Vinnumarkaður - 

01. Nóvember 2018

Góð ár framundan ef haldið er rétt á spilunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Góð ár framundan ef haldið er rétt á spilunum

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, ávarpaði opinn fund SA um komandi kjarasamninga og svigrúm atvinnulífsins til launahækkana. Ávarpið má lesa í heild hér á vefnum en fundurinn er hluti af fundaröð SA um Ísland sem hófst í september á Ísafirði.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, ávarpaði opinn fund SA um komandi kjarasamninga og svigrúm atvinnulífsins til launahækkana. Ávarpið má lesa í heild hér á vefnum en fundurinn er hluti af fundaröð SA um Ísland sem hófst í september á Ísafirði.

Erindi formanns SA í Hörpu 1. nóvember 2018:

„Verið velkomin á þennan fund sem er sá tólfti sem við höldum á fáum vikum í fundaröðinni Tölum saman. Við ákváðum að nauðsynlegt væri fyrir okkur sem erum í forystu fyrir Samtök atvinnulífsins að hlusta á viðhorf fólks hringinn í kringum landið í aðdraganda viðræðna um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

 Kjarasamningar eru verkefni sem snúast um að ná sameiginlegri niðurstöðu verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda um kaup og kjör á næstu árum.

Um áramótin renna út samningarnir sem gerðir voru fyrir þremur árum. Á þeim tíma hefur kaupmáttur launa aukist hraðar og meira en dæmi eru um. Aukningin er um 25%. Allir finna fyrir þessu því krónurnar endast betur þegar farið er út í búð. Einkaneyslan hefur aukist mikið og margir hafa getað greitt niður skuldir, endurnýjað fjölskyldubílinn og aðra hluti sem nauðsynlegir eru í heimilishaldinu.

Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr aðstæðum þeirra sem minnst hafa á milli handanna þar sem mikil hækkun húsnæðisverðs og um leið húsaleigu skiptir miklu máli í daglegum heimilisrekstri. Samtökin eru sammála því að nauðsynlegt er að auka framboð húsnæðis, byggja fleiri íbúðir og þá ekki á dýrustu landskikum landsins þar sem lóðaverð og opinber gjöld gera íbúðarverð allt of hátt til að það gagnist öllum. Íbúðirnar þurfa að vera ódýrar og hagkvæmar.

Kjarasamningar undanfarinna ára hafa allir miðað að því að hækka lægstu laun en þær hækkanir hafa því miður haft þá tilhneygingu að fara upp allan launastigann. Það hefur ekki náðst samstaða um það meðal launafólks að þeir sem hafa meiri menntun eða bera meiri ábyrgð skuli hljóta lægri hlutfallshækkun launa en aðrir. Það er ekkert í sjónmáli sem bendir til að breyting verði á því viðhorfi.

Meginmarkmið SA í komandi kjarasamningum er að verja kaupmátt launa. Það er ekki gefið að það takist. Lífskjör fólks hafa að hluta batnað vegna ytri aðstæðna; gengi krónunnar hefur hækkað, vörugjöld hafa verið afnumin og auk þess hefur ferðamannastraumurinn til landsins aukist gríðarlega á undanförnum árum. Vegna þessa hefur verðbólgan verið lág og almennur stöðugleiki ríkt þrátt fyrir verulegar kauphækkanir undanfarinna ára.

Við hjá Samtökum atvinnulífsins höfum kynnt viðsemjendum áherslur okkar fyrir komandi samningaviðræður. Þar er meginstefið að viðhalda stöðugleika og tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og um leið hag fyrirtækjanna og starfsfólks þeirra. Það er allra hagur að stuðla að lágri verðbólgu og forsendum til að vextir geti lækkað. Við viljum auka sveigjanleika á vinnumarkaði með breytingum á vinnutímaákvæðum kjarasamninganna þannig að dragi úr yfirvinnu sem er miklu meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum.


Samtökin hafa áhyggjur af þeim mikla fjölda fólks sem hverfur af vinnumarkaði á ári hverju vegna veikinda, slysa eða af öðrum ástæðum. Það er nauðsynlegt að hjálpa þessum einstaklingum þannig að þeir geti sem best snúið aftur til starfa. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að vera virkur þátttakandi á vinnumarkaði, að skapa verðmæti og umgangast samstarfsfólk og vinnufélaga.

Verkalýðsfélögin hafa að undanförnu verið að kynna áherslur sínar og kröfur fyrir komandi samningagerð. Ég kýs að hlusta ekki mikið eftir stóryrtum yfirlýsingum þar sem kastað er fram hugtökum sem ekki hafa heyrst í áratugi. Kjarasamningar eru verkefni sem snúast um að ná sameiginlegri niðurstöðu verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda um kaup og kjör á næstu árum sem verða að vera í samræmi við efnahagsaðstæður og framleiðniaukningu fyrirtækjanna.  Kjarasamningar snúast um raunverulegan árangur fyrir þá aðila sem greiða og fá greitt, ekki sjónhverfingar.

Önnur niðurstaða en ofangreind er fyrst og fremst ávísun á meiri verðbólgu og hærri vexti en við viljum sjá. Að auki er hætta á að gengisþróunin verði launafólki óhagstæð, að störfum fjölgi ekki eins og þörf er fyrir og að einstök fyrirtæki þurfi að draga saman seglin.

Á fundum okkar vítt og breytt um landið höfum við fundið fyrir áhyggjum fólks og forsvarsmanna fyrirtækja sem óttast hugsanleg átök á vinnumarkaði.

Það er þó engin ástæða til að mála skrattann á vegginn fyrirfram.  Verkefnið framundan er ærið en vel leysanlegt með góðum vilja.“

Samtök atvinnulífsins