04. júlí 2022

Glýja um milljón á mánuði

Halldór Benjamín Þorbergsson & Hannes G. Sigurðsson

1 MIN

Glýja um milljón á mánuði

Skylduaðild starfsfólks að stéttarfélögum opinberra starfsmanna ásamt óformlegri skylduaðild á almennum vinnumarkaði í formi forgangsréttarákvæða kjarasamninga færa stéttarfélögum mikil völd. En völdum fylgir ábyrgð og senn reynir á hana.

Forsenda farsællar niðurstöðu komandi kjaraviðræðna er að tillit verði tekið til aðstæðna í efnahagslífinu og horfst í augu við augljósa annmarka á núverandi fyrirkomulagi kjaraviðræðna og kröfugerða. Í því samhengi er átt við mikilvægi þess að stéttarfélög forðist bólgin loforð um að sækja miklar launahækkanir, sem sagan sýnir að er glýjan ein þegar kemur að aukningu kaupmáttar launa.

Sama krónutala lægstu launa nú og í desember 1980

Í desember 1980 var lægsti launataxti verkafólks 355 þúsund krónur á mánuði. Þau hækkuðu síðan 12 sinnum um samtals 200% á næstu 30 mánuðum og voru komin í rúma eina milljón (gamlar krónur) þann 1. júní 1983. Í millitíðinni voru tvö núll klippt af krónunni þannig að það telur ekki að þau hafi náð einni milljón. Þau voru bara 10 þúsund nýkrónur eins og þær kölluðust þá.

Í ársbyrjun 2022 var lægsti launataxti verkafólks 357 þúsund krónur á mánuði. Lægstu laun hafa þannig hundrað-faldast á síðustu fjórum áratugum. Það vekur upp vangaveltur um hvort önnur myntbreyting gæti verið á næsta leiti.

Frá árinu 1990 hafa lágmarkslaun hækkað um ríflega 800%, eða um 7,5% á ári að jafnaði. Með sama áframhaldi ná lágmarkslaun einni milljón króna árið 2036 – eftir 14 ár. Það verður þó ekki hægt að kaupa þrisvar sinnum meiri vöru og þjónustu fyrir milljón þá og 350 þúsund nú því mikill meirihluti hækkunarinnar verður verðbólgufroða.


Launahækkanir umfram svigrúm í 30 ár jafn miklar og hækkun erlendra gjaldmiðla

Svigrúm til launahækkana, án þess að verðbólgumarkmiði Seðlabankans sé ógnað, er talið vera um 4% að jafnaði á ári. Svo vill til að launahækkanir á Íslandi umfram áætlað svigrúm og meðalhækkun erlendra gjaldmiðla hafa verið álíka miklar undanfarna áratugi.

Á milli áranna 1990 og 2021 hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 108% umfram áætlað 4% árlegt svigrúm, eða um 2,4% að jafnaði á ári. Á sama tímabili hækkaði Bandaríkjadollari um 118%, og evran (og forveri hennar DEM) um 113%. Sú ályktun er því nærtæk að launahækkanir umfram svigrúm hafi stuðlað að samsvarandi hækkun á verði erlendra gjaldmiðla, þ.e. gengislækkun krónunnar.

Greinin í heild sinni birtist fyrst í Frjálsri verslun. Framhald greinarinnar ásamt ítarefni mun birtast í þremur hlutum á næstunni.

Halldór Benjamín Þorbergsson & Hannes G. Sigurðsson

Framkvæmdastjóri SA & Hagfræðingur og ráðgjafi Stjórnar SA