11. júlí 2022

Óskilvirkt kerfi – óskilvirk vinnubrögð

Halldór Benjamín Þorbergsson & Hannes G. Sigurðsson

1 MIN

Óskilvirkt kerfi – óskilvirk vinnubrögð

Stéttarfélög á Íslandi eru um 130. Þau gera 330 kjarasamninga fyrir 180 þúsund félagsmenn. Síðasta samningalota hófst í apríl 2019 og lauk kjarasamningum við meginþorra stéttarfélaganna innan ASÍ í maíbyrjun 2019. Í upphafi lotunnar voru undirritaðir kjarasamningar við 46 stéttarfélög sem náðu til 90 þúsund launamanna, þ.e. helmings allra launamanna. Það tók síðan rúmlega tvö ár að ljúka lotunni.

Viðræður í aðdraganda undirritunar fyrstu kjarasamninga hverrar samningalotu geta tekið hálft ár eða meira og því er hið verðuga markmið, um endurnýjun kjarasamninga áður en gildandi renna út, afar fjarlægt. Ef allt gengur að óskum eru kjarasamningar samþykktir milli SA og stéttarfélaga samflots aðildarfélaga ASÍ sem ná til helmings félagsmanna stéttarfélaga í landinu. Slíkri kjarasátt fylgir jafnan yfirlýsing ríkisstjórnar um framgang ýmissa áhersluumála samningsaðila. Þegar svo er komið eiga hátt í 100 stéttarfélög eftir að ljúka 280 samningum fyrir hinn helming launamannanna 180 þúsund. Yfirlýsingar ríkisstjórna eru léttvægar í þeim viðræðum.

Ósamstaða um form og efni

Himinn og haf er á milli stefnu stéttarfélaganna varðandi launabreytingar, bæði form og efni. Stéttarfélög verkafólks krefjast jafnan krónutöluhækkana, auk þess að sú stefna gangi yfir allan vinnumarkaðinn þannig að launabil þjappist saman. Þessi stefna þeirra nær þó ekki til kjarasamninga sem þau sjálf gera fyrir félagsmenn sína sem starfa í stóriðju- og orkufyrirtækjum. Það dregur óhjákvæmilega úr trúverðugleika verkalýðsfélaganna. Önnur stéttarfélög kjósa fremur hlutfallslegar hækkanir launa og eru andvíg samþjöppun launabila. Þessi ósamstaða stéttarfélaganna um form launabreytinga gerir úrvinnslu kjarasamninga að afar flóknu viðfangsefni og er ein ástæða þess hversu mikið þeir dragast á langinn.

Ósamstaða um efnið, þ.e. hversu miklar launabreytingar skuli semja um á hverjum tíma, er þó stærra vandamál en formið. Oftast eru fyrstu kjarasamningar hverrar lotu gerðir á milli Samtaka atvinnulífsins og landssambanda verkafólks og verslunarmanna, en í þeim hafa tvö félög, VR og Efling, um helming félagsmanna. Félög iðnaðarmanna eru yfirleitt virkir þátttakendur í samflotunum.

Greinin í heild sinni birtist fyrst í Frjálsri verslun. Greinin er nú birt í fjórum hlutum með ítarefni. Fyrsta hluta greinarinnar má finna hér.

Halldór Benjamín Þorbergsson & Hannes G. Sigurðsson

Framkvæmdastjóri SA & Hagfræðingur og ráðgjafi stjórnar SA