Slys

Starfamaður á rétt til launa í fjarvistum sem rekja má til slyss.

Orsakir slyss geta þó verið þess eðlis að starfsmaður hafi glatað rétti vegna gáleysis eða vinnuveitandi eigi bótakröfu á þann sem valdur er að tjóni. Nánar er fjallað um þau atvik í köflum um brottfall veikindaréttar og endurkröfurétt .

Hvað er "slys"?

Með hugtakinu slys er átt við óvæntan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama. Með slysi er því almennt átt við áverka sem starfsmaður verður fyrir vegna óhappa eða gáleysisverka annarra manna.

Þarf að greina á milli slyss og annarra atvika sem eru ekki óvænt og utanaðkomandi
Gerður er greinarmunur á slysum og öðrum atvikum sem ekki verða talin „óvænt“ eða „utanaðkomandi“. Ef áverka má rekja til sjúkdóms eða innra ástands í líkama starfsmanns telst sá áverki ekki af völdum „slyss“, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 389/1995 og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 466/2013 .

Ef bakveikur starfsmaður lyftir t.d. þungum kassa og verður í kjölfarið óvinnufær vegna verkja þá telst sá atburður ekki „slys“. Sérreglur um slys eiga þá ekki við en starfsmaður gæti hins vegar átt veikindarétt skv. almennum reglum.

Rétt að tilkynna í undantekningartilvikum en gera fyrirvara
Þótt vinnuveitandi meti ekki áverka starfsmanns sem slys við vinnu þá kann að vera skynsamlegt að tilkynna um atburðinn til Vinnueftirlits ríkisins. Er þá rétt að taka fram í athugasemd að vinnuveitandi telji að ekki hafi verið um slys að ræða. Með tilkynningu til Vinnueftirlitsins getur vinnuveitandi tryggt sér sönnun þess að áverki starfsmanns verði ekki rakinn til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna. Sjá nánar um tilkynningu vinnuslysa.

Slys í frítíma starfsmanns

Starfsmaður á rétt til launa í slysaforföllum þótt slysið hafi átt sér stað í frítíma hans, að fullnægðum skilyrðum um starfstíma hjá vinnuveitanda og að ekki sé um að ræða eigin sök starfsmanns.

Slys í annarri vinnu eða við eigin atvinnurekstur
Starfsmaður missir ekki veikindarétt sinn gagnvart aðalvinnuveitanda þótt hann slasist hjá aukavinnuveitanda sínum eða við eigin atvinnurekstur, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 209/1982 (1984, bls. 1057). Er þá um að ræða vinnuslys hjá aukavinnuveitanda en frítímaslys hjá aðalvinnuveitanda.

Slys við íþróttaiðkun
Starfsmaður sem slasast við venjulega íþrótta- og tómstundaiðkun, t.d. á knattspyrnuæfingu eða við hestamennsku á almennt rétt til slysalauna.

Jafnvel þó starfsmaður slasist við þátttöku í áhættusömum íþróttum eða tómstundum geta þau slys verið greiðsluskyld ef orsök slyssins er ekki sök starfmannsins eða sérstök áhættutaka.

Vinnuslys

Hvað er vinnuslys?
Vinnuslys teljast þau óhöpp sem verða við framkvæmd vinnu.

Slys verður að gerast við framkvæmd vinnu. Slys telst ekki vinnuslys, ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna eða framkvæmd hennar.

Meiðsli starfsmanna sem hljótast af áflogum á vinnustað eða gáska teljast ekki vinnuslys, sbr. dóm Hæstaréttar nr 74/1961 (1962, bls. 74).

Slys telst ekki vinnuslys vegna þess eins að það verði á athafnasvæði fyrirtækis. Slys í frítíma starfsfólks, þótt þau eigi sér stað innan veggja fyrirtækisins t.d. í matartíma, teljast ekki vinnuslys nema þau séu í tengslum við framkvæmd vinnunnar eða vegna aðstæðna á vinnustað.

Aukinn launaréttur
Stafi forföll af vinnuslysi, ber vinnuveitanda að greiða starfsmanni dagvinnulaun í allt að þrjá mánuði til viðbótar áunnum veikindarétti, sbr. 4. gr. laga nr. 19/1979 og ákvæði kjarasamninga. Vinnuslysaréttur er sjálfstæður réttur og gengur ekki á veikindarétt starfsmanns.

