Viðtöl

1 MIN

Sannfæra þurfi fólk um að þetta sé það sem auki lífskjörin

Friðrik Pálsson

1 MIN

Sannfæra þurfi fólk um að þetta sé það sem auki lífskjörin

Fyrstu kynni Friðriks Pálssonar, eiganda Hótel Rangár, af íslenskri ferðaþjónustu voru í gegnum störf hans fyrir BBC á árum 1972-3. „Það gerðist í raun fyrir tilviljun, eins og margt í mínu lífi, að ég fór að starfa fyrir BBC. Þetta var í gegnum vin minn sem hét Magnús Blöndal Jóhannsson tónskáld. Menn frá BBC voru hérna heima í tvö sumur og það kom upp úr kafinu þegar þeir fóru að kynna sér umhverfið hérna að það væri ekkert verkalýðsfélag fyrir kvikmyndagerðarfólk. Það varð til þess að í staðin fyrir að þeir væru að koma hérna fjórir, fimm, sex eða sjö þegar, ég man ekki hvað þeir áttu að vera margir, þá komu þeir í rauninni bara tveir til að byrja með og svo var sá þriðji af og til. Ég var að aðstoða þá við að halda á græjunum og þess háttar og svo var ég bílstjóri. Seinna sumarið keypti ég mér reyndar bíl og leigði hann líka fyrir þá. Við vorum úti um allt land og ég er náttúrulega ungur maður á þessum tíma. Þetta var alveg gríðarlega skemmtilegt. Í fyrsta lagi fór ég út um allt land, þekkti Ísland ekkert óskaplega vel fyrir, er gamall sveitamaður. Í öðru lagi þá var þetta alveg gríðarlega mikil lífsreynsla að átta sig á þessu öllu saman. Sá sem var yfir þessu var fuglafræðingur þannig að ég lærði nöfnin á öllum íslenskum fuglum fyrst á ensku. Ég hef haldið mikið upp á það alla tíð síðan vegna þess að ensk nöfn á fuglum eru mjög skemmtileg og lýsa þeim oft vel.“

BIG

Það var svo seinna sumarið sem Friðrik starfaði fyrir BBC að hann vann að þáttagerð með David Attenborough. „Þá vorum við meira og minna norður við Mývatn. Þá fáum við hringingu um það hvort við getum drifið okkur suður til Vestmannaeyja og farið með báti til Surtseyjar því David Attenborough sé að koma að taka þar upp þátt sem eigi að nota um áramótin hjá BBC. Auðvitað var David Attenborough orðinn býsna þekktur maður á þessum tíma. Ég gerði mér þó enga grein fyrir því hvað hann væri mikið þekktur fyrr en hann kom fljúgandi í litlum Super Cub. Svo versnaði veðrið og við gátum ekki farið til baka í flugvélinni. Við gistum því þarna um nóttina, eða vorum öllu heldur í pínulitlum kofa, með einhverjum vísindamönnum sem voru algjörlega slefandi fyrir því að þessi maður væri þarna. Þá fór ég að gera mér betur grein fyrir því hversu þekktur hann væri.“

Komast verði að rót vandans

Þegar talið berst aftur að verðbólgunni viðrar Friðrik áhyggjur sínar af því að ungt fólk og jafnvel fólk upp undir miðjan aldur átti sig ekki á því hversu hættuleg verðbólgan geti verið. „Það er ekkert óskaplega langt síðan við komumst upp í það að vera með 80% verðbólgu. Fólk skilur það ekki. Það skilur ekki hvað það þýðir. Til að reyna að skýra það má nefna að ef þú fórst með 5.000 krónur út í búð, keyptir fyrir 3.700 krónur, komst að kassanum og áttir eftir 1.300 krónur. Þá vissir þú að það væri sniðugara fyrir þig að fara til baka og kaupa jafnvel klósettpappír eða eitthvað fyrir þennan 1.300 kall vegna þess að það myndi kosta 1.600 bara 10 dögum seinna. Þetta er svo skelfileg staða, sem étur í raun efnahagskerfið innan frá og þar með laun fólksins og lífsviðurværið. Það er því algjört lykilatriði að við náum tökum á verðbólgunni. Þá komum við aftur að því sem ég nefndi áðan með húsnæðismálin. Við verðum að komast að rótum vandans og uppræta þær.“

BIG

Fullur aðdáunar rifjar Friðrik upp þá miklu samstöðu sem myndaðist á meðal aðila vinnumarkaðarins í Þjóðarsáttarsamningunum sem hafi skapað nýtt þjóðfélag. „Þarna voru menn sem komu úr mörgum ólíkum áttum, en höfðu skilning á sameiginlegu markmiði sínu. Óumdeilanlega var sameiginlega markmiðið að ná tökum á verðbólgunni því hún var að eyðileggja þjóðfélagið. Ég vil leyfa mér að treysta því og finnst margt benda til þess þegar ég hlusta á fólk tala núna að það verði dregið svolítið úr þeirri orrahríð sem fólki virðist stundum þykja nauðsynleg.“

Friðrik segist hafa tröllatrú á því að gerðir verði samningar sem muni styðja við baráttuna gegn verðbólgunni. „Við erum með kynslóð núna, ef ekki tvær, sem veit ekki almennilega hvað verðbólgan er og skilur hana ekki alveg. Það þarf að fá þessar kynslóðir til að átta sig á því – eins og hefur til dæmis verið sýnt í tölum frá Samtökum atvinnulífsins – að bara eitt prósent lækkun á vöxtum þýði 33 þúsund krónur í vasann ef þú ert með 40 milljón króna lán. Það er skylda okkar sem eru eldri og þeirra sem eru að vinna í þessu, að sannfæra fólk um að það er þetta sem eykur lífskjörin.“

Hlustaðu á viðtalið í heild hérna.

Friðrik Pálsson

Eigandi Hótel Rangár