29. desember 2022

Brú yfir óvissutíma

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Brú yfir óvissutíma

Mikil tækifæri felast í nýtingu orkunnar við sköpun útflutningsverðmæta

Víða í nálægum löndum ríkir óvissa í efnahagsmálum. Verðbólga er meiri en um mjög langt skeið. Það stafar bæði af eftirhreytum kórónuveirufaraldursins, hækkandi verði á ýmsum aðföngum en ekki síst háu verði á orku. Til að bregðast við hafa seðlabankar hækkað vexti. Það slær á þenslu, dregur úr fjárfestingum og hagvexti og sums staðar mun landsframleiðsla jafnvel dragast saman.

Í kjölfarið neyðast ríkin til að bregðast við til lengri tíma með aukinni áherslu á nýtingu endurnýjanlegrar orku í stað kola og jarðgass. Vindurinn er virkjaður, kjarnorka gengur í endurnýjun lífdaga og sólarorka skiptir meira máli auk þess sem vetni verður nýtt sem orkuberi.

Heimili og fyrirtæki í Evrópu finna sérstaklega fyrir orkuverðinu. Loka hefur þurft framleiðslustarfsemi sem ekki ræður við orkuverðið og fólk þarf að beita útsjónarsemi til að reyna að lækka orkureikninginn.

Hér á landi upplifum við svipaða þróun þar sem verðbólga er meiri en um langa hríð og Seðlabankinn hefur hækkað vexti. Það hefur svipuð áhrif og annars staðar. Það dregur úr fjárfestingu, fólk og fyrirtæki gæta aðhalds. Íbúðamarkaðurinn kólnar hratt.

En á einu sviði eru Íslendingar í betri stöðu en flestir. Okkar hagkerfi er að mestu knúð með orku úr endurnýjanlegum auðlindum landsins. Orkuverð er stöðugt og þótt nú standi yfir sjaldséð kuldatíð þá sér jarðvarminn um að halda hita á híbýlum og fyrirtækjum landsmanna.

Reyndar er fyrirséð að íslensk orka verði sífellt eftirsóknarverðari. Þar koma til áform um hröð orkuskipti í hagkerfinu sem krefjast þess að ráðist verði í umtalsverðar fjárfestingar í nýjum virkjunum. En einnig krefst almenn íbúafjölgun og ný verðmætasköpun í hagkerfinu þess að hvergi verði slegið slöku við. Mikil tækifæri felast í nýtingu orkunnar við sköpun útflutningsverðmæta og gjaldeyrisöflunar sem mun skapa almenningi öllum betri lífskjör á komandi áratugum. Ekki má heldur gleyma því að nýting innlendrar orku hjálpar til í baráttu við hlýnun jarðarinnar.

Til þess að þessi áform geti gengið eftir þarf stjórnsýsla landsins að draga úr ónauðsynlegri skriffinnsku, samræma leyfisveitingar, virða tímafresti og hjálpa til við að nauðsynlegar línulagnir og orkuver geti risið þannig að samræmist þörfum þjóðarinnar. Enginn er að tala um að draga úr nauðsynlegri áherslu á náttúruvernd og umhverfisáhrif heldur að einfalda ferla og hraða afgreiðslu mála.

Samtök atvinnulífsins hafa nú samið við stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði um kjarasamning sem gildir til janúar 2024 undir heitinu brú að bættum lífskjörum . Samningarnir tóku gildi um leið og lífskjarasamningurinn sem gerður var snemma árs 2019 rann sitt skeið á enda. Þannig fékk starfsfólk sem samningarnir taka til launahækkanir frá 1. nóvember sl. og búa við betri vissu um sín kjör á næsta ári en þau sem eiga enn ósamið.

Það blasir við hverjum sem sjá vill að Samtök atvinnulífsins geta ekki samið um aðrar og meiri launahækkanir en felast í þegar gerðum samningum. Í því myndi felast trúnaðarbrot gagnvart verkalýðsfélögunum sem þegar hafa samið og starfa um allt land en ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Vonast er til að verkalýðsfélög sem enn hafa ekki samið muni viðurkenna þessa óumflýjanlegu staðreynd og tryggja félagsmönnum sínum sambærilegar launahækkanir og aðrir hafa fengið.

Vonast er til að á nýju ári muni draga úr verðbólgu og óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum þannig að þegar kemur að samningsgerð í ársbyrjun náist að gera kjarasamning sem gilt geti í 3 – 4 ár og byggi á svipuðum forsendum og lífskjarasamningurinn 2019.

Það yrði öllum til heilla bæði launafólki og fyrirtækjum.

Greinin birtist fyrst á Innherja 29. desember 2022

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins