Vinnumarkaður - 

20. Janúar 2012

Yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins vegna uppsagnarákvæðis kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins vegna uppsagnarákvæðis kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að nýta ekki uppsagnarákvæði kjarasamninga hinn 31. janúar næstkomandi þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki efnt fyrirheit sem gefin voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana 5. maí 2011. Sérstakt samkomulag milli samningsaðilanna var undirritað í dag sem staðfestir þessa ákvörðun.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að nýta ekki uppsagnarákvæði kjarasamninga hinn 31. janúar næstkomandi þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki efnt fyrirheit sem gefin voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana 5. maí 2011. Sérstakt samkomulag milli samningsaðilanna var undirritað í dag sem staðfestir þessa ákvörðun. 

Samkvæmt ákvæðum kjarasamninganna frá 5. maí 2011 voru forsendur þeirra að á árinu 2011 færi kaupmáttur vaxandi, verðlag væri stöðugt, gengi krónunnar styrktist marktækt og að ríkisstjórnin efndi gefin fyrirheit. SA og ASÍ eru sammála um að ekki sé ástæða til uppsagnar kjarasamninga vegna þróunar kaupmáttar, verðlags og gengis krónunnar en að forsendan um efndir ríkisstjórnarinnar á gefnum fyrirheitum hafi ekki staðist.

SA telja að uppsögn samninga leiði ekki til betri stöðu fyrir atvinnulífið eða samfélagið í heild. Uppsögn kjarasamninga muni ekki bæta skilyrði fyrir fjárfestingar í atvinnulífinu, fjölgun starfa og minna atvinnuleysi. Fjölmörg fyrirheit ríkisstjórnarinnar hafa ekki verið efnd en veigamest er að væntingar um auknar fjárfestingar og hagvöxt eru ekki að ganga eftir. Nýleg ákvörðun um skattlagningu lífeyrissjóða bætist síðan við sem gengur þvert á markmið yfirlýsingarinnar um lífeyrismál og eykur ójafnræði milli almennra lífeyrissjóða og þeirra sem eru á vegum hins opinbera.  

SA vekja athygli á því að forsendur kjarasamninganna í janúar 2013 eru þær að kaupmáttur hafi vaxið áfram, verðbólga verði 2,5% og að gengi krónunnar hafi styrkst þannig að gengisvísitalan fari í 190, en hún er nú um 220. Þetta mun vart ganga eftir nema með umtalsverðu innstreymi erlends fjármagns, einkum vegna orkuframkvæmda og erlendra fjárfestinga í orkufrekum iðnaði.

SA hafa lagt sig fram um að vinna með ríkisstjórninni svo sem Stöðugleikasáttmálinn frá júní 2009 og kjarasamningarnir 5. maí 2011 bera glöggt vitni um en ekki haft erindi sem erfiði. Ríkisstjórnin hefur hins vegar skapað mikið vantraust í sinn garð hjá þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem mynda Samtök atvinnulífsins og sýnt að hún er ekki traustsins verð.

Yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins vegna uppsagnarákvæðis kjarasamninga (PDF)

Tengt efni:

Yfirlýsing samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og SA vegna opnunarákvæða kjarasamninga 20. janúar 2012

Samtök atvinnulífsins