Fréttir - 

11. Febrúar 2010

Fyrirmyndir í forystu atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirmyndir í forystu atvinnulífsins

Samkvæmt rannsókn Creditinfo eru 4.321 fyrirtæki á Íslandi með blandaðar stjórnir karla og kvenna og jafnt kynjahlutfall. Fram til loka ársins 2013 hefur viðskiptalífið sett sér það markmið að auka fjölbreytni atvinnulífsins enn frekar. Á næstu vikum og misserum munu því SA, Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands, Creditinfo og Leiðtoga-Auður hvetja fyrirtæki og eigendur þeirra til auka að fjölbreytni í forustusveit sinni.

Samkvæmt rannsókn Creditinfo eru 4.321 fyrirtæki á Íslandi með blandaðar stjórnir karla og kvenna og jafnt kynjahlutfall. Fram til loka ársins 2013 hefur viðskiptalífið sett sér það markmið að auka fjölbreytni atvinnulífsins enn frekar. Á næstu vikum og misserum munu því SA, Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands, Creditinfo og Leiðtoga-Auður hvetja fyrirtæki og eigendur þeirra til auka að fjölbreytni í forustusveit sinni.

Í  gær bættust tvö fyrirtæki í hóp fyrirmyndarfyrirtækja á Íslandi á ráðstefnunni Virkjum karla og konur - fjölbreytni í forystu sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica. Jón Axel Ólafsson, eigandi Eddu útgáfu og Sigurður Arnalds, stjórnarformaður Mannvits, skrifuðu undir samstarfssamning um að leggja sitt af mörkum til að fjölga konum í forystusveit íslensks atvinnulífs.

Ráðstefnan var haldin til að fylgja eftir og kynna samstarfssamning samtaka í atvinnulífinu frá 15. maí 2009  um að aukna fjölbreytni í forystusveit atvinnulífsins til loka ársins 2013 þannig að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Algengt hlutfall kvenna í atvinnulífinu er í kringum 20% ef horft er til stjórnunarstarfa, stjórnarsæta eða til hlutfalls kvenna sem stofna fyrirtæki.

Allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi skrifuðu undir samninginn og veita honum stuðning sinn. Creditinfo mælir árlega árangur verkefnisins.

Aukin fjölbreytni nauðsynleg

Að ráðstefnunni stóðu SA, Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands, Creditinfo og Leiðtoga-Auður ásamt iðnaðarráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Yfir 300 karlar og konur úr íslensku atvinnulíf mættu til ráðstefnunnar og var kynjaskipting nokkuð jöfn -  43% gestanna karlar og 57% konur.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, setti fundinn og sagði m.a. að í yfirskrift fundarins  "Virkjum karla og konur - fjölbreytni í forystu" væru fólgin mikilvæg skilaboð. "Ójöfn staða kynjanna í atvinnulífi, menntakerfi og stjórnsýslu hefur án efa sett mark sitt á þróun þjóðmála hin síðari ár.  Sennilega getum við verið sammála um það að einsleitni í hugarfari og ákvörðunum í viðskiptalífinu, sem tengist á sinn hátt því hversu kynbundin hlutverk eru í fyrirtækjum og stjórnkerfi, átti sinn þátt í þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið.  Ef við gætum horfið til baka og endurtekið leikinn er nokkuð öruggt að við myndum breyta um reglur á vellinum.  Kalla fleiri til forystu með ólíkan bakgrunn, leyfa fjölbreyttari skoðunum og gagnrýnni hugsun að hafa áhrif á ákvarðanir og stefnu," sagði Gylfi m.a og hvatti eigendur og stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að nýta tækifæri til að jafna hlut kynjanna og auka fjölbreytileika.

Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Auði Capital, fjallaði um hvernig fjölbreytni getur bætt karla og kynnti ágrip úr nýlegri rannsókn um áhrif fjölbreyttrar samsetningar á verklag stjórna. Niðurstöður hennar gefa sterklega til kynna að aukin fjölbreytni bæti verklag í stjórnum  og árangur þeirra. Hér að neðan er að finna tengil á viðtal við Þórönnu í Kastljósi RÚV eftir fundinn.

Þá fjallaði Alex Haslam prófessor við háskólann í Exeter um konur og forystuhlutverk sem hann hefur rannsakað ítarlega. Hann sagði rannsóknir sínar benda til þess að konur séu líklegri til að veljast til stjórnunar eða ábyrgðar þegar fyrirtæki eru í vanda stödd. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Alex og fjallað ítarlega um erindi hans og rannsóknir. "Karlmanni sem er við stjórnvölinn í fyrirtæki sem gengur vel er yfirleitt eignaður heiðurinn af velgengninni. Ef kona stýrir vel heppnuðu fyrirtæki er velgengni þess gjarnan skrifuð á hópvinnu og hagstætt umhverfi," segir Alex.

Í umræðum um efni fundarins tóku þátt Hreggviður Jónsson, forstjóri Veritas Capital, Hafdís Jónsdóttir, formaður FKA, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Jóhanna Waagfjörð, formaður Leiðtoga-Auðar, Finnur Oddson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri hjá Skiptum.

Í umræðunum kom m.a. fram að mikilvægt væri að auka fjölbreytni atvinnulífsins og nýta sem best krafta allra. Það væri sameiginlegt verkefni karla og kvenna í atvinnulífinu  en framundan væru fjölmörg tækifæri til að auka fjölbreytnina á komandi aðalfundum.

Glærur fyrirlesara má nálgast hér að neðan ásamt umfjöllun fjölmiðla um ráðstefnuna.

Einnig innslög sem sýnd voru á fundinum um kynskiptingu vinnumarkaðarins og leiðir til að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Rætt var við Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, Svala Björgvinsson, starfsmannastjóra Icelandair, Jón G. Hauksson, ritstjóra Frjálsrar verslunar, Þórhildi Þorleifsdóttur, formann jafnréttisráðs, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, alþingismann, Margréti Pálu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar og Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.

Fundarstjórar voru Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og Hermann Guðmundsson, forstjóri N1.

Sjá nánar:

Ávarp Gylfa Magnússonar

Glærur Þórönnu Jónsdóttur

Glærur Alex Haslam

Umfjöllun fjölmiðla

Hádegisfréttir RÚV 10. febrúar

Ísland í dag - yfirlit og viðtöl við fjölda fólks

Sjónvarpsfréttir RÚV kl. 19

mbl Sjónvarp

Kastljós RÚV - rætt við Þórönnu Jónsdóttur

Umfjöllun Fréttablaðsins 11. febrúar

Innslög:

Kynskiptur vinnumarkaður

Viðhorfabreyting / lagabreyting?

Samtök atvinnulífsins