Vinnumarkaðsvefur

Jafnrétti á vinnumarkaði

Jafnræðisreglan er grundvallarregla í íslenskum rétti, vernduð af 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu .

Jafnræðisreglan á að tryggja að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Kveðið er á um jafnrétti á vinnumarkaði í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (Jafnréttislög) en markmið þeirra laga er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns, koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. þ.m.t. á vinnumarkaði. Með lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði var lögfest meginreglan um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Jafnræðisreglan er nátengd grundvallarreglunni um bann við mismunun en skv. jafnréttislögum og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði er hvers kyns mismunun sem er vegna kyns eða einhverra þeirra þátta sem um er getið í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, óheimil.

Hér verður fjallað um jafnræðisregluna og bann við mismunun í tengslum við jafnrétti kynjanna og jafna meðferð á vinnumarkaði.