Vinnumarkaður - 

23. febrúar 2023

Árétting: Þátttaka fyrirtækja í verkbanni ekki valkvæð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Árétting: Þátttaka fyrirtækja í verkbanni ekki valkvæð

Fullyrðingar formanns Eflingar um að þátttaka í vinnustöðvunum sé valkvæð og án stuðnings í lögum eru rangar.

Einstakir atvinnurekendur og starfsfólk sem verkbann beinist gegn hafa ekki val, frekar en í tilviki verkfalla um það hvort hlíta skuli lögmætu verkbanni. Slíkt felur í sér brot á 18. gr. vinnulöggjafarinnar. Túlkun Eflingar sem birtist á vef stéttarfélagsins 20. febrúar um að valkvætt sé að hlíta verkbanni og þar með verkfalli stenst því ekki skoðun og felur í sér þrýsting til brota á vinnulöggjöfinni.

Þegar um verkbann er að ræða má enginn sem starfar eftir kjarasamningum SA og Eflingar mæta til vinnu nema að fenginni undanþágu frá framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins. Launagreiðslur falla niður yfir tímabilið sem verkbann stendur yfir líkt og í tilviki verkfalla.

Spurt og svarað um verkbann á íslensku og ensku

Af hverju beita SA verkbanni?

Unnið hefur verið að því svo mánuðum skiptir að ná samningum við Eflingu, í takt við skammtímasamninga annarra stéttarfélaga.

Nokkrir einfaldir punktar um kjaradeiluna: Þetta þarft þú að vita

Þær viðræður hafa engan árangur borið, samningsvonin er veik og verkföll hafa staðið yfir frá 7. febrúar með skömmu hléi. Fyrirséð er að verkföll Eflingar muni halda áfram að valda miklum samfélagslegum skaða og lama allt samfélagið á næstu dögum.

Í ljósi þessarar alvarlegu stöðu hefur SA gripið til þess neyðarúrræðis að boða verkbann sem var samþykkt með tæplega 95% atkvæða. Þetta staðfestir vilja og einurð breiðs hóps atvinnurekenda af öllum stærðum þvert á atvinnugreinar.

Samtökum atvinnulífsins er nauðugur sá kostur að grípa til verkbanns til að takmarka tjón fyrirtækjanna og samfélagsins alls. Það er gert í því augnamiði að þrýsta á að samningar náist og takmarka tjón starfsfólks, atvinnurekenda og samfélagsins alls.

Það er einlæg von okkar að verkbann knýi á um samning á sömu nótum og nánast öll önnur stéttarfélög á almenna vinnumarkaðnum hafa nú þegar samið um. Meginmarkmið þeirra er að verja þann árangur sem náðst hefur á liðnum árum og tryggja grundvöll áframhaldandi lífskjarabata á komandi misserum. Með áherslu á að verja kaupmátt með samningi til skamms tíma var það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum - fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.

SA verða í nánu samtali við fyrirtæki landsins og munu mæta á vinnustaði til að sinna eftirliti ef til verkbanns kemur. Það er eindregin ósk SA að ekki þurfi að koma til þess.

Samningar hafa náðst við öll önnur stéttarfélög, eða um 80% af almennum vinnumarkaði. Það er sameiginleg ábyrgð SA og Eflingar að ná samningum.

Samsetning aðildarfyrirtækja SA

Tæplega helmingur aðildarfyrirtækja SA eru fyrirtæki sem telja tíu starfsmenn eða færri (um 44%). Fyrirtæki með 50 starfsmenn eða færri eru yfir 80% aðildarfélaga. Megnið af aðildarfyrirtækjum SA er því minni fyrirtæki. Stofnendur og eigendur þeirra, líkt og aðrir atvinnurekendur sem leggja grunn að verðmætasköpun, hafa lagt mikið undir og eiga mikið undir líkt og starfsfólk þess. Þessar staðreyndir eru þveröfugar við orðræðu Eflingar sem er á þá leið að eingöngu sé um að ræða stórfyrirtæki.

Nýafstaðin atkvæðagreiðsla um verkbann endurspeglar, sem fyrr segir, vilja og einurð breiðs hóps atvinnurekenda af öllum stærðum þvert á atvinnugreinar.

Tengt frétt

Þetta þarft þú að vita um kjaradeiluna
Lesa meira

Tengt frétt

Efling og SA: Mikið bar í milli
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins