Fréttir - 

24. maí 2023

Taktlaus hagstjórn?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Taktlaus hagstjórn?

Ákvörðun Seðlabankans um að hækka vexti um 125 punkta kom flestum á óvart en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 75-100 punkta hækkun. Hagtölur hafa hins vegar verið að þróast með þeim hætti að enn er mikil spenna í hagkerfinu og verðbólguhorfur hafa ekki þróast með þeim hætti sem vonast var til.

Hærri vextir auka kostnað þeirra fyrirtækja og heimila sem eru með lán á breytilegum vöxtum. En mikil verðbólga rýrir kaupmátt allra og kemur verst við þá sem minnst hafa milli handanna. Seðlabankinn á því enga góða kosti í stöðunni en það er hlutverk peningastefnunefndar að halda verðbólgu við markmið Seðlabankans.

Þó að vextir kunni að þurfa að hækka til að ná niður verðbólgu mun hækkandi vaxtastig án efa koma niður á ýmiss konar mikilvægri fjárfestingu, svo sem í íbúðarhúsnæði. Fólksfjölgun er mikil og eftirspurn hefur haldist sterk á íbúðamarkaði. Aukið framboð er því nauðsynlegt til að mæta þessari grunnþörf.

Borin von að ná niður verðbólgu á meðan nafnlaunahækkanir eru miklar 

Seðlabankinn var enn á ný með skýr skilaboð til aðila vinnumarkaðarins um að sýna ábyrgð við kjarasamningsborðið. SA viðurkenna svo sannarlega þá ábyrgð. Það má sín hins vegar lítils ef sá skilningur ríkir ekki beggja megin borðsins.

Seðlabankastjóri talaði um að það væri borin von að ná niður verðbólgu á meðan laun hækka í þeim takti sem verið hefur á meðan framleiðniaukning er ekki meiri en raunin er. Það er því engum blöðum um það að fletta að launahækkanir eru að setja aukinn þrýsting á verðbólgu sem skilar sér í miklum vaxtahækkunum. Í þessu samhengi talaði aðalhagfræðingur Seðlabankans um þyngdarlögmál hagfræðinnar - nafnlaunahækkanir langt umfram framleiðnivöxt geti ekki gengið upp til lengdar án leiðréttingar. Við erum nú að upplifa slíka leiðréttingu en raunlaun eru farin að lækka eftir tímabil mikilla raunlaunahækkana.

Aðhald ríkisfjármálanna ætti að vera meira 

Seðlabankinn framkvæmdi greiningu á áhrifum ríkisfjármála á verðbólguhorfur og hvernig aukið aðhald hjá ríkissjóði gæti dregið úr verðbólguþrýstingi. Þannig megi draga úr þörf fyrir vaxtahækkanir og hafa jákvæð áhrif á fjárfestingu. Eins og fram kemur í Peningamálum hefur afkoma ríkissjóðs batnað hægar en ætla mætti út frá efnahagsumsvifum. Æskilegt væri að aðhaldið væri meira.

Þó að skattahækkanir væru til þess fallnar að draga með óbeinum hætti úr einkaneyslu væru áhrif aðhaldsaðgerða á útgjaldahlið meiri og skilvirkari samkvæmt greiningu Seðlabankans. Óvíða er skattheimta meiri en hér á landi og því væru frekari skattahækkanir óheillaskref. Opinber útgjöld hafa hins vegar vaxið úr hófi fram en líkt og SA hafa ítrekað bent á þarf að koma böndum á þann útgjaldavöxt.

Því miður virðast skilaboðin um að allir hagstjórnaraðilar þurfi að ganga í takt, til að ná niður verðbólgu og vaxtastigi, ekki vera að komast nægilega skýrt til skila. Seðlabankinn hefur stigið þung skref í átt að verðstöðugleika en baráttan verður ekki unnin fyrr en allir hagstjórnaraðilar stefna í sömu átt. Að öðrum kosti verður niðurstaðan þrálát verðbólga og óásættanlega hátt vaxtastig.

Tengt frétt

Holur hljómur Arnarhvols
Lesa meira

Tengt frétt

Umsögn um fjárlög 2023: Illa nýttur meðbyr
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins