Vinnumarkaðsvefur

05. júlí 2022

Sorgarleyfi samþykkt á Alþingi – tekur gildi um næstu áramót

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sorgarleyfi samþykkt á Alþingi – tekur gildi um næstu áramót

Lög um sorgarleyfi voru samþykkt á Alþingi þann 15. júní sl. og öðlast þau gildi 1. janúar 2023.

Lögin tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði, sem verða fyrir barnsmissi, sorgarleyfi í allt að sex mánuði sem og greiðslur frá Vinnumálastofnun til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði. Lögin tryggja enn fremur foreldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli, þar á meðal námsmönnum, sorgarstyrk verði þeir fyrir barnsmissi.

Réttur til sorgarleyfis stofnast þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar. Hámarksgreiðslur í sorgarleyfi verða 600.000 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli og einnig yfir lengra tímabil með samkomulagi við sinn atvinnuveitanda.

Í lögin hafa verið færð ákvæði fæðingar- og foreldraorlofslaga um andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Eins og áður á foreldri sjálfstæðan rétt til 3ja mánaða sorgarleyfis frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22ja vikna meðgöngu og 2ja mánaða rétt við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Ekki fór vel á því að fjalla um sorgarleyfi í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, enda samrýmist sorgarleyfi vegna barnsmissis illa meginmarkmiðum þeirra laga um að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Samtök atvinnulífsins fagna þessari nýju lagasetningu um sorgarleyfi og eru sammála markmiðum laganna, þ.e. að gefa foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis með því að tryggja þeim leyfi frá störfum og greiðslur til að koma til móts við tekjutap í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði. Þannig sé stuðlað að farsælli endurkomu foreldra á vinnumarkað og að þeir taki aftur virkan þátt í samfélaginu.

Lög um sorgarleyfi

Umsögn SA um frumvarp til laga um sorgarleyfi

Samtök atvinnulífsins