28. desember 2022

Hófleg bjartsýni er góð

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Hófleg bjartsýni er góð

Nýgerðir kjarasamningar skapa skilyrði til að vextir geti lækkað að nýju

Af ýmsu er að taka um atburði ársins. Hæst ber árás Rússa á sjálfstætt ríki Úkraínu þar sem mannvonskan og fyrirlitning á saklausum borgurum er alger. Það er ekki hægt annað en að dást að hugprýði og fórnfýsi Úkraínubúa sem búa við skort á nauðsynjavörum og flestu því sem við göngum að sem vísu í okkar daglega lífi. Sem betur hafa mörg ríki og íbúar þeirra stutt úkraínsku þjóðina dyggilega eftir efnum og aðstæðum. Þar hafa Íslendingar ekki látið sitt eftir liggja.

Þessir atburðir að auki haft áhrif á efnahagskerfi heimsins þar sem verðbólga er víða mikil og seðlabankar hækka vexti. Ekki síst hafa atburðirnir áhrif á orkukerfin í Evrópu þar sem verð hefur hækkað stórkostlega og valdið almenningi og atvinnulífi búsifjum.

Þótt þessir atburðir ásamt öðrum valdi óvissu og hafi áhrif hér á landi þar sem verðbólgan hefur orðið meiri en um langt skeið þá búa Íslendingar um margt við öfundsverðar aðstæður. Tækifærin eru mikil og víða í okkar atvinnulífi. Mikil þörf er á orku úr endurnýjanlegum auðlindum og varningi og þjónustu sem byggir á nýtingu þeirra. Spurningin er hversu hratt við viljum auka orkuframleiðsluna og um leið hraða orkuskiptum hér á landi. Fiskeldi blómstrar og ánægjulegt er að horfa til gríðarlegra áforma um uppbyggingu eldisstöðva á landi. Frumkvæði, þekking og áhugi fólks og fyrirtækja í flestum ef ekki öllum atvinnugreinum efla nýsköpun, þróun og rannsóknir og munu skapa mikil verðmæti í nýjum vörum og þjónustu og auka umsvif á næstu árum og áratugum.

Nýgerðir kjarasamningar skapa svigrúm til að undirbúa nýja langtímasamninga og veita almenningi og atvinnulífi tækifæri til að horfa bjartari augum fram á við. Þótt vonast sé til að dragi úr óvissu í alþjóðamálum á komandi ári geta ófyrirséðir atburðir orðið án mikils fyrirvara eins og reynslan sýnir. Samningarnir hjálpa til í baráttunni við verðbólgu og skapa skilyrði til að vextir geti lækkað að nýju. Nauðsynlegt er að ríki og sveitarfélög taki þátt í þesssari viðureign, sýni aðhald og gæti hófs í útgjöldum.

Skilyrði til auka verðmætasköpun atvinnulífsins eru góð. Það er besta leiðin til að lífskjör fólks geti batnað bæði í bráð og lengd.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 28. desember 2022

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins