04. ágúst 2022
Félagslegt vinnuumhverfi - af hverju skipta góð samskipti á vinnustað máli ?
1 MIN
Félagslegt vinnuumhverfi - af hverju skipta góð samskipti á vinnustað máli ?
Hvað er félagslegt vinnuumhverfi?
Þegar talað er um félagslegt vinnuumhverfi er verið að vísa í þá samskiptalegu og skipulagslegu þætti í vinnuumhverfinu sem hægt er að hafa áhrif á og styðja við góða vinnustaðamenningu.
Undir félagslegt vinnuumhverfi falla því þættir eins og t.d. stjórnun og skipulag, kröfur og álag, sveigjanleiki og sjálfræði, upplýsingagjöf og samskipti, stuðningur, fjölbreytileiki verkefna og heilsuefling svo dæmi séu tekin.
Óhætt er að segja að skipulag og samskipti á vinnustað séu ákveðinn hornsteinn félagslegs vinnuumhvefis því á flestum vinnustöðum myndast ákveðin menning vegna samstarfs og samskipta milli starfsfólks. Slæmt félagslegt vinnuumhverfi eykur hættu á samskiptavanda, streitu, andlegri og líkamlegri vanheilsu, kulnun í starfi, einelti og áreitni svo dæmi séu tekin. Á þessu sést mikilvægi þess að atvinnurekendur meti og bregðist við áhættuþáttum tengdum félagslegu vinnuumhverfi til jafns á við aðra áhættuþætti í vinnuverndarstarfi fyrirtækis.
En af hverju skiptir gott félagslegt vinnuumhverfi máli?
Starfsfólk ver stórum hluta sólarhringsins á vinnustað. Ef félagslegt vinnuumhverfi er ekki gott getur það haft neikvæð áhrif á líðan starfsfólks og þannig leitt til verri afkasta, slysa og fjarvista sem getur haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækis. Tímabundinn ágreiningur sem ekki er tekið á getur þróast í einelti en rannsóknir sýna að einelti og áreitni þrífast betur á vinnustöðum þar sem veikleika er að finna í félagslegu vinnuumhverfi.
Mikilvægt er að atvinnurekendur meti áhættuþætti tengda félagslegu umhverfi á sama hátt og þeir meta áhættu vegna véla og tækja, efna og umhverfisþátta á starfsfólk.
Þetta ábyrgðarhlutverk getur vafist fyrir atvinnurekendum, enda líðan og upplifun einstaklinga flókið og margslungið fyrirbæri.
Félagslegt áhættumat - framkvæmd
Öll fyrirtæki eiga að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað (áhættumat) ásamt áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Það er gert með því að fara kerfisbundið yfir vinnustaðinn og vinnuskipulag í leit að hættum.
Aðferðin við gerð félagslegs áhættumats er valfrjáls þar sem atvinnurekendur greina þau vandamál sem hugsanlega eru á vinnustaðnum eða geta komið upp.
Þeir þættir sem þarfnast skoðunar við félagslegt áhættumat eru til dæmis vinnutími, samskipti, upplýsingaflæði, tímaþröng, tilbreytingarleysi, athafnafrelsi, einvera við vinnu, stuðningur, samsetning starfshóps, öryggi og breytingar í vinnuumhverfi. Áhættumatið þarf að taka mið af fjölda starfsmanna, aldri starfsmanna, kynjahlutfalli, ólíkum menningarlegum bakgrunni sem og fleiri þáttum.
Eftirfarandi leiðir hafa reynst vel við að meta aðstæður og starfsanda innan vinnustaða:
- Opin umræða t.d. með starfsmannasamtölum og reglulegum starfsmannafundum
- Starfslýsingar
- Starfslokaviðtöl
- Starfsánægjukannanir og vinnustaðagreiningar
- Reglulegir starfsmannafundir
- Vinnuumhverfisvísar Vinnueftirlitsins
- Skoða lykiltölur yfir: kvartanir, atvik, frammistöðu, fjarvistir, starfsmannaveltu o.fl.
Fyrirbyggja má óviðeigandi hegðun á margvíslegan hátt:
- Innleiða áætlun um forvarnir og viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi
- Greina og fjarlægja áhættuþætti í félagslegu vinnuumhverfi
- Taka á neikvæðu tali og stuðla að jákvæðri starfsmenningu
- Koma á reglubundinni fræðslu og stjórnendaþjálfun
Ábyrgð
Atvinnurekandinn ber ábyrgð á að framkvæma áhættumat á félagslegu vinnuumhverfi og gera skriflega viðbraðgsáætlun.
Forvarnarstarfsemi þarf einnig að vera markviss og hluti af daglegri starfsemi. Þrátt fyrir að atvinnurekandi beri ábyrgð á vinnuverndarstarfi sem á að taka til vinnustaðarins í heild og allra vinnuaðstæðna þá hvílir ábyrgðin á góðum samskiptum á vinnustað sameiginlega á stjórnendum og starfsfólki. Til að ná árangri í vinnuverndarstarfi þurfa allir að leggja sitt af mörkum, stuðla að góðum samskiptum og láta vita ef samstarfsfólk eða aðrir sýna óviðeigandi framkomu. Hver og einn ber ábyrgð á eigin hegðun. Öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel er undirstaða góðra verka.
Hvar er frekari upplýsingar að finna?
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er að finna fróðleik og verkfæri tengd félagslegu vinnuumhverfi og áhættumati félagslegra áhættuþátta. Þar er fjallað almennt um þá þætti sem falla undir félagslegt vinnuumhverfi, stjórnun og skipulag, góð samskipti á vinnustað, forvarnir og viðbrögð gegn einelti, áreitni og ofbeldi ásamt menningu vinnustaða. Þar er einnig hægt að finna bækling um félagslegt og andlegt vinnuumhverfi og leiðbeiningar fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa.
Á heimasíðu VIRK er að finna umfjöllun um gott vinnuumhverfi og hvetjandi áhrif þess á starfsfólk.
Einnig er að finna umfjöllun um félagslegt vinnuumhverfi á heimasíðu SA sem og stefnu og viðbragðáætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Samtök atvinnulífsins hafa einnig útbúið sérstakan sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi og hvetja starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja til að gera gildi hans hluta af daglegum rekstri. Hægt er að hafa samband við lögfræðinga vinnumarkaðssviðs SA ef frekari spurningar vakna um félagslegt vinnuumhverfi.