Vinnumarkaður - 

08. Janúar 2003

Ný lög um atvinnuréttindi útlendinga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ný lög um atvinnuréttindi útlendinga

Þann 1. janúar 2003 tóku gildi lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Leystu þau af hólmi lög nr. 133/1994, sem ástæða þótti til að endurskoða vegna breytinga sem höfðu orðið á þessu sviði frá því lögin tóku gildi 21. desember 1994.

Þann 1. janúar 2003 tóku gildi lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Leystu þau af hólmi lög nr. 133/1994, sem ástæða þótti til að endurskoða vegna breytinga sem höfðu orðið á þessu sviði frá því lögin tóku gildi 21. desember 1994.

Lögin taka til útlendinga, sem eru ríkisborgarar í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þó eru vísindamenn, listamenn, íþróttaþjálfarar og ýmsir sérhæfðir starfsmenn undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári.

Tvær stofnanir
Í nágrannalöndunum heyrir veiting dvalar- og atvinnuleyfa undir sömu stofnun en á Íslandi undir tvær stofnanir, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun. Útlendinga-stofnun gefur út dvalarleyfi en Vinnumálastofnun atvinnuleyfi.Vinnumálastofnun er óheimilt að veita útlendingi atvinnuleyfi sem dvelst hér á landi án dvalarleyfis. Útlendingur getur því ekki komið til landsins sem ferðamaður og ráðið sig síðan í vinnu.

Ákvörðun um veitingu atvinnuleyfis ræðst fyrst og fremst af þörfum atvinnulífsins og að því tilskyldu að ekki sé hægt að útvega innanlands þá starfsmenn sem þörf er á.  Tímabundið atvinnuleyfi er  veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa.  Leyfið skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi og er í upphafi ekki veitt til lengri tíma en sex til tólf mánaða.  Útlendingi er óheimilt að starfa hjá öðrum atvinnurekanda en þeim sem fékk atvinnuleyfið fyrir hann.  Ekki er heimilt að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi, þ.e. leyfi til að ráða sig til starfa hjá hverjum sem er, nema hann hafi átt lögheimili og dvalið á Íslandi samfellt í  þrjú ár og hafi öðlast búsetuleyfi.

Helstu nýmæli laganna eru þessi:

  • Heimilt er við sérstakar aðstæður að veita sérhæfðum starfsmanni, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum fyrirtækis sem ekki hefur starfsstöð á Íslandi, tímabundið atvinnuleyfi í allt að sex mánuði.  Heimildin er háð því skilyrði að fyrir liggi þjónustusamningur við fyrirtæki hér á landi og að skilyrði viðskiptanna sé að starfsmaður erlenda fyrirtækisins annist þjónustuna.  Þá skal gengið úr skugga um að laun og önnur starfskjör erlenda starfsmannsins séu í samræmi við íslensk lög og að hann sé sjúkratryggður.

  • Heimild er einungis til að víkja frá  skilyrðum um umsögn stéttarfélags eða landssambands þegar ekki er til að dreifa stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein.  Skylda til að leita umsagnar stéttarfélags varð að sumra mati úrelt eftir að Vinnumálastofnun tók til starfa. Stofnunin hefur með neti svæðisvinnumiðlana betri yfirsýn yfir framboð vinnuafls en stéttarfélögin.  Með lögum nr. 13/1997 um vinnumarkaðsaðgerðir var landið verið gert að einu vinnusvæði, en stéttarfélög eru staðbundin og hafa ekki yfirsýn yfir stærra svæði en félagssvæði sitt, sem er sveitarfélagið og nágrenni.

  • Atvinnurekanda er skylt að sjúkratryggja erlendan starfsmann sinn þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga.  Gildir þetta almennt um fyrstu 6 mánuða dvalar á Íslandi áður en þeir komast í almannatryggingakerfið.

  • Atvinnurekendum og stéttarfélögum er skylt að upplýsa útlending með tímabundið atvinnuleyfi um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða. 

  • Félagsmálaráðherra skal skipa samstarfsnefnd sem kalla skal saman vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa og þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga.  Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Í umsögn um frumvarpið lögðu SA m.a. áherslu á að æskilegra væri að ein stofnun hefði á hendi veitingu atvinnu- og dvalarleyfa líkt og þar þekkist, og lögðu til að atvinnuleyfi yrðu veitt einstaklingunum sjálfum en ekki atvinnurekendum þeirra. Sjá umsögn SA (pdf-skjal).

Ítarlegri umfjöllun um lögin verður sett á vinnumarkaðsvef SA á næstu dögum.

Samtök atvinnulífsins