Launaréttur eftir lok ráðningarsambands
Vinnuslys hafa þá sérstöðu að ráðningarslit skerða ekki rétt starfsmanns til launa í fjarvistum og gildir þá engu hvort ráðningarsamningi var sagt upp áður en slysið átti sér stað eða eftir, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 409/1998 og 464/2014 . Svo lengi sem starfsmaður er óvinnufær á hann rétt til launa í samræmi við áunninn veikindarétt.

Það er þó skilyrði fyrir veikindarétti starfsmanns í þessum tilvikum að vinnuslysið eða atvinnusjúkdómurinn leiði til þess að starfsmaður forfallist frá vinnu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. september 2012 ( 130/2012 ). Í þeim dómi var hafnað launakröfu starfsmanns sem fór í nám eftir lok ráðningar. Hann hafði slasast á síðasta degi í starfi sínu en þar sem hann var námsmaður og ekki á vinnumarkaði þá var talið að hann hefði ekki forfallaðist frá vinnu.

Sjúkrakostnaður o.fl.
Þegar slys verður við framkvæmd vinnu ber vinnuveitanda einnig að kosta flutning hins slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og greiða honum síðan skv. reikningum eðlilegan sjúkrakostnað, annan en þann sem almannatryggingar greiða.

Greiðslur þessar skulu inntar af hendi meðan hinn slasaði nýtur launa frá vinnuveitanda og samhliða launagreiðslum, enda hafi reikningar borist í tæka tíð.

Vinnuveitandi á endurkröfu á Sjúkratryggingar Íslands í þeim tilfellum sem hann leggur út fyrir sjúkrakostnaði sem greiddur er af almannatryggingum.

Tilkynning til Vinnueftirlits
Öll vinnuslys sem valda dauða eða fjarvistum frá vinnu lengur en slysadaginn ber að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins . Sjá nánar um tilkynningu vinnuslysa.

Tilkynning til Sjúkatrygginga og endurgreiðsla kostnaðar
Jafnframt þarf að tilkynna vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands . Að því tilskildu að Sjúkratryggingar fallist á að slys sé vinnuslys og að viðkomandi eigi rétt til bóta getur sá slasaði sótt bætur vegna læknishjálpar og annars sjúkrakostnaðar. Einnig eru greiddir dagpeningar frá 8. degi ef óvinnufærni í kjölfar slyssins varir í 10 daga eða meira. Hljótist varanlega örorka af slysinu stofnast réttur til örorkubóta.

Þar sem launþegar njóta skv. kjarasamningum flestir réttar til launa í kjölfar vinnuslysa þá greiðast dagpeningar Sjúkratrygginga Íslands til vinnuveitanda á meðan að sá slasaði er á launum. Vinnuveitandi á einnig endurkröfu á Sjúkratryggingar vegna útlagðs sjúkrakostnaðar vegna slyssins. Um getur verið að ræða flutning hins slasaða, lækniskostnað, lyfjakostnað og kostnað vegna sjúkraþjálfunar og endurhæfingar í kjölfar slyssins.

Slys á beinni leið til eða frá vinnu

Aukinn launaréttur
Starfsmaður nýtur aukins veikindaréttar slasist hann við vinnu. Þessi aukna vernd nær einnig til slysa sem eiga sér stað á beinni leið til eða frá vinnu. Stafi forföll af slysi á beinni leið til eða frá vinnu ber vinnuveitanda að greiða starfsmanni dagvinnulaun í þrjá mánuði til viðbótar áunnum veikindarétti.

Bein leið!
Ef starfsmaður víkur af beinni leið, t.d. kemur við í verslun á leiðinni heim en slasast síðan á leið þaðan til heimilis síns, eiga ákvæði um aukinn veikindarétt ekki við. Hann nýtur hins vegar veikindaréttar í samræmi við áunninn veikindarétt eins og um frítímaslys væri að ræða.

Brottfall réttar eða endurkrafa?
Slys á beinni leið til eða frá vinnu eru oftast umferðarslys. Oft má rekja slík slys til gáleysis ökumanns. Ef sú er raunin gæti starfsmaður glatað rétti til launa í veikindum. Sjá nánar um eigin sök starfsmanns í umfjöllun um brottfall veikindaréttar .

Ef starfsmaður hefur verið í fullum rétti reynir á endurkröfurétt vinnuveitanda á hendur tjónvaldi.