Vinnumarkaður - 

08. mars 2023

Miðlunartillaga samþykkt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Miðlunartillaga samþykkt

Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og félagsmenn Eflingar hafa, með afgerandi meirihluta, samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara. 98,5 prósent aðildarfélaga SA og 85 prósent félagsmanna Eflingar greiddu atkvæði með tillögunni.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins: „Allt er gott sem endar vel. Við þökkum embætti ríkissáttasemjara fyrir samstarfið, þeim Aðalsteini Leifssyni og Ástráði Haraldssyni ásamt starfsfólki. Við höfum sýnt ábyrga nálgun í fordæmalausri kjaradeilu. Nú er óvissu eytt og það ætti einungis að vera formsatriði að klára samninga á opinberum markaði. Ég trúi ekki öðru en að aðilar sem að þeim samningum koma finni til ábyrgðar sinnar. Línan sem mörkuð hefur verið er skýr og ég tel að þjóðin sé einhuga um að hana þurfi að verja.“

Miðlunartillagan sem nú er samþykkt er byggð á fyrri miðlunartillögu sem lögð var fram 26. janúar með lítilsháttar breytingum. Launahækkanir félagsmanna Eflingar eru í meginatriðum þær sömu og var samið um í öðrum samningum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins við SA. Gert er ráð fyrir fullri afturvirkni til 1. nóvember eins og í þeim samningum.

Samtök atvinnulífsins