1 MIN
Kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtaka atvinnulífsins uppfærður
Samkomulag hefur verið gert um uppfærslu á kjarasamningi SA og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Breytingar varða einkum vinnutímaákvæði sem og uppfærslu á ýmsum réttindaþáttum kjarasamningsins. Með breytingunni eru vinnutímaákvæði samningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði en í framkvæmd hefur dagvinnutími víða verið samræmdur milli þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi þessum og þeirra sem starfa eftir kjarasamningum skrifstofufólks.
Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. október nk.
Kjarasamningurinn nær til félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við lögmenn Samtaka atvinnulífsins ef einhverjar spurningar vakna um kjarasamninginn sem má nálgast hér á vef Samtaka atvinnulífsins.