Viðtöl

1 MIN

„Fjölskyldufyrirtæki mega aldrei staðna“

Margrét Kristmannsdóttir

1 MIN

„Fjölskyldufyrirtæki mega aldrei staðna“

Pfaff hf. var stofnað 1929 og er enn í eigu sömu fjölskyldunnar og enn rekið á sömu kennitölunni. Margrét Kristmannsdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og tók við þeirri stöðu af föður sínum fyrir um 30 árum.

„Fyrirtækið byrjaði í raun bara á einni saumavél. Systir afa kom til hans árið 1929 og bað hann að skrifa fyrir sig bréf til Pfaff erlendis og fá að kaupa af þeim eina saumavél. Hún hafði heyrt að þetta væru bestu saumavélarnar. Afi hafði verið að kenna sjálfum sér þýsku og gerði þetta, en fékk þau svör að Pfaff vildi ekki selja honum eina vél, en ef hann pantaði sex vélar þá gæti hann fengið umboðið fyrir Pfaff hér á landi. Við rekjum því stofnun fyrirtækisins til 1929 þegar fyrsta saumavélin er seld.“

En fyrirtækið höfðaði takmarkað til Margrétar þegar hún var yngri. „Mér fannst þetta alveg óskaplega hallærislegt fyrirtæki þarna í denn, þannig að það er ekki með mig eins og er algengt með fjölskyldufyrirtæki, að ég hafi byrjað þarna kornung. Ég kem í rauninni ekkert inn í fyrirtækið fyrr en ég klára nám og kem heim úr framhaldsnámi 29 ára gömul. Þá hugsaði ég sem svo, að ég gæti prófað þetta í eitt ár, en síðan eru liðin 30 ár. Svona líður tíminn.“

Að mati Margrétar skiptir máli að vera óhrædd við að gera breytingar. „Ég tel það vera lán fyrirtækisins að við sem höfum rekið fyrirtækið; afi, pabbi og svo ég, höfum verið óhrædd við að breyta rekstrinum. Ég held að það geti verið banabiti fyrirtækja - og ekki bara fjölskyldufyrirtækja - að hlutirnir eru alltaf gerðir eins. Þannig að við höfum verið óhrædd við að henda út heilu vöruflokkunum og aðlaga rekstur fyrirtækisins því sem við teljum rétt að gera, en líka því sem okkur langar að gera. Það er ekkert endilega víst að mig langi til að reka sama fyrirtæki og pabbi gerði og afi gerði.”

Þá hugsaði ég sem svo, að ég gæti prófað þetta í eitt ár, en síðan eru liðin 30 ár.

Margrét segir starfsfólkið vera algert lykilatriði í því að reka fyrirtæki eins og Pfaff. Við leggjum mjög mikið upp úr því að vera með gott fólk sem veit hvað það er að tala um. Og við lítum á starfsfólkið okkar sem hluta af Pfaff fjölskyldunni. Þegar ég tala um „Pfaff fjölskylduna“ er ég ekki bara að tala um okkur systkinin og mömmu og pabba, heldur er starfsfólkið fjölskyldan okkar. Fólkið okkar er bara ótrúlega trygglynt fyrirtækinu og leggur sig fram alla daga 110% og hefur mikinn metnað fyrir hönd fyrirtækisins. Þannig að, ef starfsfólkið okkar myndi labba út væri lítið varið í Pfaff.”

Hún segir að það sé ekki aðalatriði hvernig finna eigi gott fólk, heldur hvernig halda eigi í það. „Þú þarft náttúrulega að borga fólki þokkaleg laun, en það sem skiptir ekki minna máli er að vera bara almennileg manneskja. Að sýna fólki áhuga, láta fólk finna að þér er ekki sama um það. Gróði er fyrirtækjum lífsnauðsynlegur, en þegar þú ert kominn í einhverja græðgi þá ertu kominn á hálan ís. Það þarf að reka fyrirtæki með hagnaði, en það skiptir líka miklu máli að starfsfólk og viðskiptavinir finni að hagnaðurinn er ekki það sem þú leggur alla áherslu á.“

Margrét segir að hennar mikilvægasta hlutverk hjá Pfaff sé að tryggja að starfsfólkið hafi öll tæki og tól til að vinna sína vinnu sem best. „Ég skipti mér ekki mikið af því, af því að ég treysti fólkinu mínu mjög vel. Mitt hlutverk er meira þetta utanumhald, að tryggja að fólki líði vel og hafi allt sem það þarf til að veita viðskiptavinum eins góða þjónustu og hægt er.”

Þegar ég tala um „Pfaff fjölskylduna“ er ég ekki bara að tala um okkur systkinin og mömmu og pabba, heldur er starfsfólkið fjölskyldan okkar. Fólkið okkar er bara ótrúlega trygglynt fyrirtækinu og leggur sig fram alla daga 110% og hefur mikinn metnað fyrir hönd fyrirtækisins.

Hún segir að það sé einkum tvennt sem geti gert út af við fjölskyldufyrirtæki. „Annars vegar, þegar fyrirtækin eru alltaf að gera sömu hlutina eins og þeir hafa alltaf verið gerðir, engu er breytt og fyrirtækið staðnar. Og svo líka það, að leyfa nýrri kynslóð ekki að taka við með eðlilegum hætti, heldur sé gamla kynslóðin alltaf að skipta sér af. Treystu börnunum þínum til að leiða fyrirtækið inn í nýja tíma. Þetta held ég að sé oft erfitt – að losa um stjórnartaumana. Þú ert kannski formlega búinn að afhenda börnunum framkvæmdastjórastöðuna, en ert samt endalaust að skipta þér af.“

Hún segir að hennar stóra lán sé að þykja ennþá mjög gaman í vinnunni. „Ég hlakka alltaf til að mæta í vinnuna, hitta starfsfólkið og glíma við ólík verkefni. Það held ég að sé númer eitt, tvö og þrjú. Svo tikkar alltaf í hjartanu þegar ég heyri í viðskiptavinum sem eru ánægðir með þjónustuna og vörurnar.”

Íslensk fyrirtæki eru jafn ólík og þau eru mörg, áskoranirnar mismunandi og engin vinnudagur er eins. Þessu viljum við fagna með því að segja sögur af fjölbreyttu fólki í rekstri og þeim ótal viðfangsefnum sem það fæst við í daglegu amstri. Litríkt og blómlegt atvinnulíf skiptir okkur öll máli.

Margrét Kristmannsdóttir

Framkvæmdastjóri Pfaff