Vinnumarkaður - 

20. febrúar 2023

SA hefja atkvæðagreiðslu um verkbann í dag

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA hefja atkvæðagreiðslu um verkbann í dag

Í ljósi árangurslausra viðræðna í vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur stjórn samtakanna samþykkt einróma að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn í Eflingu sem starfa samkvæmt aðalkjarasamningi og veitinga- og gistihúsasamningi SA og Eflingar.

Umsvifamikil verkföll Eflingar munu lama íslenskt samfélag að stórum hluta og valda gríðarlegum kostnaði. Verkbann er neyðarúrræði atvinnurekanda í vinnudeilum til að bregðast við verkföllum og er ætlað að lágmarka tjón atvinnulífsins vegna verkfalla Eflingar. Í stað þess að Efling lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni leitast við að stjórna framkvæmd vinnustöðvana og auka þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum. Verkbann er sambærilegt verkfalli og þýðir að félagsfólk Eflingar mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður.

Reynt hefur á þanþol þess samningsramma sem markaður hefur verið í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá meiri hækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins er því miður óaðgengileg.

Samtök atvinnulífsins geta ekki teygt sig lengra í átt til Eflingar án þess að kollvarpa þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir en að baki þeim standa tæplega 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Það hníga engin rök að því að eitt stéttarfélag fái langtum meiri hækkun á þessum tíma en önnur. Stuttum kjarasamningum er ætlað að bregðast við mikilli verðbólgu og verja kaupmátt almennings án þess að valda atvinnuleysi og langvarandi verðbólgutímum á Íslandi, líkum þeim sem eldri kynslóðir muna vel eftir.

Þar sem viðræður við forystu Eflingar síðustu daga hafa ekki borið árangur og Efling hefur skipulagt og gripið til verkfallsaðgerða sem raska öllu samfélaginu, þá hefur stjórn SA samþykkt að leggja til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn Eflingar.

Atkvæðagreiðsla hefst um þetta neyðarúrræði meðal allra aðildarfyrirtækja SA í dag 20. febrúar kl. 11:00 að undangengnum upplýsingafundi fyrir félagsmenn og stendur til kl. 16:00 miðvikudaginn 22. febrúar. Verði verkbann samþykkt mun það taka gildi á hádegi (12:00) fimmtudaginn 2. mars.

Veittar verða undanþágur frá verkbanni vegna nauðsynlegrar grunnþjónustu. Fresti Efling boðuðum verkföllum munu Samtök atvinnulífsins að sama skapi fresta verkbannsaðgerðum.

Rafrænn upplýsingafundur í dag kl. 11:00

SA halda lokaðan rafrænan upplýsingafund fyrir félagsmenn í dag þar sem Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA mun fara yfir nýjustu vendingar og svara spurningum félagsmanna eins og kostur er.

Skráning á fundinn hefur verið send á félagsmenn.

-

Mánudagsmolar 

Frá upphafi og í aðdraganda kjaraviðræðna höfum við sent út fróðleiksmola um það sem við teljum máli skipta í kjaraviðræðum. Þá má lesa hér frá upphafi fyrir samhengi og forsendur SA í viðræðum:

Lesa mánudagsmola frá SA

-

Allar upplýsingar á vinnumarkaðsvef

Á vinnumarkaðsvef má kynna sér svör við algengum spurningum um allt er lýtur að kjaraviðræðum og vinnumarkaðsmálum.

Ef frekari spurningar vakna eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við lögmenn vinnumarkaðssviðs SA.

Kjarasamningar 2022-24

-

Fjöldi kjarasamninga undirritaðir 

Að undanförnu hefur verið gengið frá fjölda sérkjarasamninga og fyrirtækjaþátta kjarasamninga eftir stefnumarkandi kjarasamningum SA við stéttarfélög á almennum vinnumarkaði; Brú að bættum lífskjörum. Félagsmenn Samtaka atvinnulífsins geta nálgast kjarasamningana og leiðbeiningar um þá hér á vinnumarkaðsvef samtakanna.

Tengt frétt

Brú að bættum lífskjörum fyrir 80.000 manns
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins