Mikilvægur áfangi

Með undirritun kjarasamninga í gær er tryggður friður á vinnumarkaði til næstu þriggja ára. Með umsömdum launahækkunum og hærri greiðslum í lífeyrissjóði er gengið mjög nærri getu fyrirtækjanna. Það mun reyna mjög á þau og þess vegna eru mótvægisaðgerðir stjórnvalda nauðsynlegar til að kostnaðurinn fari ekki að stórum hluta út í verðlag.

Lykilþættir til að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins er að lækka skatta og gjöld, afnema gjaldeyrishöftin og að dregið verði úr reglubyrði sem leggst sérstaklega þungt á lítil fyrirtæki. Sérstaklega mikilvæg eru fyrirheit sem fjármálaráðherra hefur gefið að tryggingagjald sem leggst á öll laun verði lækkað umtalsvert í áföngum á næstu árum.

Í desember skoruðu rúmlega 300 stjórnendur úr atvinnulífinu á Alþingi að lækka tryggingagjaldið. Í áskoruninni kemur fram að það gangi vel í atvinnulífinu á mörgum sviðum og atvinnuleysi hafi minnkað hratt. Þrátt fyrir það sé tryggingagjald sem rennur m.a. til greiðslu atvinnuleysisbóta enn í hæstu hæðum. Árlegt gjald er um 20 til 25 milljörðum króna hærra en það ætti að vera. Nauðsynlegt er að fyrsta skref til lækkunar gjaldsins verði stigið þegar á þessu ári.

Þótt sá mikli kostnaður sem samningur þessi felur í sér geti vart talist skynsamlegt innlegg til hagstjórnar hér á landi þá er hann lykill að því að taka upp ný vinnubrögð við gerð samninga á íslenskum vinnumarkaði í átt að því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þar hefur tekist í samningum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar með stuðningi stjórnvalda að auka kaupmátt jafnt og þétt á mörgum áratugum án þess að verðbólga hafi farið úr böndum.  Til þess að ná sama árangri hér verður að breyta vinnubrögðum í grundvallaratriðum og nú hefur tekist að ná samræmingu á hækkunum launa og lífeyrisframlags á öll­um vinnu­markaðinum. Það á við um almenna vinnumarkaðinn og hinn opinbera. Það mun skapa þann frið sem nauðsynlegur er til að takast megi að ljúka vinnu sem þegar er hafin um mótun nýs kjarasamningalíkans hér á landi.

Tími átaka og sundurlyndis sem áberandi var í aðdraganda kjarasamningana á síðasta ári er vonandi að baki. Fyrirtækin þurfa á því að halda að hér ríki stöðugleiki og fyrirsjáanleiki um rekstrarumhverfi. Það er eina leiðin til þau geti einbeitt sér að því að búa til aukin verðmæti með fjárfestingum, rannsóknum, nýsköpun og markaðssókn. Þannig  tekst að skapa fleiri störf og bæta lífskjör á Íslandi.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í janúar 2016.

Tengt efni:

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ til 2019