Vinnumarkaður - 

09. janúar 2003

Vinnuframlag eldra starfsfólks meira metið?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vinnuframlag eldra starfsfólks meira metið?

Í desember síðastliðnum var sagt frá því í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins að atvinnuþátttaka eldra fólks er mest hérlendis af öllum ríkjum OECD. Fram kom að hérlendis væri mikil eftirspurn eftir eldra fólki á vinnumarkaði og að gjarnan er haft á orði að eldra starfsfólkið sé áreiðanlegt, samviskusamt og hafi ríka ábyrgðartilfinningu, auk þess að búa að mikilli þekkingu og reynslu.

Í desember síðastliðnum var sagt frá því í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins að atvinnuþátttaka eldra fólks er mest hérlendis af öllum ríkjum OECD.  Fram kom að hérlendis væri mikil eftirspurn eftir eldra fólki á vinnumarkaði og að gjarnan er haft á orði að eldra starfsfólkið sé áreiðanlegt, samviskusamt og hafi ríka ábyrgðartilfinningu, auk þess að búa að mikilli þekkingu og reynslu.

35% telja eldra starfsfólkið verðmætara
SA hafa nú kannað viðhorf forsvarsmanna aðildarfyrirtækja sinna til eldra starfsfólks, en spurt var hvort eldra starfsfólk væri talið verðmætara, jafn verðmætt eða ekki eins verðmætt og það yngra. Svarendum var látið eftir að skilgreina við hvaða aldur þeir miða þegar talað er um "eldra" og "yngra" fólk. Niðurstaðan var sú að flestir telja eldra starfsfólkið jafn verðmætt og það yngra, eða tæp 62%, en rúm 35% telja það verðmætara. Tæp 3% telja eldra starfsfólk hins vegar ekki jafn verðmætt og það yngra.

Eldra fólkið verðmætast í smærri fyrirtækjum
Hlutfall þeirra sem telja eldra starfsfólkið verðmætara en það yngra er hæst í smæstu fyrirtækjunum, í fjölda starfsmanna talið, en fer lækkandi eftir því sem fyrirtækin stækka. Meðal fyrirtækja með einn til fimm starfsmenn eru það þannig 45% sem telja eldra starfsfólkið verðmætara, en einungis 7% fyrirtækja með fleiri en 200 starfsmenn. Þetta þarf ekki að koma á óvart, þar sem sérhæfing er meiri í stærri fyrirtækjum og t.d. víðtæk almenn þekking því ekki eins mikilvæg og í mörgum störfum í smærri fyrirtækjum. Alls staðar telur þó meirihluti fyrirtækja að eldra starfsfólkið sé jafn verðmætt því yngra, níutíu prósent stærstu fyrirtækjanna. Hlutfall þeirra sem telja eldra starfsfólk ekki eins verðmætt og það yngra er hins vegar nokkuð jafnt, oftast um þrjú prósent.

Minni munur milli greina
Ekki er eins mikill munur milli atvinnugreina í þessu sambandi. Hlutfall þeirra sem telja eldra starfsfólkið verðmætara er hæst í ferðaþjónustu og meðal rafverktaka, um 45%, en lægst meðal fjármálafyrirtækja, um 21%. Sú mæling tengist þó annarri, um stærð fyrirtækja í fjölda starfsmanna talið, enda hátt hlutfall fjármálafyrirtækjanna með mikinn fjölda starfsmanna, öfugt við rafverktaka. Hlutfall þeirra sem telja eldra starfsfólkið ekki eins verðmætt og það yngra fer hins vegar ekki í neinni grein hærra en í fjögur prósent.

Könnunin var gerð í desember og var hún send til um 1250 aðildarfyrirtækja SA. Svör bárust frá rúmlega sex hundruð þeirra, eða rúmlega 48%.


Samtök atvinnulífsins