Efnahagsmál - 

15. Oktober 2009

Umtalsverð lækkun stýrivaxta myndi hleypa lífi í fjárfestingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Umtalsverð lækkun stýrivaxta myndi hleypa lífi í fjárfestingar

Rúmlega sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins (62%) segja að umtalsverð lækkun stýrivaxta myndi hvetja fyrirtækin til fjárfestinga. Það er því til mikils að vinna með því að lækka stýrivexti Seðlabankans duglega þar sem fjárfestingar fyrirtækja eru í algjöru lágmarki. Rúmlega sextíu prósent fyrirtækja (64%) telja að aðgerðir eða áform stjórnvalda hafi ekki haft nein áhrif á fjárfestingaráform fyrirtækjanna en rúmlega þriðjungur (36%) telur áform stjórnvalda beinlínis hafa haft neikvæð áhrif.

Rúmlega sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins  (62%) segja að umtalsverð lækkun stýrivaxta myndi hvetja fyrirtækin til fjárfestinga. Það er því til mikils að vinna með því að lækka stýrivexti Seðlabankans duglega þar sem fjárfestingar fyrirtækja eru í algjöru lágmarki. Rúmlega sextíu prósent fyrirtækja (64%) telja að aðgerðir eða áform stjórnvalda hafi ekki haft nein áhrif á fjárfestingaráform fyrirtækjanna en rúmlega þriðjungur (36%) telur áform stjórnvalda beinlínis  hafa haft neikvæð áhrif.

Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á atvinnuhorfum meðal aðildarfyrirtækja SA. Meðal neikvæðra áhrifa af áformum stjórnvalda sem stjórnendur fyrirtækjanna nefna er óvissa um rekstarumhverfi ofarlega á blaði til viðbótar við aðgerðaleysi í vaxta- og gengismálum en fjölmargir segja jafnvel ekki hægt að gera áætlanir til skamms tíma - hvað þá til lengri tíma - vegna misvísandi skilaboða stjórnvalda og pólitísks óstöðugleika. Mörg fyrirtæki eru í nauðvörn og eru að komast í erfiða stöðu.

"Aðgerðirnar hafa stöðvað alla eðlilega framþróun í þjóðfélaginu. Þau fyrirtæki sem enn eru rekstrarhæf berjast við að halda lífi og fjárfesta ekkert. Vextir eru alltof háir og draga úr áhuga og getu til fjárfestinga. Umræða um fyrirhugaðar skattahækkanir dregur úr áhuga útlendinga á að fjárfesta og fyrirhugaðar skattahækkanir á almenning hvetja fólk til aðhaldssemi og flytja úr landi," sagði einn stjórnandi.

Annar hafði þetta að segja:

"Fyrirtækið er í góðum rekstri en þarf eins og öll fyrirtæki að vinna með lánsfjármagn ýmist tímabundið eða langtímalán og óöryggi stjórnvalda veldur svo miklum óróleika í bankakerfinu að nánast ómögulegt er að vinna með bankafólki því það veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Skilaboð stjórnvalda til bankageirans trufla alla vinnslu þeirra með fyrirtækjum. Fækkun okkar starfsmanna er öryggisráðstöfun til að safna upp öryggisfé þar sem ekki er hægt að treysta bankabaklandinu. Við munum jafnvel fækka enn meira um áramótin af sömu ástæðum."

Ljóst er að fyrirtæki hafa sýnt mikinn baráttuvilja síðastliðna mánuði og vilja til að halda sínu starfsfólki í von um að brátt komi betri tíð en ljóst er að tíminn til þess að bregðast við er að renna út hjá mörgum:

"Fyrirtækið hefur beitt aðhalds- og sparnaðaraðgerðum, þó án þess að skerða launakjör eða vinnutíma. Óvíst hve lengi er hægt að halda áfram á sömu braut, því það gæti farið að koma að því á næstu mánuðum að félagið neyðist til að mæta samdrætti, aukinni skattheimtu og háum vöxtum með breytingum á ráðningasamningum og e.t.v. fækkun starfsfólks."

Ljóst er að áform um auðlinda- og orkuskatta, skatta á ferðaþjónustu og boðuð fyrningarleið í sjávarútvegi munu hafa mjög neikvæð áhrif.

" Áform ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið í sjávarútvegi hefur haft þau áhrif að endurfjármögnunar viðræður sem komnar voru í gang hafa farið í frost," segir aðili í sjávarútvegi og annar hefur þetta að segja:  "Fyrningaráform á sjávarútveginn hafa sett alla nýsköpun svo og allt viðhald sem ekki er nauðsyn í biðstöðu. Engar ákvarðanir teknar um nýfjárfestingar við núverandi aðstæður."

Ferðaþjónustuaðilar eru uggandi yfir skattaáformum stjórnvalda og litlu samráði við greinina:

"Ferðaþjónustan verðleggur sína vöru á haustin fyrir næsta ár. Okkar fyrirtæki hafði gengið frá samningum sem taka til meira en 90% af veltu næsta árs áður en fréttir af yfirvofandi sköttum á ferðaþjónustu bárust okkur. Það er óbærilegt fyrir okkur sem stöndum í þessum rekstri að búa við skammsýni stjórnmálamanna. Ríkisstjórnin hefur haft heilt ár til þess að bregðast við yfirvofandi vanda með aukinni skattheimtu. Skattahækkanir á gistingu, rútur eða bílaleigubíla héðan af fyrir árið 2010 er eins og eftiráskattur á þegar seldar vörur jafnvel þó að reikningarnir verði ekki skrifaðir fyrr en á næsta ári."

Þá hafa boðaðir skattar á stórnotendur raforku og stjórnsýsla opinberra aðila þegar haft skaðleg áhrif:

"Ákvörðun um umhverfismat í Helguvík hefur tafið verkefnið nú þegar og raunar sett í uppnám. Öll viðskipti sem snúa að okkar fyrirtæki sett á bið á meðan. Niðurskurður framkvæmda á vegum hins opinbera einnig haft umtalsverð áhrif til hins verra. Listinn yfir áhrif aðgerðaleysis stjórnvalda t.d. er varðar gengismál, vaxtamál, etc. er of langur til að telja hér upp en er að valda stórkostlegum skaða í atvinnulífinu. Hér stefnir í alkul í vetur."

Samtök atvinnulífsins