Vinnumarkaður - 

22. janúar 2016

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ til 2019

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ til 2019

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning síðdegis í gær, fimmtudaginn 21. janúar. Samningurinn fer nú til kynningar hjá samningsaðilum og atkvæðagreiðslu og skulu niðurstöður liggja fyrir eigi síðar en 26. febrúar. Samningurinn gildir til loka árs 2018 og byggir á svokölluðu Rammasamkomulagi frá 27. október sl. og bókun með kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning síðdegis í gær, fimmtudaginn 21. janúar. Samningurinn fer nú til kynningar hjá samningsaðilum og atkvæðagreiðslu og skulu niðurstöður liggja fyrir eigi síðar en 26. febrúar. Samningurinn gildir til loka árs 2018 og byggir á svokölluðu Rammasamkomulagi frá 27. október sl. og bókun með kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

Samningurinn kveður á um breytingar á kjarasamningum sem gerðir voru milli samningsaðila frá maí til september 2015, en með gerð Rammasamkomulagsins í október síðastliðnum var mótaður sameiginlegur kostnaðarrammi kjarasamninga til ársloka 2018. Sá kostnaðarrammi hljóðaði upp á 32% hækkun launakostnaðar að meðaltali á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018, að teknu tilliti til breytinga á lífeyrisiðgjöldum, á samningstímanum. 

Samninginn í heild má nálgast hér að neðan en helstu atriði hans eru þessi.

Almennar launabreytingar
Launaþróunartrygging, sem átti að koma til framkvæmda 1. maí 2016, fellur brott. Í stað hennar kemur 6,2% almenn launahækkun þann 1. janúar 2016. Þann 1. maí 2017 hækka laun almennt um 4,5% og um 3% þann 1. maí 2018.

Nokkur dæmi eru um að fyrirtæki hafi á árinu 2015 flýtt launahækkuninni sem átti að koma til framkvæmda þann 1. maí næstkomandi, að hluta eða öllu leyti hjá hluta eða öllum starfsmanna sinna. Í samningnum er bókun sem tekur sérstaklega á þessum tilvikum og er ætlað að koma í veg fyrir að breytingin úr launaþróunartryggingu í almenna launahækkun leiði til tvígreiðslu launahækkunar ársins 2016.

Bókunin viðheldur þannig launaþróunartryggingunni í þessum tilvikum. Bókunin segir að launagreiðanda sé heimilt að draga frá umsaminni launahækkun þann 1. janúar 2016, ótilkynnta almenna hækkun launa starfsmanna sem framkvæmd hefur verið eftir gildistöku kjarasamninga viðkomandi aðildarsamtaka á árinu 2015 og fram að undirskrift þessa samnings, hafi launagreiðandi framkvæmt almenna hækkun launa gagnvart þorra starfsmanna. Þó skal enginn starfsmaður fá minna en 6,2% launahækkun, að lágmarki 15.000 kr. hækkun mánaðarlauna fyrir dagvinnu, á tímabilinu 2. maí til 31. desember.

Framlag í lífeyrissjóði
Framlag launagreiðenda í lífeyrissjóði mun hækka og verður eftirfarandi:

Frá 1. júlí 2016: 8,5%.

Frá 1. júlí 2017: 10,0%.

Frá 1. júlí 2018: 11,5%.

Hækkun iðgjaldsins felur í sé að starfsmönnum á vinnumarkaði verði, við 67 ára aldur, tryggður mánaðarlegur ellilífeyrir sem nemi 76% af meðaltals mánaðartekjum á starfsævinni, ef iðgjald vegna þeirra er samtals 11,5% alla starfsævina. Almenna lífeyriskerfið hefur hingað til miðast við 56%, en lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hafa miðað við fyrrgreind 76%. 

Þessi trygging felur í sér 35% meiri ávinnslu lífeyrisréttar en áður og næst með hækkun framlags launagreiðenda úr úr 8,0% í 11,5%. Við endurskoðun kjarasamnings ASÍ og SA um lífeyrismál, sem ljúka skal fyrir lok maí 2016, verði einstaklingum heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, 3,5% auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika. Með bundnum séreignarsparnaði er átt við að settar eru þrengri skorður en gilda gagnvart öðrum viðbótarlífeyrissparnaði. Nauðsynlegt er að undirbúa þessa heimild vandlega. Annars vegar með tilliti til tryggingafræðilegrar stöðu lífeyriskerfisins og hins vegar með tilliti til áhrifa þessa vals á réttindi til áfalla- og fjölskyldutrygginga og ævilangs lífeyris þannig að sjóðfélagar geti tekið upplýsta ákvörðun um samsetningu réttinda sinna.

Kjarasamningur SA og ASÍ 21. janúar 2016 (PDF)

Tengt efni:

Mikilvægur áfangi - leiðari framkvæmdastjóra SA

Samtök atvinnulífsins