28. desember 2022

Óþrjótandi tækifæri

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Óþrjótandi tækifæri

Nú hafa verið gerðir kjarasamningar til rúmlega eins árs við stóran hluta fólks á almennum vinnumarkaði. Yfirskrift samninganna er brú að bættum lífskjörum . Ætlunin er að síðantaki við samningar til lengri tíma. Jafnframt ætti þá verðbólgukúfurinn að vera genginn niður að mestu og vextir teknir að lækka að nýju.

Íslendingar búa að aðgangi að auðlindum sem hafa ásamt hugviti fólks og framtaki fyrirtækja skapað einna best og eftirsóknarverðust lífskjör í heimi. Við berum virðingu fyrir hvert öðru, höfum jafnrétti í hávegum og gætum þess að ganga vel um náttúruna og stöndum framarlega í umhverfismálum.

Við sköpum mikil verðmæti sem nýtast til að greiða fólki góð laun og skapa ríki og sveitarfélögum miklar skatttekjur. Til að gera betur stunda fyrirtækin rannsóknir, nýsköpun, sækja fram á mörkuðum, fjárfesta í nýjum búnaði, skapa nýjar vörur og þjónustu. Fólki stofnar til nýs reksturs sem getur skapaðeigendum sínum arð og þjóðfélaginu öllu ný störf og greiðir skatta og gjöld.

Til þess að allt gangi vel þurfa stjórnvöld að búa fyrirtækjunum samkeppnishæft rekstrarumhverfi þar sem reglur og aðstæður allar eru sambærilegar því sem best gerist í helstu nágrannalöndum.

Við sjáum mikil tækifæri til nýrrar orkuöflunar og arðbærrar nýtingar orkunnar. Á næstu árum verður orkuöflun á Þjórsársvæðinu aukin bæði með nýjum virkjunum og betri nýtingu þeirra sem fyrir eru. Unnt er að auka nýtingu jarðvarmans víða og svo virðist sem vindurinn geti orðið þáttur í orkuöfluninni. Að sjálfsögðu þarf að fara fram með gát og gæta að umhverfisþáttum eins og gert hefur verið.

Orkan sem framleidd verður mun nýtast til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og vera stór þáttur í komandi orkuskiptum. Einnig virðast tækifæri til stækkunar fyrirtækja sem þegar eru til staðar bæði á Grundartanga og víðar. Það heyrist stundum að hagstætt gæti verið að loka stóriðjuverum til að nýta orkuna annars staðar en í því felst ábyrgðarleysi gagnvart þúsundum starfsmanna sem starfa í tengslum við þessi fyrirtæki. Þau eru öll með lágt kolefnisspor í samanburði við önnur fyrirtæki og stöðvun starfseminnar yrði einungis til að auka losun gróðurhúsaloftttegunda annars staðar.

Öll ný starfsemi þarf að hafa aðgang að tryggri orku og það er enginn annar kostur í boði en að halda áfram að bæta raflínur og auka framboð orku til að styrkja búsetu um land allt, hraða orkuskiptum og styðja almenna uppbyggingu.

Það er ævintýri líkast að fylgjast með stórfelldum áformum um uppbyggingu fiskeldis. Ætlunin er að innan fárra ára verði framleidd tugir þúsunda tonna af laxi og tengdum afurðum bæði með nýjum stöðvum á Suðurnesjum og við Þorlákshöfn auk þeirra stöðva sem þegar ala lax í sjó. Hér verða til ótal mörg störf og mikil verðmætasköpun sem byggir á fólki, þekkingu, aðstöðu, hreinu vatni, hreinum sjó og jarðvarma.

Íslenski sjávarklasinn hefur sannað tilverurétt sinn með því að stuðla að betri nýtingu fiskaflans og þar hafa orðið til fjölmargar vörur úr einhverju sem fáum hugkvæmdist að unnt væri að nýta. Þörungar og þarar vekja sífellt meiri áhuga frumkvöðla.

Við sjáum sífellt fleiri fyrirtæki verða til í kringum heilbrigðisgeirann hvort sem þau framleiða lyf, vöru til að græða sár, augndropa, tæki til að auðvelda svefn eða ýmsar heilsutengdar vörur. Einkageirinn hefur haldið innreið sína við uppbyggingu baðstaða víða um land og heilsutengd ferðaþjónusta eflist jafnt og þétt.

Öflug nýsköpun á sér stað í ferðaþjónustunni. Tölvugeirinn er í örum vexti. Verslun og þjónusta tekur miklum breytingum. Í fjármálageiranum þróast þjónustan stöðugt og styður við vöxt allrar starfsemi í landinu.

Það verður aldrei of oft bent á að þetta verður til með frumkvæði einstaklinga því verðmætasköpunin verður ekki til fyrir frumkvæði stjórnmálamanna. Þeirra hlutverk er að hlúa að rekstrarumhverfinu og gæta þess að innviðirnir – vegir, orka, lagnir, mennta- og heilbrigðikerfið – geri fólki og fyrirtækjum fært að nýta tækifærin sem bjóðast.

Lífskjarasamningurinn 2019 skilaði launafólki meiri kaupmætti en áður hefur þekkst og nýgerður brúarsamningurvekur bjartsýni um framhaldið. Markmiðið er að gera langtímasamning á vinnumarkaði snemma árs 2024 semtryggi að kaupmáttur geti haldið áfram að batna og fyrirtækin sótt fram af fullum þrótti.

Enn eiga við orð Einars Benediktssonar: Vilji er allt sem þarf.

Greinin birtist fyrst í Áramótablaði Viðskiptablaðsins 28. desember 2022

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins