Aukinn hagvöxtur bætir lífskjör

Til langs tíma er hagvöxtur lykill að því að bæta lífskjör landsmanna. Hagstætt rekstrarumhverfi fyrirtækja er því forsenda þess að hægt sé að bæta lífskjör á Íslandi enn frekar. Aukinn hagvöxtur bætir lífskjör hraðar en þegar hann er minni og getur munað talsverðu þar á. Miðað við eitt prósent árlegan hagvöxt tekur það 70 ár að bæta lífskjör landsmanna um 100% en ef árlegur hagvöxtur er 6% tekur það aðeins 12 ár.

Þetta kom m.a. fram á opnum fundi SA í Hörpu þar sem farið var yfir stöðuna á vinnumarkaði og mögulegt svigrúm til launahækkana.

Kynningu SA má nálgast hér (PDF)

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA rýndu í fjölmarga þætti efnahagslífsins og drógu upp mynd af stöðu mála. Það er að hægja á vexti efnahagslífsins og svigrúm fyrirtækja til launahækkana á næsta ári er takmarkað eins og könnun SA meðal aðildarfyrirtækja sýnir.

Með samstarfi atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og skynsömum kjarasamningum  á nýju ári, má tryggja að kaupmáttur haldi áfram að vaxa.

Fjölmenni var á fundi SA og sóttu hátt í 300 manns fundinn sem fram fór í Norðurljósasal Hörpu, stjórnendur fjölbreyttra fyrirtækja, verkalýðsleiðtogar og stjórnmálamenn.

Fundurinn var hluti af fundaröð SA um Ísland sem staðið hefur yfir frá því í byrjun september undir yfirskriftinni Tölum saman og var fundurinn sá tólfti í röðinni.

Tengt efni:

Góð ár framundan ef haldið er rétt á spilunum – ávarp formanns SA

Mat aðildarfyrirtækja SA á svigrúmi til launahækkana