinnu. Í því tilviki er ekki um kvaðningu til vinnu að ræða.

Beiðni um að sinna öðru verki innan útkallstíma
Ef starfsmaður hefur verið kallaður út og er beðinn um að vinna annað verk innan útkallstímans þá telst ekki um nýtt útkall að ræða. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaðurinn er á þeirri stundu staddur á vinnustaðnum eða utan hans, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 5/2003 , en í því máli vísaði Félagdómur til þess að ekki skuli skv. kjarasamningum greiða fyrir óunninn tíma nema skýr og ótvíræð ákvæði kjarasamnings kveði á um slíkt.

Greiðsla fyrir útkall
Greiðslur fyrir útköll eru ekki samræmdar milli kjarasamninga. Hjá verkafólki og verslunarmönnum er útkall að lágmarki 4 klst. nema dagvinna hefjist innan tveggja klst. frá því starfsmaður kom til vinnu. Ávallt greiðast 4 klst. að lágmarki skv. veitingasamningi SGS / Eflingar . Í samningum Samiðnar , RSÍ og VM er greidd ein klst. umfram unninn tíma, þó að lágmarki 3 klst. nema dagvinna hefjist innan þriggja klst. frá því starfsmaður kom til vinnu. Í þeim samningum gilda sérreglur um útköll að nóttu og um helgar.

Sérákvæði geta gilt um útköll á bakvöktum.

Sjá nánar gildandi kjarasamninga:

Gr. 1.8. í kjarasamningi SGS / Eflingar
Gr. 1.8. í kjarasamningi VR / LÍV
Gr. 2.3. í kjarasamningi RSÍ
Gr. 1.8. í kjarasamningi Samiðnar
Gr. 1.8. í kjarasamningi VM
Gr. 1.9. í kjarasamningi Matvís
Gr. 1.8. í kjarasamningi Grafíu

Síðast uppfært: Maí 2020