Fréttir - 

31. desember 2022

Gleðilegt nýtt ár 2023

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gleðilegt nýtt ár 2023

Samtök atvinnulífsins óska landsmönnum farsældar á nýju ári.

Litríkt og blómlegt atvinnulíf skiptir okkur öll máli.

Kæru félagar nær og fjær.

Nú er enn eitt árið liðið í aldanna skaut og atburðir ársins sem er að líða minna okkur á að við erum hluti af alþjóðasamfélaginu og ráðum ekki öllu um okkar hag. Innrás Rússa í Úkraínu hefur leitt til hækkandi verðlags í Evrópu, bæði á aðföngum og orku, og sömu áhrifa gætir hér á landi. Þetta hefur leitt til þess að stýrivextir hafa farið hækkandi víða um lönd og hefur Seðlabankinn brugðist við með sama hætti auk þess sem vaxtaálag hefur hækkað samhliða óvissu.

Þetta ár hefur einnig verið ár kjarasamninga og hafa Samtök atvinnulífsins nú samið við stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði um kjarasamning sem gildir til janúar 2024 undir heitinu Brú að bættum lífskjörum. Samningarnir tóku gildi um leið og Lífskjarasamningurinn rann sitt skeið á enda. Enn á eftir að semja við hluta launafólks á almennum vinnumarkaði en fyrir liggur að Samtök atvinnulífsins geta ekki samið um aðrar og meiri launahækkanir en felast í þegar gerðum samningum. Í því myndi felast trúnaðarbrot gagnvart verkalýðsfélögunum sem þegar hafa samið.

Samkeppnishæfni Íslands, sem segir til um hvernig okkur gengur að sækja betri lífskjör samanborið við aðrar þjóðir, á sitt ekki síst undir umbótum á vinnumarkaði og því er öllum til hagsbóta að samningar náist sem fyrst. Það eru hagsmunir allra að launahækkanir séu svipaðar og meðal nálægra þjóða og að þær stuðli að varanlega bættum lífskjörum á grunni lítillar verðbólgu og lágra vaxta. Verkalýðsforysta sem ekki stuðlar að efnahagslegum stöðugleika með þetta í huga vinnur því gegn hagsmunum umbjóðenda sinna.

Lærdómur ársins er væntanlega sá að Ísland mun áfram verða undir áhrifum alþjóðlegrar þróunar og hagur okkar er að stórum hluta undir henni kominn. Aftur á móti ræðst afkoma okkar fyrst og fremst af því hvernig okkur tekst að grípa tækifærin, nýta þau og hrinda verkefnum í framkvæmd. Traust staða atvinnulífsins styrkir samkeppnishæfni landsins og bætir hag þjóðarinnar um leið og því hljótum við öll að vilja róa í þá átt.

Samtök atvinnulífsins óska landsmönnum öllum gæfuríks komandi árs 2023.

---

Fyrirtækin okkar

Á liðnu ári sögðum við sögur af alls konar fólki í rekstri og þeim ótal viðfangsefnum sem það fæst við í daglegu amstri. Íslensk fyrirtæki eru jafn ólík og þau eru mörg, áskoranirnar mismunandi og enginn vinnudagur eins og annar.

---

Aðild að SA

Samtök atvinnulífsins veita félagsmönnum ýmsa beina þjónustu, einkum á sviði vinnumarkaðs- og kjaramála auk rekstrar. Aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins veita fyrirtækjum sérhæfða þjónustu sem er sniðin að hagsmunum ólíkra atvinnugreina og fyrirtækja. Aðild að samtökunum veitir félagsmönnum jafnframt tækifæri til þátttöku í margvíslegu málefnastarfi.

Tengt frétt

Brú yfir óvissutíma
Lesa meira

Tengt frétt

Óþrjótandi tækifæri
Lesa meira

Tengt frétt

Hófleg bjartsýni er góð
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins