1 MIN
Hvernig skiptum við kökunni?
Kröfur um hækkun lágmarkslauna fela jafnan í sér miklar prósentuhækkanir.
Í áróðursstríðinu sem jafnan fer af stað þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga, setja forystumenn verkalýðsfélaga fram eina aðalkröfu sem hljómar einkar vel. Krafist er tiltekinnar hækkunar lágmarkslauna, upp í heil eða hálf hundruð þúsunda króna, með þeim rökum að lægri laun teljist vart mannsæmandi og dugi ekki fyrir framfærslu. Erfitt er að vera ósammála því og mælist yfirgnæfandi stuðningur við slíkar kröfu í skoðanakönnunum.
Hængurinn er sá að þessar sléttu krónutölur fela undantekningarlaust í sér kröfu um mikla prósentuhækkun launa sem takmarkaðir fjármunir eru til fyrir. Stéttarfélögin ganga ekki til viðræðna til að ræða um skiptingu verðmætaaukningar. Umræðu um efnahagslegt svigrúm til launahækkana er kerfisbundið hafnað.
En krafan um hækkun lægsta launataxtans er einungis toppurinn af ísjakanum því aðrar kröfugerðir félaganna skipta jafnan tugum og fela í sér hugmyndir um miklar kostnaðarhækkanir. Vinna er þó hvorki lögð í mat á kostnaði við kröfurnar né forgangsröðun þeirra. Viðsemjandanum er það látið eftir ásamt greiningu á áhrifum framgangs krafnanna. Niðurstöður slíks mats fulltrúa atvinnurekenda er jafnan vísað á bug sem áróðri sem ekki þurfi að ræða frekar. Engan þarf því að undra að erfitt sé að endurnýja kjarasamninga áður þeir gildandi renna út.
Hækkanir lægstu launa fara upp alla launastiga
Þegar fyrstu kjarasamningarnir loks nást er niðurstaðan yfirleitt sú að hlutfallsleg hækkun launataxta er töluvert umfram skilgreint svigrúm til launabreytinga, en launahækkanir þeirra sem fá greidd hærri laun eru hóflegar. Í kjarasamningum í framhaldinu taka samningsbundnir launataxtar hærra launaðra stétta mið af hlutfallslegri hækkun lægstu launataxtanna. Litlar fréttir berast af kostnaðarmati þeirra samninga. Á vinnumarkaðnum eru síðan teknar þúsundir ákvarðana um uppfærslu óformlegra launakerfa fyrirtækja og persónulegra ráðningarsamninga þar sem gjarnan er litið til hækkunar umsaminna launataxta. Mældar launabreytingar, sem birtast í launavísitölu Hagstofunnar, eru því ávallt töluvert meiri en fram kemur í kostnaðarmati samningsaðila.
Stéttarfélög sem standa utan ASÍ, bæði innan og utan einkageirans, bíða jafnan eftir niðurstöðu kjarasamninga landssambanda ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Þegar þeir liggja fyrir freista þau þess að bæta kjör félagsmanna sinna umfram það sem felst í hinum stefnumarkandi samningum. Talsmenn þeirra telja sig óbundna af samningum ASÍ og SA, enda hafi stéttarfélög sjálfstæðan samningsrétt. Niðurstaðan er oft í samræmi við þennan málflutning eins og þróun launavísitalna opinberra starfsmanna undanfarin ár sýnir, en þær hækkuðu töluvert umfram launavísitölu almenna vinnumarkaðarins. Hér á landi er þetta fyrirbæri kallað höfrungahlaup við kjarasamningsgerð og þekkist ekki í öðrum löndum.
Öll launakerfi landsins taka mið af hækkunum kauptaxta kjarasamninga, ef ekki strax þá með tímanum, því ekki er unnt að þjappa saman launabilum endalaust. Rétt er að minna á að samið hefur verið um krónutöluhækkanir launataxta hvert einasta ár á þessari öld, að árinu 2007 undanskildu. Hraði hækkana lægstu launa upp alla launastiga landsins fer eftir árferði. Á erfiðum tímum er unnt að þjappa launabilum saman um sinn með krónutöluhækkunum, en það sætta stéttarfélög hærra launaðra sig ekki lengi við. Þegar atvinnuástand batnar sækja launabil í fyrra horf fyrir tilstuðlan kjarasamninga meðaltekjuhópanna og launaskriði annarra. Þetta er sagan endalausa á íslenskum vinnumarkaði.
Greinin í heild sinni birtist fyrst í Frjálsri verslun. Greinin er nú birt í fjórum hlutum með ítarefni. Fyrsta hluta greinarinnar má finna hér og annan hluta hennar má finna hér.