Vinnumarkaðsvefur

Iðnaðarmenn

SA gera kjarasamninga við stéttarfélög iðnaðarmanna. Viðsemjendur SA eru landsfélögin VM, Matvís og Grafía og tvö sambönd stéttarfélaga, RSÍ og Samiðn. Gildissvið þessara kjarasamninga er ekki nákvæmlega tilgreint í samningunum en er í grófum dráttum sem hér segir:

  • Grafía: Sveinar og nemar í prentun, prentsmíði/grafískri miðlun og bókbandi og verkafólk í prentfyrirtækjum og á bókbandsstofum.
  • Matvís: Sveinar og nemar í bakstri, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu.
  • RSÍ: Sveinar og nemar í rafiðngreinum (m.a. rafvirkjar og rafeindavirkjar) og tæknifólk í rafiðnaði. 
  • Samiðn: Sveinar og nemar í byggingariðnaði, málmiðnaði og skrúðgarðyrkju. Innan Samiðnar eru 12 aðildarfélög, m.a. verkalýðsfélög með iðnaðarmannadeildir. FIT gerir jafnframt kjarasamning vegna snyrtifræðinga.
  • VM: Vélstjórar, vélfræðingar og sveinar og nemar í málmtækni og netagerð.

Kjarasamningar iðnaðarmanna ná fyrst og fremst til iðnlærðra starfsmanna, þ.e. starfsmanna sem lokið hafa sveinsprófi í iðngreinum. Frá þessu eru nokkrar undantekningar:

  1. Ef iðnaðarmaður er ekki ráðinn til starfa í sinni löggiltu iðngrein þá getur hann fallið undir annan kjarasamning. Iðnaðarmaður sem t.d. er ráðinn til starfa í verslun fellur að jafnaði undir kjarasamning SA og VR/LÍV.
  2. Iðnnemar falla undir kjarasamninga iðnaðarmanna í viðkomandi grein, sjá kafla um kaup og kjör iðnnema sem eru aftarlega í samningum Samiðnar, VM, RSÍ og Matvís og 3. kafla kjarasamnings Grafíu. 
  3. Erlendir iðnaðarmenn með viðurkennd starfsréttindi frá heimalandi sínu til iðnaðarmannastarfa geta fallið undir kjarasamninga iðnaðarmanna, sinni þeir störfum sem falla undir löggilda iðngrein. Sjá kafla kjarasamninga um laun og ákvæði um áunnin réttindi vegna starfa erlendis.
  4. Í kjarasamningum Samiðnar og VM eru kauptaxtar fyrir sérhæfða aðstoðarmenn iðnaðarmanna með mikla faglega reynslu í iðngreininni. Hér er þó ekki um að ræða störf sem teljast hefðbundin störf verkamanna. 
  5. Kjarasamningur Grafíu nær einnig til iðnverkafólks í prentfyrirtækjum.